Austurríski skólinn í hagfræði trúði því að hagsveiflur væru eðlilegar og nauðsynlegur hluti af hverju hagkerfi. Enda væri nýsköpun forsenda framfara og slílk sköpun yrði ekki án þess að eldri vörur eða atvinnugreinar yrðu að bregðast við breyttum aðstæðum. Austurrískir hagfræðingar guldu því varhug við hvers konar sveiflujöfnun af hálfu ríkisins. Hagfræðingar skólans sögðu að ef seðlabankar færu að reyna að stýra hagkerfinu í gegnum stýrivexti og peningamagn í umferð þá myndi það brengla skilaboð markaða um verð og þar með leiða til þess að rangar ákvarðanir yrðu teknar um fjárfestingar.  Þeir bjuggu til hugtakið „ malinvestment “ yfir það sem má kalla á íslensku fjárfestingarmistök. Við höfum mörg dæmi um fjárfestingamistök, bólur í kringum verðbréf tæknifyrirtækja, húsnæðisbólur, hrávörubólur og svo framvegis.

John Maynard Keynes
John Maynard Keynes

Stjórnmálamenn kjósa Keynes

Pólitískt tapaði austurríski skólinn fyrir Keynesistum . Enda er miklu líklegra að það hugnist stjórnmálamönnum að beita inngripum, en að sitja hjá og bíða þess að sveiflurnar gangi yfir. Áður en að John Maynard Keynes kom fram með höfuðrit sitt árið 1936 ( General Theory of Employment Interest and Money ) hafði hagfræði fyrst og fremst snúist um viðskipti og rekstur fyrirtækja. Keynes má segja að hafi verið fyrsti þjóðhagfræðingurinn og greindi heilu hagkerfin og hvernig ætti að stýra þeim til að reyna að jafna sveiflur. Það skapaði eðlilega ágreining við austurríska skóla hagfræðinnar.

Deilur á milli þessara tveggja skóla hafa litað hagfræðina fram á þennan dag. Richard Nixon á þann vafasama heiður að hafa tekið dollarann af gullfætinum og þar með eyðilagt Bretton Woods fastgengiskerfið sem hafði verið við lýði frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þetta gerði hann vegna þess að hann gat ekki hamið ríkisútgjöldin, að hluta til vegna stríðsreksturs í Víetnam, og vildi fara að prenta peninga. Í stuttu máli leiddi þetta af sér óðaverðbólgu, sem oft er kennd við olíukreppu, og mikla riðlun á alþjóðlegum viðskiptum. Verðbólgan smitaðist útum allt og árið 1981 þegar Ísland hafði tekið upp „nýkrónu“ með því að fella taka tvö núll aftan af eldri gjaldmiðli var verðbólgan samt 40% og toppaði tveimur árum síðar, ríflega tvöfalt hærri. Það þurfti innkomu austurríska skólans til að koma böndum á óstöðugleikann sem inngripin höfðu magnað upp.

Austurrísku hagfræðingarnir sögðu að þegar gjaldmiðlar heims fóru af gullfæti hafi peningamagn í umferð aukist gríðarlega, enda engin takmörk lengur á prentun peninga. Ríkisútgjöld hafi einnig aukist að sama skapi sem kynnti gríðarlegt verðbólgubál alþjóðlega. Það bál varð ekki slökkt fyrr en Paul Volcker sem lést í desember síðastliðnum og var fluguveiðimaður og Íslandsvinur, kom til skjalanna. Sem seðlabankastjóri Bandaríkjanna leyfði hann vöxtum að ráðast á markaði en hélt fast í peningamagn í umferð. Þetta var skammtímakvöl fyrir lengri tíma ávinning. Vextir fóru hæst í 20% og atvinnuleysi fór í fyrsta skipti yfir 10% í Bandaríkjunum frá Kreppunni miklu. Margar kvalafullar breytingar urðu við þessar hremmingar og nokkrar framleiðslugreinar báru ekki sitt barr eftir þetta. En grunnurinn var lagður að velmegun næstu þriggja áratuga.

Leitin að stöðugleika

Síðustu þrjá áratugi, eftir að seðlabankar heimsins náðu tökum á verðbólgunni á 9. áratugnum gróf um sig ákveðið andvaraleysi gagnvart fjárhagslegum áföllum, tímabil sem á ensku er oft kallað „ the Great Moderation “. Á þessum tíma varð trú markaða og stjórnmálamanna almenn á að seðlabankar gætu ráðið efnahagslegri hagsæld þjóðar. Alan Greenspan var hafinn í guða tölu sem bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna. Olivier Blanchard , fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gekk svo langt að halda því fram að mannkynið hefðu fundið hin heilaga gral, að láta seðlabanka vera sjálfstæða og hafa eitt markmið, verðstöðugleika, og eitt tæki, stýrivexti. Eftir fjármálahrunið 2008 hefur verið full ástæða til að endurskoða þá trú.

Það er auðvelt að færa rök fyrir því í dag að aukið peningamagn í umferð árið 1999 til að bregðast við ímynduðum tölvuvanda sem gæti komið upp þegar árið 2000 gengi í garð hafi kynnt mikið undir netbólunni, sem sprakk um leið og seðlabönkum var ljóst að enginn vandi myndaðist og peningamagn var dregið til baka. Þegar síðan fjármálamarkaðurinn gefur eftir árið 2001 eftir hryðjuverkaárásirnar í september er ákveðið að lækka vexti og auka aftur peningamagn í umferð. Það leiðir af sér húsnæðisbóluna sem sprakk ekki fyrr en árið 2007 og dró þá næstum bankakerfið með sér. Þegar hingað var komið var ekki lengur verðlagsstöðugleiki helsta markmið seðlabankanna heldur frekar fjármálastöðugleiki. Í því ljósi ákváðu þeir að auka enn frekar peningamagn í umferð en í þetta skiptið til að styðja við bankakerfið.

Eru seðlabankar sjálfstæðir?

Við erum því komin á þann stað að fjármálamarkaðir megi ekki hósta án þess að seðlabankar heimsins fái kvef. Það er sama hvaða lækkun á sér stað á mörkuðum, alltaf er horft til seðlabanka og heimtað að þeir bregðist við ástandinu með lækkandi vöxtum og auknu peningamagni í umferð. Seðlabankar verða því að bregðast við, hvort sem það er í anda verðstöðugleika eða ekki, því fjármálastöðugleiki hefur yfirtekið allt. Má því efast um sjálfstæði seðlabanka, því þeir virðast orðnir baktryggjendur fjármálamarkaða.

Þannig er fjármálakerfið nánast búið að taka seðlabanka heimsins í gíslingu, ef þeir koma ekki með aukið fjármagn inná markaðinn segir fjármálakerfið að hrun sé í vændum.  Það er því nokkuð til í því að ríkasta 1% heimsins hafi tekið yfir kerfið enda eru það aðilarnir sem hafa hagnast mest á peningaprentun síðustu ára, þar sem verð hafa bjagast og það sem menn töldu vera heilbrigðar fjárfestingar eru lítið annað en fjárfestingarmistök ( malinvestement ).

Stjórnmálamenn og almenningur hafa í miklum mæli sett ábyrgð á fjármálakerfinu í hendur embættismönnum sem vilja fyrir alla muni forðast það að órói skapist á sinni vakt og eru því sérstaklega ginkeyptir fyrir því að þóknast markaðsaðilum. Aðhaldið sem fjármálamarkaðir áttu að veita kerfinu fer þannig fyrir lítið. Eða einsog Kyle Bass sagði, „kapítalismi án gjaldþrota er einsog kristindómur án helvítis“, það vantar áhættuna af því að standa sig ekki í stykkinu.

Staðan á Íslandi

Ísland gekk í gegnum einhvern mesta hreinsunareld sem sést hefur í kjölfar kreppunnar 2008, það er alls ólíkt stórum hluta heimsins þar sem seðlabankar gegndu hlutverki lánveitanda til þrautavara og ríkissjóðir komu fjármálakerfinu til bjargar. Ólíkt þessum löndum hefur Ísland aldrei staðið sterkar og framleiðni er mikil. Hér er ekki um það að ræða að hagsmunaaðilar á fjármálamarkaði ráði ferðinni. En umsvif hins opinbera eru alltof mikil. Hlutdeild hins opinbera af þjóðartekjum hefur hækkað um hátt í helming frá því fyrir 40 árum síðan og Ísland er með stærsta eða næst stærsta opinbera kerfið eftir því á hvaða mælikvarða er horft.

Sveiflurnar koma aftur og aftur, hagsveiflan deyr aldrei. Eins virðast skoðanir um hvort að eigi að styðjast við austurríska skólann eða hugmyndir Keynes alltaf koma aftur og aftur.

Í dag er verið að öskra á aðgerðir vegna efnahagsáfalla.  Hvort sem það er hér á landi eða annars staðar er leitað beint til ríkisins. Á Íslandi er það kannski óumflýjanlegt. Ástæðan er sú að hið opinbera er orðið langstærsti gerandinn í hagkerfinu. Langstærsti launagreiðandinn og borga hæstu launin. Ríkið á nær alla innviði. Sparnaður almennings er svo bundinn í lífeyrissjóðum en hvergi í heiminum fer jafn hátt hlutfall sparnaðar í lífeyriskerfið. Einkasparnaður verður því mjög lítill á meðan svo er. Þannig að það eru í raun ekki margir sem geta gripið til aðgerða fyrir utan ríkið.

Það var Milton Friedman sem sagði hin fleygu orð, „ We are all Keynesians now “ árið 1965 og var þá að gagnrýna hvernig Richard Nixon heimtaði inngrip seðlabanka vegna óróa á fjármálamörkuðum.  Í dag, þegar maður fylgist með þegar rætt er um aðgerðir vegna áfalla í hagkerfinu, virðist það eiga jafn vel við.

Til lengri tíma eru inngrip hins opinbera og miðstýring ekki kerfi sem við getum búið við. Við megum ekki gleyma því hvaðan verðmætasköpunin kemur.

Höfundur er forstjóri Sýnar.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar, semk kom út lok mars og fæst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .