*

mánudagur, 25. október 2021
Týr
1. júní 2014 10:29

Evrópskur rasismi

Nær allir hefðbundnir flokkar í Evrópusambandsríkjunum eru fylgjandi veru síns ríkis í sambandinu.

Í nýafstöðnum kosningum til þings Evrópusambandsins unnu svokallaðir öfga-hægriflokkar gríðarlega sigra í sumum af stærstu og mikilvægustu löndum álfunnar. Má þar nefna sem dæmi UKIP í Bretlandi og Front National í Frakklandi. Einnig unnu slíkir flokkar stóra sigra í Danmörku og Litháen. Aðrir flokkar, sem erfiðara er að draga í „öfga-hægri“ dilkinn, en eru engu að síður fullir efasemda um ESB, unnu líka sigra t.d. Fimm stjörnu hreyfing Beppe Grillo á Ítalíu og SYRIZA í Grikklandi.

H H H

Öfga-hægri merkinu hefur verið klínt á marga þessara stjórnmálaflokka vegna þess að sumir þeirra eru hreinlega rasískir, eins og FN í Frakklandi, og á aðra vegna þess að þeir, eða einstakir frambjóðendur þeirra, hafa á stundum daðrað ósmekklega mikið við kynþáttahyggju í sínum málflutningi og má setja UKIP í þann flokk. Nógu oft hefur verið bent á að flestir rasískir flokkar eiga meira sameiginlegt með sósíalisma en hefðbundnum hægristjórnmálum og því öfugmæli að kalla þá öfga-hægriflokka. Nóg um það hér.

H H H

Umræðan um þessa sigra hefur, e.t.v. eðlilega, snúist töluvert um kynþáttahyggju í evrópskum stjórnmálum. Að mati Týs er það er gott að fólk vakni upp við það að kynþáttahatur í álfunni er langt því frá búið að gefa upp öndina og umræðan er þörf. Hún hefur hins vegar í þessu tilviki breitt yfir það hvaða skilaboð kjósendur voru að senda með atkvæðum sínum og hefur hugsanlega gefið ranga mynd af íbúum álfunnar.

H H H

Nær allir hefðbundnir flokkar í Evrópusambandsríkjunum eru fylgjandi veru síns ríkis í sambandinu og hafa ekki hingað til mótmælt því þegar vald er fært frá einstökum ríkjum til Brussel. Andstæðinga aðildar er bara að finna á jöðrunum, fólk sem hefur horft á Evrópusambandið grípa til sín sífellt meira vald frá þjóðþingum án þess að almenningur í álfunni hafi nokkuð haft um það að segja. Ef þú vilt mótmæla þessu valdanámi þá getur þú annaðhvort setið heima, eins og meirihluti kjósenda gerði, eða kosið þann flokk sem vill a.m.k. gefa þér vald til að segja nei. Það er ekki við kjósendur að sakast ef það þýðir að kjósa þurfi óskemmtilega og mjög vafasama einstaklinga.

H H H

Hefðbundnir stjórnmálaflokkar verða að líta á niðurstöðu kosninganna sem falleinkunn fyrir frammistöðu þeirra í Evrópumálum. Taki þeir sér ekki tak og auki verulega raunverulegt lýðræði í sambandinu er ekki við öðru að búast en að ömurlegir flokkar á borð við FN haldi áfram að styrkja stöðu sína.

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.