Margir telja að það sé jaðarskoðun að hagvöxtur sé ekkert sérstaklega eftirsóttur í hinu stóra samhengi hlutanna. Annað virðist vera uppi á teningnum á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Í kvöldfréttum á mánudag var fjallaði Elsa María Guðlaugs Drífudóttir fréttakona um þá staðreynd að olíunotkun hér á landi sé að aukast samhliða auknum umsvifum í efnahagslífinu. Eins og gefur að skilja dróst olíunotkun saman á tímum heimsfaraldursins og fáum eða nokkrum datt í hug að það ástand myndi vara til langframa. Það er að segja að samdráttur í hagvexti væri leið til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis sem gæti komið í stað orkuskipta og tækniframfara. Í fréttinni bar Elsa María upp eftirfarandi spurningu:

„Svo virðist sem hagvöxtur og notkun á jarðefnaeldsneyti haldist í hendur og með auknum hagvexti þá notum við meira eldsneyti. Það er kannski óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að fórna öðru í þágu hins.“ Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var fenginn til að svara spurningunni. Hann taldi ekki rétt að stilla þessu upp sem andstæðum eins og fréttakonan gerði og sagði að þetta snerist á endanum um að nýta tækni til þess að skapa sem mest verðmæti á notkun hverrar orkueiningar. En aðspurður sagði hann að auk hagrænna hvata þyrftu að koma til boð og bönn.

Skiptar skoðanir kunna að vera á því og það leiðir hugann af hverju talsmaður Loftlagsráðs sé svona vinsæll viðmælandi fréttastofunnar eins og áður hefur verið vikið að á þessum vettvangi. Ekki frekar en áður kom aldrei skýring á því hvað Loftslagsráð væri. Áttuðu áhorfendur sig á því að þetta væri ekki opinbert stjórnvald eða akademískt apparat?

Loftslagsráð starfar á grundvelli laga um loftslagsmál og er skipað fulltrúum sveitarfélaga, launþega, neytenda, viðskipta- og atvinnulífs, bænda, háskólasamfélagsins, umhverfisverndarsamtaka og ungs fólks. Og eins og áður veltir fjölmiðlarýnir fyrir sér hvort einhverjir aðrir lobbíistar fengju að mæta beint í fréttatíma RÚV og masa svona eins og allt væri það óyggjandi staðreyndir.

***

Stundum á vef Ríkisútvarpsins má sjá fréttir sem birst hafa í öðrum miðlum en eru settar fram sem ný tíðindi. Þannig mátti lesa á vef ríkismiðilsins á mánudag frétt um að forsætisnefnd beri að afhenda skýrslu setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols. Í fréttinni segir:

„Forsætisnefnd Alþingis er ekki einungis heimilt, heldur beinlínis skylt, að afhenda greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, frá árinu 2018 um málefni eignarhaldsfélagsins Lindarhvols. Þetta er niðurstaða lögfræðiálits sem Flóki Ásgeirsson lögmaður hjá Magna lögmönnum vann að beiðni nefndarinnar. Álitið er orðið tveggja ára gamalt, en leit ekki dagsins ljós fyrr en fyrir helgi.”

Allt er þetta svo sem satt og rétt en frétt getur þetta ekki talist.

Ekki ný frétt að minnsta kosti. Þannig er mál með vexti að sagt var frá þessu lögfræðiáliti í Viðskiptablaðinu í maí í fyrra og kom þar fram að niðurstaða þess var að afhenda bæri skjalið. Þó ekki í heild sinni því í því væru að finna upplýsingar sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt með vísan til fjárhagslegra upplýsinga um aðila sem þar koma fyrir.