Augu umheimsins beinast að Úkraínu þessa daga og baráttu landsmanna gegn hinu rússneska innrásarliði. Íslenskir fjölmiðlar fylgjast eðli málsins grannt með gangi mála. Hefur margt verið gert vel í þeim efnum og annað miður eins og gengur og gerist. Efnistökin hafa verið fjölbreytt. Fjölmiðlar hafa verið í miklum samskiptum við Íslendinga sem eru staðsettir í Úkraínu og hafa flutt fróðleg viðtöl við þá sem dýpka skilning hlustenda á þeim ömurlega hildarleik sem hófst með innrás rússneskra stjórnvalda.

Ríkisútvarpið hefur haft tvo fréttaritara í Úkraínu undanfarna daga. Jón Björgvinsson annars vegar, sem hefur lengi ferðast til átakasvæða og flutt fréttir af gangi mála, og svo Ingólf Bjarna Sigfússon, rannsóknarfréttamann Kveiks, hinsvegar. Verulegur munur hefur verið á fréttaskeytum þeirra á RÚV. Á þriðjudag var Jón með fróðlega frétt þar sem hann slóst í för með úkraínskum hermönnum og ræddi við þá og almenna borgara sem á vegi hans urðu í aðdraganda innrásarinnar.

Annar bragur hefur verið á fréttaskeytum Ingólfs frá Úkraínu. Í raun er álitamál hvort hægt sé að tala um fréttaskeyti í þessu samhengi, þar sem fréttagildið hefur verið nánast ekkert. Þessi fréttaflutningur hefur vakið töluverða athygli og orðið til umræðu á samfélagsmiðlum. Steinar Sveinsson leiðsögumaður var einn þeirra sem lögðu orð í belg og talaði fyrir munn margra þegar hann skrifaði:

„Fréttamaðurinn hafði í raun aldrei neitt sérstakt að segja sem bætti einhverju við allt sem kom fram í stærri og þroskaðri alþjóðlegum fjölmiðlum, eða sem aðrir íslenskir fjölmiðlar höfðu eftir Íslendingum búsettum í Úkraínu og gjörþekkja allar aðstæður í landinu. Í raun gerði fréttamaðurinn lítið ann- að en að bresta nánast í grát, og fljótlega fóru allar fréttir að snúast um hans eigin upplifun og tilfinningalíf og nú síðast flótta hans af vettvangi, þar sem hann virðist í bílaröð meðal almennings eingöngu vera að þvælast fyrir íbúum landsins sem eru á flótta."

***

Viðbrögðin við þessum fréttaflutningi urðu til þess að Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, sendu frá sér yfirlýsingu þar sem sérstaklega var tekið fram að Ingólfur Bjarni væri ekki stríðsfréttaritari og því fagnað að hann og tökumaður væri komnir til Póllands í öruggt skjól. Það duldist fæstum sem fylgdust með áðurnefndum fréttaskeytum Ingólfs að hann væri ekki stríðsfréttaritari og var því lítil ástæða fyrir stjórnendur á RÚV að taka það sérstaklega fram. En aftur á móti má spyrja; hvaða erindi taldi RÚV þessi skeyti eiga í fjölda fréttatíma? Ef það stendur aftur til að senda Ingólf út með tökumann ætti sú dagskrárgerð betur heima á annarri sjónvarpsstöð - það er að segja á þeirri forsendu að Sveppi og pabbi hans verði með í för og Rikki G. með hamborgara í hönd á kantinum.

***

Umfjöllun fjölmiðla um málefni Samherjafjórmenningana svokölluðu undanfarna viku hefur að mestu snúist um lögmæti ákvörðunar lögreglu um að veita rannsóknarblaðamönnunum réttarstöðu sakborninga. Í sjálfu sér er fátt við það að athuga. En athygli vekur að fjölmiðlar hafi ekki fjallað með ítarlegri hætti um þau atriði sem koma fram í gögnum málsins. Ekki síst í ljósi þess að atburðarásin sem lög- reglan hefur til rannsóknar er reyfarakennd svo ekki sé fastar að orði kveðið og vekur áleitnar spurningar um málið í heild sinni.

Þannig kemur fram í greinargerð embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að síma Páls Steingrímssonar skipstjóra hafi verið stolið með óvönduðum meðulum, ef svo má að orði komast, gagngert til þess að koma í hendur fjölmiðla. Fram kemur í greinargerðinni að síma- þjófurinn hafi afhent ónefndum fjölmiðlamanni símann og verið síðan í samskiptum við annan fjölmiðlamann vegna málsins.

Eins og fram kemur í greinargerðinni þykir ljóst að þeir sem fengu símann hafi þurft að fara gegnum allt efni hans áður en hann var afritaður að hluta eða öllu leyti. Þá segist lögreglan vera með töluvert af samskiptum hins meinta þjófs við fjölmiðlamenn. Þar segir:

Í símasamskiptum þessum kemur fram að fjölmiðlamaður er með í fórum sínum síma í eigu X. X biður fjölmiðlamann- inn um að hitta sig ofl. T.d er tölvupóstur sem X ræðir við fjölmiðlamanninn um minnis- lykil, eignarhald og aðgangsorð. "

Þá kemur einnig fram að sá sem stal símanum hafi farið til Reykjavíkur 23. júní til að „biðja þá hjá RÚV að hætta að birta gögn úr síma brotaþola". Einnig kemur fram að símaþjófurinn segist hafa verið hent út af RÚV af fjölmiðlamanninum sem tók upphaflega við símanum.

***

Þessi atvikalýsing er með svo miklum ólíkindum að best er að hafa um hana sem fæst orð að svo komnu máli. En eigi hún við rök að styðjast hlýtur hún að kalla á umræðu hvort það geti raunveru- lega verið réttlætanlegt að fjöl- miðlar geti stolið tækjum sem innihalda flestar þær upplýsingar sem koma við sögu í daglegum erindum fólks og gramsað í þeim þangað til þeir finna eitthvað sem þeim þykir fréttnæmt.

Í umræðu um málefni Samherjafjórmenningana er iðulega vísað til þess að þær upplýsingar sem fjallað var um á sínum tíma og voru væntanlega fengnar úr hinum stolna síma hafi átt erindi við almenning og jafnvel varðað almannahag.

Það er ekki óumdeild skoðun. Fjölmiðlarýnir fjallaði um þetta mál 31. maí í fyrra. Þar segir:

„Stundin og Kjarninn gerðu sér mat í síðustu viku úr gögnum sem virðast hafa verið fengin úr illa fengnum síma starfs- manns Samherja. Fleiri miðlar endurómuðu þann fréttaflutn- ing. Þrátt fyrir stórbokkalegt tal og ósmekklegt á köflum úr netsamtölum þremenninga sem starfa fyrir Samherja eru þær afhjúpanir Stundarinnar og Kjarnans ekkert sérlega merkilegar. Þannig kemur fram að almannatengill og lögfræðingur hafi aðstoðað skipstjóra Samherja við að berja saman nokkrar aðsendar greinar þar sem málstað fyrirtækisins er haldið á lofti auk nokkurra athugasemda á umræðum á Facebook. Eitthvað eru nú illa rekin trippin í Eyjafirði ef Samherji þarf að reiða sig á Facebook-innlegg eins skipstjóra á meðan stærstu fyrirtæki landsins réðu yfir heilum bloggherjum á árum áður.

Þá gera fjölmiðlar sér mat úr því að þetta hópspjall þremenninganna snerist meðal annars um skoðanaskipti á formannskjöri í Blaðamanna- félaginu og val á oddvita sjálf- stæðismanna í Norðaustur- kjördæmi. Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir að Samherji hafi beitt sér í málunum fluttu fjölmiðlar fréttir eins og fyrirtækið hefði beitt sér með óeðlilegum hætti. Enda byggði fréttaflutningurinn á einhverjum skoðanaskiptum og bollaleggingum.

Þegar öllu er á botninn hvolft stendur lítið eftir af þessum fréttaflutningi annað en frá- sagnir af einhverju spjalli fólks sem virðist gera sig breiðara en efni stendur til. En það virðist duga til að þyrla upp moldviðri og hugsanlega er leikurinn til þess gerður ."

Ekkert hefur komið fram frá því að þetta var skrifað sem breytir skoðun höfundar á málinu.