*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Heiðrún Lind Marteinsdót
9. nóvember 2018 10:35

Eru kosningar?

Af hverju er það ríkisins að höggva á hnúta sem myndast á milli launamanna og atvinnurekenda?

Við upphaf kjaraviðræðna í lok október.
Haraldur Guðjónsson

Undanfarin misseri hafa talsmenn samtaka launamanna lýst skoðun sinni á því, hvað þurfi að gerast svo skrifa megi undir kjarasamninga á vetri komandi. Sumt af því er eðlilegt og hefðbundið, annað ekki. Samband launamanns og vinnuveitanda er tvíhliða. Einhverjir vilja þó að sambandið verði þríhliða og að ríkið uppfylli hluta af samningum sem skrifað er undir á almennum vinnumarkaði. Húsnæðismál og verðtrygging eru oft nefnd.

Kosningar hafa verið tíðar á Íslandi á undanförnum árum, kannski helst til of. Í aðdraganda þeirra hafa þessi mál verið rædd, enda er það á forræði stjórnmálamanna að afnema verðtryggingu, eða ekki, og bæta aðstæður á húsnæðismarkaði, sé vilji til þess. Reyndar eru húsnæðismálin ekki eingöngu á forræði Alþingis, þar skipta sveitarstjórnir mestu máli þar sem lóðaúthlutanir eru á þeirra könnu. Vart verður fram hjá því litið að lóðaskortur á öðru fremur sök á húsnæðisvandanum á höfuðborgarsvæðinu. Það er því svolítið sérstakt að beina húsnæðiskröfunni að ríkisstjórninni og Alþingi, frekar en stjórnendum sveitarfélaganna og þá einkum og sér í lagi að stjórnendum Reykjavíkur. Þar á bæ hafa margoft verið boðaðar miklar framkvæmdir, en svo virðist sem vandinn vaxi við hverja boðun.

En aftur að hina þríhliða sambandi. Af hverju er það ríkisins að höggva á hnúta sem myndast á milli launamanna og atvinnurekenda? Er ekki eðli kjaraviðræðna að þar semja menn um kaup og kjör, en ekki um verðtryggingu eða framboð á lóðum? Ætla menn, á milli kosninga, að ná pólitískum hugðarefnum sínum fram í hefðbundnum kjaraviðræðum? Það fer þá væntanlega eftir því hvaða stjórnmálastefnu menn aðhyllast, hverjar kröfurnar verða á hverjum tíma og forystusveit stéttarfélaga verður ekki ósvipuð hefðbundnum stjórnmálaflokki. Og þá hlýtur sú spurning að vera nokkuð aðkallandi, hvort forystumenn stéttarfélaga hafi skýrt umboð sinna félagsmanna til slíkra verka? 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.