*

föstudagur, 16. apríl 2021
Óðinn
27. desember 2020 11:07

ESB, vanhæfi ráðherra og viðundrið Viðreisn

„Vextir eru orðnir þeir sömu og í Evrópu vegna efnahagsáfallsins en Evrópusöngurinn hefur ekki þagnað.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Haraldur Guðjónsson

Der Spiegel sló því fram í nýjasta tölublaði sínu á föstudag að Evrópusambandið hefði klúðrað samningum við lyfjafyrirtæki um kaup á bóluefni gegn COVID-19. Í Þýskalandi er mikil óþreyja eftir að fá bóluefni, rétt eins og um allan heim. Faraldurinn hefur aldrei verið skæðari þar og samfélagið lamað vegna lokana. Þennan undirtón má sjá í frétt Der Speigel.

Donald Trump er meira segja hrósað, en það hefur ekki gerst á evrópskum fjölmiðli svo vitað sé áður. Sagt er að staðan í Bandaríkjunum sé miklu mun betri, þar sem bandaríska ríkisstjórnin tryggði sér fleiri skammta og fyrr. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá var eitt aðalbóluefnið þróað í Þýskalandi. Þó að Óðinn vilji Þjóðverjum og öðrum Evrópuríkjum allt hið besta þá hefur hann meiri áhyggjur af stöðunni á Íslandi. Fyrir liggur að heilbrigðisráðuneytið íslenska ákvað að eiga samleið með Evrópusambandinu í að panta bóluefni.

Fréttablaðið sagði frá því á laugardaginn að íslensk fyrirtæki með tengsl við bandaríska lyfjaframleiðandann Pfizer hefðu boðið fram aðstoð til að útvega bóluefni til landsins fyrr en ella en ekki hafi verið nokkur áhugi fyrir því af hálfu heilbrigðisyfirvalda.

* * *

Hvað segja samstarfsflokkarnir?

Óðinn trúir því ekki, ef rétt er, að samstarfsflokkar Vinstri grænna í ríkisstjórn taki málið ekki upp. Ef í ljós kemur að heilbrigðisráðherrann eða ráðuneyti hennar hafi brugðist í bóluefnismálinu þá verður sá hinn sami að sæta ábyrgð. Það skyldi þó aldrei vera sami eða sömu embættismennirnir og eru ábyrgir fyrir Landakotsmálinu.

Viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins í gær við fréttum helgarinnar voru heldur þunnur þrettándi. Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir:

Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87% þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samningar sem Ísland hefur þegar lokið við lyfjaframleiðendurna Pfizer og Astra Zeneca tryggja 400.000 bóluefnaskammta sem nægja fyrir 200.000 einstaklinga. Þriðji samningurinn við bóluefnaframleiðandann Janssen verður undirritaður 23. desember næstkomandi og tryggir Íslandi 235.000 skammta sem nægja fyrir 117.500 manns. Alls tryggja þessir þrír samningar bóluefni fyrir rúmlega 317.500 einstaklinga. Þann 31. desember næstkomandi verður undirritaður samningur við Moderna en umfang samningsins varðandi fjölda skammta liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Þetta er allt saman ágætt hjá heilbrigðisráðuneytinu nema að fréttir helgarinnar snerust bara ekkert um það hvort væri búið að tryggja bóluefni heldur hvenær það fæst afhent. Íslenska heilbrigðisráðuneytinu til upplýsinga þá segjast lyfjafyrirtækin geta útvegað öllum heiminum bóluefni – en ekki sé víst að það takist fyrr en eftir þrjú ár!

Ekki verður betur séð en að íslensk stjórnvöld hafi gert mikil mistök með því að veðja á einn evrópskan hest sem hefur sýnt aftur og aftur að hann ræður bara alls ekki við flókin verkefni. Svo má velta fyrir sér hvort andstæða, jafnvel hatur, heilbrigðisráðherrans á einkarekstri hafi haft áhrif á ákvarðanatökur í heilbrigðisráðuneytinu.

* * *

Evrópudraumarnir ekki dauðir

Óðinn taldi víst að ef Íslendingum myndi vegna jafn illa og Evrusambandsþjóðunum, að meðaltali, myndi Evrópusöngurinn þagna. Það gerðist einmitt með COVID-19 en nú er versta kreppa í 115 ár þótt staða Íslands sé í grunninn miklu betri en hjá flestum Evrópulandanna.

Vextir eru orðnir þeir sömu og í Evrópu vegna efnahagsáfallsins en Evrópusöngurinn hefur ekki þagnað. Viðreisn, sem er einn undarlegasti stjórnmálaflokkur sem skotið hefur upp kollinum í íslenskum stjórnmálum, boðar enn drauminn um inngöngu í Evrópusambandið.

Síðast ræddi formaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, um verðbólguna og sökudólginn íslensku krónuna á Alþingi í lok nóvember. Hún sagði að við værum eina þjóðin í Evrópu sem hefði upplifað verðbólgu á krepputímum og að helsta haldreipi þeirra sem slái skjaldborg um krónuna sé að það verði alltaf minna atvinnuleysi á Íslandi út af krónunni. Þorgerður sagði að atvinnuleysi væri að fara upp í 12% á Íslandi en í Þýskalandi væri það til dæmis innan við 5%. Röksemdafærslan varðandi krónuna og atvinnuleysið falli því um sjálfa sig. Atvinnuleysi á Íslandi væri meira en hjá flestum Evrópuþjóðum sem við viljum bera okkur saman við.

* * *

Popúlismi Þorgerðar

Það er mikið kvartað yfir popúlisma og popúlískum stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum þessi misserin og er Þorgerður Katrín einn þeirra. Hún beindi til dæmis spjótum sínum að Miðflokknum í eldhúsdagsumræðum ekki alls fyrir löngu. En hvað er þetta annað en popúlismi hjá Þorgerði?

Íslenskan krónan hefur veikst vegna hruns í ferðaþjónustu og atvinnuleysi í greininni er gríðarlegt. En þetta er tímabundið vandamál. Það er til að mynda ósennilegt að verðlag hækki mikið á næsta ári ef tekst að ráða niðurlögum COVID-19 og atvinnuleysið mun minnka í takt við aukinn fjölda ferðamanna til Íslands.

Hvernig heldur Þorgerður að staðan sé í Grikklandi, á Spáni og í öðrum Evrópulöndum, sem treysta á ferðaþjónustu. Hún er skelfileg. Myndu þessi lönd veikja gjaldmiðil sinn ef þau gætu? Án nokkurs vafa því það eru engar forsendurnar fyrir sterkum gjaldmiðli í þessu árferði. Hvers vegna lækkar gengi evrunnar ekki? Því hagsmunir Þýskalands stjórna ferðinni en ekki „smáríkja“ eins og Grikklands.

Málflutningur Þorgerðar er eins ómálefnalegur eins og hann getur orðið og fróðlegt verður að sjá hvaða rök hún notar á næsta ári þegar íslensk ferðaþjónusta og íslenskt efnahagslíf hefur náð vopnum sínum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.