Mögleikar á fjárfestingum í dag eru mjög margir eins og hlutabréf, skuldabréf, gull, silfur, mynt, hrávörur, land, vín, bitcoin og svo frímerki sem ég ætla að fjalla um.

Árni Þór Árnason.
Árni Þór Árnason.

Árið 1840 var póstþjónusta endurskipulögð í Bretlandi en það hafði verið mjög dýrt að senda bréf og greitt fyrir hverja síðu bréfs af móttakanda. Þannig kostaði tveggja blaðsíðna bréf sem ferðaðist 100 breskar mílur 18 pence eða einn shilling og sixpence, samkvæmt breska peningakerfinu sem eldri borgarar muna einhverjir eftir. Eftir þessa reglugerðarbreytingu kostaði sama bréf 1 pence og frímerkjaútgáfa hófst með hinu fræga Penny Black með gildi 1 pence. Í kjölfarið hófst gullöld póstsendinga og samhliða blómstruðu viðskipti milli aðila langt í burtu frá hver öðrum og póstkort og jólakveðjur urðu á færi almennings.

Fljótlega fóru menn að safna þessum litlu listaverkum en stundum voru þau mjög falleg og alls kyns mistök við prentun urðu til að þess að fram komu afbrigði sem juku á breytileika og sköpuðu sjaldgæf eintök.

Dýrasta frímerkið

Frímerkjasöfnun jókst um allan heim og auk þess er vitað um bandarískar fjölskyldur sem sátu á miklum auði sem fjárfestu líka í frímerkjum. Þar má nefna, Lilly (lyfjafyrirtækið), DuPont (efnavörufyrirtæki) og Rothschild (bankar og vín) auk þess sem oft hefur komið fram að Warren Buffet einhver þekktasti fjárfestir allra tíma safnar líka.

Verðmætasta safnið er sennilega í eigu bresku konungsfjölskyldunnar en árið 2020 áætlaði breska dagblaðið The Telegraph að verðmæti þess væri um 100 milljónir punda eða 1700 milljónir íslenskra króna.

Dýrasta frímerki sem selst hefur á uppboði er frá Bresku Gíneu, 1 cent Magenta frá 1856. Það fór á 9,48 milljónir dollara.

Á uppboði í byrjun árs seldist kórónustimpillinn Harastaðir af gerð C1 á umslagi á 825.000 krónur.

En hvað gerir þau verðmæt og eftirsótt?

Verðmæti fer eftir hversu sjaldgæf þau eru og ástandi. Það virðast heldur ekki fylgja efnahagssveiflum eins og margir aðrir fjárfestingakostir. Þá eru póstsöguleg atriði sem geta skipt máli en þar má nefna tvö skemmtileg dæmi frá uppboði á heimasíðunni www.safnari.is nú í byrjun árs 2023.

Hið fyrra var boðið upp 26. febrúar en þar var um að ræða kórónustimpillinn Harastaðir af gerð C1 á umslagi sem seldist á 825.000 kr. með uppboðsgjöldum. Hin síðari var kórónustimpillinn Hrafnagil einnig af gerð C1 á bréfspjaldi frá 1901 en það bréf seldist á 1.754.500 kr. með öllum gjöldum.

Ísland og sérstaklega konungsríkið fram að lýðveldi, hefur verið í háum verðflokki vegna þess hve fá merki voru gefin út miðað við önnur lönd og fjölda póststaða sem voru flestir litlir þannig að fáir stimplar fóru í umferð sem gerir þá sjaldgæfa. Þannig er hægt að safna stimpluðum og óstimplum merkjum, kórónustimplum, númerastimplum og brúarstimplum. Auk þess voru fyrsta dags umslög í tízku en Íslendingar tóku þátt í fjöldaframleiðslu langt fram yfir notkun í mörg ár á tímabilinu 1960-1980 sem hjálpaði póstþjónustunni að græða, en í dag eru fyrsta dags umslög næstum því verðlaus og fara í kílóvöru. Þá áttu mörg börn frímerkjabók með algengustu merkjum sem voru í umferð. Það voru að minnsta kosti fimm frímerkjaverslanir í Reykjavik og einhverjar fleiri úti á landi auk þess sem aðilar voru að kaupa til útflutnings. Einnig segir sagan af námsmönnum sem fóru til Kaupmannahafnar og höfðu meðferðis frímerkjasafn fjölskyldunnar og seldu smátt og smátt sér til framfærslu.

Konur voru alla jafna ekki að safna frímerkjum en þó eigum við einni konu mikið að þakka. Það var Halldóra Bjarnadóttir skólastjóri barnaskólans á Akureyri og heimilsráðunautur sem gaf út blaðið Hlín. Hún fékk mikið af pósti alls staðar af landinu og mörg bréfanna voru peningabréf þar sem peningar voru sendir á milli staða fyrir tíma ábyrgðarbréfa. Þetta kallaði á dýrari frímerki en Halldóra opnaði bréfin að ofan og geymdi svo umslögin og innihaldið snyrtilega raðað í skókössum eftir því sem mér var tjáð. Þannig eru mörg falleg bréf í umferð og í söfnum sem koma frá henni.

Söfnun frímerkja færist til fjárfesta

Eins og komið hefur fram eru mörg dæmi um að söfnun hafi gefið góðan arð en auk þess eru þessi litlu listaverk stundum augnayndi eins og málverk. Það er auðvelt að koma þeim í verð bæði hér heima og erlendis. Frægt er þegar Akureyrarbær sendi mann til Svíþjóðar árið 2010 að selja frímerki sem voru í eigu bæjarins. Einhverjar milljónir fengust fyrir söfnin en upphæðin var sögð trúnaðarmál, þó þarna væru eignir bæjarfélags! Þjóðminjasafnið er með safn Hans Hals, sem gefið var þjóðinni til að njóta. Það er ekki ennþá aðgengilegt þó eitthvað sé búið að skanna af því. Það hefur þó verið hægt að fá hluti úr því til að sýna á frímerkjasýningum eins og þessari Nordia 2023 og einnig fyrri sýningum.

Breska frímerkjasalan Stanley Gibbons var stofnuð 1856 og mér er tjáð að hægt sé að fjárfesta í frímerkjum þar gegnum sjóði „mutual funds” á svipaðan hátt og verðbréfasjóðir starfa. Þar velja sérfræðingar merki fyrir viðkomandi fjárfesta og veiti einnig ráðgjöf.

Mörg frímerkjahús eru starfrækt um allan heim sem standa fyrir uppboðum og það eru gefnir út verðlistar til viðmiðunar þannig að það er síður hætta á að viðkomandi verði plataðir en gott er að leita til kunnáttumanna til að verðmeta söfn og merki ætli menn sér að selja þau.

Almennt má segja að frímerkjasöfnun hafi færst frá almenningi yfir til fjárfesta og fólks með sérþekkingu á efninu. Þar fara færri og fjársterkari aðilar. Börn í dag vita varla hvað frímerki er og má þar þakka afburðaslæmum rekstri á Íslandspósti en frímerki eru ekki lengur gefin út á landinu.

Félag frímerkjasafnara er starfrækt í eigin húsnæði að Síðumúla 17 og eru allir áhugamenn um frímerki boðnir velkomnir þar en félagið stendur bæði fyrir uppboðum og fræðslufundum.

Við samantekt þessa naut ég aðstoðar Internetsins, greinar um fjárfestingar í frímerkjum frá Stansberry & Associates, og blaðagreinum MBL. Sé ekki farið með rétt mál í einhverjum tilfellum biðst ég afsökunar og ábendingar eru vel þegnar.

Höfundur er fyrrverandi formaður Félags frímerkjasafnara.