*

mánudagur, 6. júlí 2020
Daníel Svavarsson
3. apríl 2017 14:55

Erlendir ferðamenn sífellt mikilvægari

Neysluhegðun Íslendinga hefur breyst töluvert undanfarinn áratug, en erlendir ferðamenn koma til bjargar.

Haraldur Guðjónsson

Verslun á Íslandi er búin að ná sér ágætlega á strik eftir mikinn samdrátt á árunum 2008 til 2010. Á þessu þriggja ára tímabili dróst neysla Íslendinga saman um 228 milljarða króna á verðlagi ársins 2016. Þrátt fyrir að neyslan hafi vaxið samfleytt ár frá ári undanfarin sex ár var hún í fyrra enn tæplega 3% minni en árið 2007. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um 10% og kaupmáttur launa aukist um 14% og því blasir við að neysluhegðun almennings hefur breyst töluvert undanfarin áratug.

Breytt hegðun endurspeglast m.a. í miklum samdrætti í verslun með varanlegar neysluvörur, svo sem fellihýsi, húsvagna, sportbáta og bíla, miðað við árið 2007. Kaup á þessum vörum voru í mörgum tilfellum fjármögnuð með lánsfé en stöðugur samdráttur í greiðslukorta- og yfirdráttarlánum landsmanna síðustu ár bendir til þess að Íslendingar hafi dregið verulega úr skuldsettri neyslu. Að sama skapi hefur áhugi Íslendinga á erlendri netverslun aukist gríðarlega síðustu ár. Fjöldi pakkasendinga til einstaklinga hefur sjöfaldast frá árinu 2012. Á sama tíma ferðast landsmenn út fyrir landsteinana sem aldrei fyrr og nýta oftar en ekki tækifærið til verslunar. Kortaviðskipti Íslendinga beint við erlenda aðila stað­ festa gríðarlegan vöxt í þessum liðum síðustu ár en kortavelta einstaklinga erlendis hefur aukist um ríflega 53 milljarða króna frá árinu 2012, mælt á föstu gengi.

Erlendir ferðamenn til bjargar

Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi nam 232 ma.kr. í fyrra sem var rúmlega fjórðungur heildarkortaveltu í verslun í landinu. Kortavelta ferðamanna mælir þó ekki alla neyslu þeirra hér á landi. Þannig var kortavelta ferðamanna á bilinu 54-59% af heildarneyslu þeirra hér á landi á árunum 2012-2015. Kortavelta erlendra ferðamanna á síðasta ári jókst mun hraðar en kortavelta Íslendinga innanlands; kortavelta erlendra ferðamanna jókst um 40% en Íslendinga um 8%. Kortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi hefur vaxið mikið á síðustu árum. Þannig var kortavelta þeirra 74 ma.kr. árið 2012 og óx veltan því að meðaltali um þriðjung á hverju ári fram til ársins 2016. Til samanburðar jókst velta í smásölu um að meðaltali 5,8% á sama tíma. Það er því ljóst að erlendir ferðamenn hafa sífellt aukin áhrif á verslun og þjónustu hér á landi.

Eðlilega tengist stór hluti af útgjöldum ferðamanna ferðaþjónustu með beinum hætti, s.s. vegna flugs, gistingar og annarrar sérhæfðrar ferðaþjónustu, en alls greiddu þeir um 118 ma.kr. í þessa þjónustuliði með greiðslukortum sínum í fyrra. Fjórði stærsti útgjaldaliðurinn í kortaveltu erlendra ferðamanna er verslun þar sem þeir greiddu um 30 ma.kr. með greiðslukortum. Stærsti liðurinn undir verslun er önnur verslun, sem inniheldur allt frá gólfefnaverslunum til gæludýrabúða. Í þessum flokki eru ferðamenn einna stórtækastir í bókaverslunum sem er tæp 14% liðarins, eða rúmlega 1,2 ma.kr., sem gerir tæpar 700 krónur á hvern ferðamann. Þar á eftir kemur dagvara með um 7,5 milljarða króna og fataverslun með ríflega 5,3 milljarða króna.

Airbnb-áhrifin

Erlendir ferðamenn hafa einnig haft óbein áhrif á smásöluverslun á Íslandi. Skýrustu merkin um þetta er að sjá í vöruflokkum þar sem augljós tenging er t.a.m. við aukningu í heimagistingu. Þetta endurspeglast m.a. í sölu á vefnaðarvörum til heimilisnota þar sem árleg sala hefur aukist af miklum krafti allt frá árinu 2010 og var 15% meiri í fyrra en árið 2007. Í þessum vöruflokki eru m.a. sængurföt og handklæði sem nauðsynlegt er að bjóða upp á í heimagistingu fyrir ferðamenn en krefjast reglulegrar endurnýjunar. Það er ljóst að ferðamannastraumurinn hefur á síðustu árum haft víðtæk áhrif á stærstan hluta íslensks atvinnulífs, ekki síst á verslun og þjónustu.

Höfundur er forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.