Haftalosun er á næsta leiti. Skriður er kominn á málin. Útlit er fyrir að slitabú gömlu bankanna mæti stöðugleikaskilyrðum ríkisstjórnarinnar þar sem ríkissjóður fær 379 milljarða króna í stöðugleikaframlag og Seðlabankinn undirbýr uppboð á aflandskrónum.

Áætlun ríkisstjórnarinnar um losun hafta miðar að því að fórna ekki efnahagslegum stöðugleika. Þó er ljóst að þessi frelsisvæðing fjármagnsflæðis inn og út úr landinu mun hafa í för með sér örari breytingar á fjármálamörkuðum og í viðskiptalífinu en við höfum séð undanfarin ár.

Mögulegar afleiðingar

Viðbúið er að gengi krónunnar verði sveiflukenndara en við höfum séð frá hruni. Margir telja að krónan geti styrkst jafnvel um 20% prósent og nái þannig langtíma jafnvægisraungengi. Sala bankanna stendur fyrir dyrum sem getur haft margvísleg áhrif á fjármála- og viðskiptalífið.

Höftin hafa skapað þröskulda við sölu íslenskra fyrirtækja erlendis í formi aukins skrifræðis og pólitískrar áhættu í augum margra erlendra fjárfesta. Þetta leiðir líkum að auknum fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi við losun hafta. Þetta eru aðeins dæmi um þær breytingar sem við getum átt von á og myndu hafa áhrif á atvinnumarkaðinn, verðlagsþróun, vaxtastig og fleira sem snertir rekstur fyrirtækja með beinum og óbeinum hætti.

Áttavitinn stilltur

Skjót og fumlaus viðbrögð við slíkum umhverfisbreytingum geta skipt sköpum í fyrirtækjarekstri. Slík viðbrögð byggja á góðum skilningi á ytra umhverfi félagsins, sem hættir til að verða þokukennt þegar örar breytingar eiga sér stað. Á slíkum tímum getur verið því gulls ígildi að hafa horft til framtíðar t.d. með sviðsmyndagreiningu sem tekur á helstu áhrifaþáttum sem eru að raungerast. Þær ólíku sviðsmyndir sem slík greining birtir eflir skilning á hugsanlegri framtíðar- þróun og helstu óvissuþáttum í starfsumhverfi okkar.

Hvað ef?

Í mörgum fyrirtækjum eru til staðar viðbragðsáætlanir vegna eldsvoða og annarra hamfara til að tryggja öryggi starfsmanna. En hvað með fjárhagslegt öryggi fyrirtækja og annarra rekstraraðila? Er ástæða til að gefa afslátt þar? Mikilvægt er að útbúa viðbragðsáætlun í samræmi við alvarleika og kröfur um viðbragðsflýti sem væntanlegar aðstæður fela í sér.

Viðbragðsáætlun byggð á sviðsmyndagreiningu getur veitt ómetanlegan sveigjanleika í öldusjó breytinga. Hugsum okkur lítið dæmi: Krónan styrkist um 20%, eignamarkaðir hækka, áhættusækni banka og fjárfesta eykst með auðveldara aðgengi að fjármagni samhliða þenslu á vinnumarkaði og tveggja stafa verðbólgu. Fjölmargar spurningar vakna upp við slíkar breytingar.

Til að mynda:

  • Hvaða áhrif mun þróun krónunnar að hafa á eftirspurn eftir okkar vörum/þjónustu?
  • Hvaða áhrif mun fjármálaumhverfið hafa á fjármögnunarmöguleika félagsins?
  • Er ástæða til að breyta verð- stefnu okkar í ljósi aðstæðna?
  • Eru til staðar úrræði til að mæta auknum launakostnaði? Væri t.d. hægt að nýta upplýsingatæknina betur, breyta starfsmannastefnunni, úthýsa þjónustuþáttum?
  • Hvernig eru samkeppnisaðilarnir að bregðast við – hefur það áhrif á okkar stefnu?

Framtíðin er í húfi

Ástæða getur verið til að endurskoða alla þætti í rekstri fyrirtækja við svo umfangsmiklar breytingar sem framundan eru, svo ógnunum verði mætt og tækifæri nýtt sem best. Til þess að svo verði getur skipt sköpum að stjórn og stjórnendur hafi sett sig í stellingar t.d. með sviðsmyndagreiningu. Slík vinna ásamt orsaka- og afleiðingagreiningu er góður grunnur að viðbragðsáætlunum og áhættustýringu sem geta skipt sköpum fyrir framtíð félagsins.

Ekki er langt síðan við gengum í gegnum gríðarlegar efnahagslegar breytingar. Víða höfðu einstakar ákvarðanir afdrifaríkar afleiðingar til góðs og ills. Aftur stöndum við frammi fyrir breytingum sem fáar ef nokkrar hliðstæður eru fyrir í heimssögunni og ólíklegt að við munum aftur upplifa viðlíka breytingar. Er þitt fyrirtæki tilbúið?

Höfundur er með M.Sc. í fjármálum og starfar sem sérfræðingur í áhættustjórnun hjá KPMG.