Þorsteinn J. Vilhjálmsson er fjölmiðlarýni hugleikinn um þessar mundir. Ríkisútvarpið hefur að undanförnu flutt vandaða og áhrifamikla útvarpsþáttaröð hans um Skeggja Ásbjarnarson barnaskólakennara. En það er ekki síður heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu sem hefur fengið undirritaðan til að hugsa til Þorsteins. Nánar tiltekið umgjörð Ríkisútvarpsins um útsendingar frá keppninni.

Svo virðist sem að Þorsteinn J. sé einn af fáum íslenskum fjölmiðlamönnum sem gerir sér grein fyrir að stórmót í knattspyrnu snerta marga strengi þjóðlífsins og að áhuginn á slíkum keppnum nær langt út fyrir það mengi sem fylgist með knattspyrnu frá degi til dags. Þess vegna er þau skipti sem Þorsteinn hefur haft lyklavöldin í HM-stofunni minnistæð. Að ekki sé minnst á umsjón hans með EM-stofunni.

Þorsteinn veit að knattspyrna er menning og þar af leiðandi eiga fulltrúar allra þjóðfélagshópa í knattspyrnustofuna hans. Dagskrárgerðin kæruleysisleg, snörp og fagleg og Þorsteinn fundvís á fyndna fleti á sparkinu. Ekkert af þessu einkennir umgjörð Ríkisútvarpsins um mótið í Katar. Að minnsta kosti enn sem komið er.

HM-stofan er fremur leiðinlegt og fyrirsjáanlegt sjónvarp. Þáttastjórnandi situr með sparkspekingum af tveimur af þeim fjölmörgu kynjum samtímans og stundum bætist annar fulltrúi íþróttadeildar RÚV í hópinn. Og fyrir hvern einasta leik er mikið rætt um nauðsyn þess að „fara hratt upp kantanna“ og „pressa hátt.“ Og til þess að halda áhorfendum við efnið er boðið upp á sömu umræðu eftir leiki.

***

Enn undarlegri er sú ákvörðun Ríkisútvarpsins að senda þrjá fulltrúa til Katar að fylgjast með keppninni. Undarleg í því ljósi að erindið þeirra er ekkert nema kannski að græta formann Knattspyrnusamband Íslands við umferðareyju þar um slóðir.

Innslög þeirra Eddu Pálsdóttir íþróttafréttamanns og Heimis Hallgrímssonar landsliðsþjálfara Jamaíka hafa verið rýr í roðinu og bætt engu við þá umfjöllun sem landsmönnum er aðgengileg þvert á móti. Þannig snérist fréttaflutningur Eddu fyrir leik Katar og Ekvador um að hann verið þrjá klukkutíma á leið sinni frá hóteli að leikvanginum en hún hafði gert ráð fyrir hálftíma ferðalagi. Innslag hennar á mánudag um hversu leiðinlegt væri á stuðningsmannasvæðum borgarinnar var ekki síður óáhugavert.

Reyndar er það einkennandi fyrir Ríkisútvarpið að senda fréttamenn í einhverjar erindisleysu á erlendan vettvang. Bjarmalandsför Ingólfs Bjarna Sigfússonar fréttamanns til Úkraínu við upphaf innrásar Rússa er mörgum í fersku minni enda vakti hún töluverða athygli. Ekki á jákvæðum forsendum. Rétt er að rifja upp skrif Steinars Sveinssonar á samfélagsmiðlum um málið:

Fréttamaðurinn hafði í raun aldrei neitt sérstakt að segja sem bætti einhverju við allt sem kom fram í stærri og þroskaðri alþjóðlegum fjölmiðlum, eða sem aðrir íslenskir fjölmiðlar höfðu eftir Íslendingum búsettum í Úkraínu og gjörþekkja allar aðstæður í landinu. Í raun gerði fréttamaðurinn lítið annað en að bresta nánast í grát, og fljótlega fóru allar fréttir að snúast um hans eigin upplifun og tilfinningalíf og nú síðast flótta hans af vettvangi, þar sem hann virðist í bílaröð meðal almennings eingöngu vera að þvælast fyrir íbúum landsins sem eru á flótta.“

Vissulega geta verið góðar ástæður fyrir að senda tíðindamenn á vettvang erlendis en forsenda þess er að þeir hafi eitthvað nýtt fram á að færa og bæta einhverju við sem almenningar fá að heyra frá öðrum fjölmiðlum. Það verður ekki sagt um sendiför Eddu til Katar frekar en hinn undarlega gjörning sem fréttaflutningur Ingólfs Bjarna frá stríðsátökum í Úkraínu var. Einnig er þetta áberandi þegar fréttastofa RÚV sendir menn á vettvang í aðdraganda þingkosninga í nágrannaríkjunum. Það hefur til þessa bætt sáralitlu við annan fréttaflutning.

Vissulega kann að vera skemmtilegt fyrir ríkisstarfsmenn að fara í boði vinnunnar á framandi slóðir. Þannig hefur það komist kyrfilega til skila að það er mjög gaman hjá Eddu þarna út í Katar. En í augum skattgreiðenda er þetta fyrst og fremst til marks um að starfsmenn Ríkisútvarpsins líti svo á að tilvist stofnunarinnar sé eingöngu í þeirra þágu. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart svona í ljósi þess að stofnunin er farin boða reglulega til þinghalds eins og fjallað var um á þessum vettvangi fyrir skömmu.

***

Að þessu sögðu má hrósa lýsendum leikjanna sem og öðrum fjölmiðlum fyrir umfjöllun sína um mótið. Hún hefur verið stakrar prýði. Sérstaklega er vert að nefna hlaðvörpin Doctor Football og Steve dagskrá í þessu samhengi. Umsjónarmenn HM-stofunnar á RÚV gætu til að mynda hlustað á þau til að sjá hvernig umræða um heimsmeistaramótið getur verið skemmtileg og fróðleg í senn.

***

Sumum fjölmiðlum hefur gengið illa að meðtaka þá staðreynd að umfjöllun um Excel-skjal í tengslum við útboð Bankasýslunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka byggir á misskilningi sérfræðinga Ríkisendurskoðunar. Sá misskilningur er auðvitað sjálfstætt fréttaefni. Sem kunnugt er þá var skýrslu Ríkisendurskoðunar lekið í degi fyrir birtingu og fréttir fóru að birtast af því að Bankasýslan hafi vanmetið eftirspurnina í útboðinu vegna slóðaskapar í færslum á tilboðum í Excel-skjal sem var notað til að halda utan um verkefnið.

Sem fyrr segir er þetta misskilningur. Hörður Ægisson ritstjóri Innherja segir í leiðara sem birtist á þriðjudag á miðlinum:

Ríkisendurskoðunar gerir sömuleiðis í úttekt sinni mikið úr vinnuskjali á Excel-sniðmáti sem það fékk frá Bankasýslunni þar sem finna mátti tilboð sem voru ekki rétt stimpluð inn á tilteknum tímapunkti þegar söfnun tilboða frá fjárfestum stóð enn yfir. Byggt á þeim upplýsingum dregur Ríkisendurskoðun þá ályktun að Bankasýslan hafi hugsanlega vanmetið heildareftirspurn fjárfesta þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin að kvöldi þriðjudagsins 22. mars síðastliðinn. Þegar athugasemdir Bankasýslunnar eru hins vegar lesnar virðist ljóst að sú fullyrðing Ríkisendurskoðunar stenst enga skoðun og samræmist alls ekki gögnum málsins. Umrætt vinnuskjal var í stöðugri uppfærslu samhliða því að tilboðsbókin, sem Íslandsbanki en ekki Bankasýslan hélt utan um sem leiðandi söluráðgjafi, er að stækka að jafnaði um hálfan milljarð á hverri mínútu og búið er að leiðrétta þær innsláttarvillur í skjalinu áður en ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð er tekin síðar sama kvöld.„

Áhugavert er að þeir miðlar sem sögðu ofangreindar fréttir hefur ekki verið sérstaklega umhugað að leiðrétta þann misskilning nú þegar hið sanna hefur komið í ljós. Bendir það til þess að eitthvað fjölmiðlafólki hefi haft meiri áhuga á að sverta útboðið en að segja satt og rétt frá.

Í þessu samhengi má benda á að fjallað er um málið á vefsíðu tímaritsins Euromoney. Þar er fyrirsögnin á grein Marks Baker: No, Iceland did not misprice a privatization because of an Excel snafu. Eða „Nei, Íslendingar verðlögðu einkavæðingarverkefni ekki vitlaust vegna Excel klúðurs.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði