*

laugardagur, 19. september 2020
Sigurður Svansson
27. september 2019 19:02

Ertu tilbúinn? Spjallmenningin tekur yfir

Snjallmennin eru enn ein viðbótin við fjölbreytta flóru markaðstóla. Þó þau henti kannski ekki öllum er þó ljóst að gríðarleg tækifæri fólgin í þeim.

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.
epa

Í síðustu viku fórum við, tveir starfsmenn stafrænu auglýsingastofunnar SAHARA, Sigurður Svansson og Sigurður Már Sigurðsson á ráðstefnuna Conversations 2019 í Austin, Texas, að kynna okkur nýjungar á sviði skilaboðamarkaðssetningar ( e. messenger marketing) en SAHARA hefur undanfarið ár í síauknum mæli tekið að sér gerð spjallmenna í þeim tilgangi. Á ráðstefnunni sem er sú stærsta á þessu sviði voru margir fremstu sérfræðinga í heiminum saman komnir til að fjalla um þá spennandi tíma sem framundan eru. Þar á meðal Neil Patel, Mari Smith, Randi Zuckerberg og Mikael Yang svo fáir séu nefndir. Stærstu fréttirnar voru að spjallkerfin eru að verða stærri en samfélagsmiðlarnir, þar sem 2020 verða fleiri á þeim heldur en þeir sem eru með prófíl á samfélagsmiðlum.

Á ráðstefnunni var hugtakinu skilaboðamarkaðssetningu (e. messenger marketing) breytt formlega í spjallmarkaðssetningu (e. chat marketing) en hugmyndafræðin á bak við það er sú að það hvernig fólk á í samskiptum við fyrirtæki speglar alltaf hvernig fólk á í samskiptum við hvort annað. Möguleikarnir sem fyrirtæki geta nýtt sér í gegnum spjallmiðla hafa aukist og munu gera það enn frekar í nánustu framtíð. Með því að nýta sér þessa möguleika geta fyrirtæki mætt kröfum neytenda um skjót og skýr svör. Rannsóknir hafa sýnt að aðeins 20% einstaklinga á aldrinum 18 - 29 ára kjósa að eiga samskipti í gegnum síma á meðan 61% þeirra kjósa frekar að eiga samskipti í formi textaskilaboða svo það er til mikils að vinna að auka og bæta þjónustu á þeim vettvangi, bæði með fólki og spjallmennum, en spjallmennin geta hæglega séð um algengustu spurningarnar, t.d. um vörur, þjónustu og opnunartíma án þess að manneskja þurfi að koma að því, sem sparar bæði neytandanum og fyrirtækinu dýrmætan tíma.

Markmið Facebook voru mikið til umræðu á ráðstefnunni í ár en það er áberandi hversu mikil mörk þeir kjósa nú að setja þeim sem auglýsa, með það að augnamiði að standa vörð um einstaklinginn og hans samskipti á miðlinum. En það gefur kannski augaleið því ef ekki er gætt jafnvægis fara notendurnir annað og allir tapa. Þetta felur líka í sér að fyrirtæki komast ekki lengur upp með að henda út óvönduðum auglýsingum á hvern sem er þvert á miðla. Ef þau ætla sér að ná árangri verða þau að sníða allt efni í takt hvern miðil og notendur hans.

Með aukinni tækni öðlumst við sífellt fleiri snertifleti við viðskiptavini. Þess vegna er mikilvægt að festast ekki í skotgröfum eins og: annað hvort póstlistar eða spjallmenni, útvarp eða sjónvarp, stafrænar auglýsingar eða hefðbundnar. Leiðin er almiðla markaðssetning (e. omni channel marketing), þ.e. að sérsníða markaðsefni eftir miðlum, blanda ólíkum miðlum saman og nýta sér mismunandi eiginleika þeirra hverju sinni til að auka virði vörumerkisins, bæta upplifun viðskiptavina og auka árangurinn af markaðsstarfi. Hlutverk markaðsfólks er að ná til neytendanna þar sem þeir eru. Þess vegna stoðar lítið að streitast á móti og hanga í sama farinu. Snjallmennin eru enn ein viðbótin við fjölbreytta flóru markaðstóla. Þó þau henti kannski ekki öllum er þó ljóst að gríðarleg tækifæri á sviði sölu, þjónustu og markaðssetningar eru fólgin í þeim.

Höfundur er meðeigandi og yfirmaður stafrænnar deildar hjá SAHARA.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.