*

laugardagur, 18. janúar 2020
Týr
11. október 2019 17:15

Evrópuspurningin

Fyrir Íslendinga skiptir aðgangur að evrópskum mörkuðum miklu, en ekki öllu.

epa

Týr minntist á EES-samstarfið hér í síðustu viku og tók undir orð skýrsluhöfunda utanríkisráðuneytisins um mikilvægi þess. En það er nauðsynlegt að hafa í huga að þrátt fyrir stærð og styrk Evrópusambandsins (ESB), þá hefur það síður en svo notið sérstakrar efnahagslegrar velgengni. Frá aldamótum hefur hagvöxtur þar að meðaltali aðeins verið 1,6% á ári, samanborið við 2,1% í Bandaríkjunum, 1,9% í Bretlandi og 3,3% á Íslandi. Á sama tíma hefur meðaltal atvinnuleysis í ESB verið 6,7%, 6,0% vestanhafs, 3,7% í Bretlandi, en 4,0% á Íslandi. Megum við þó ekki gleyma því að hér varð hrun.

                                                                  * * *

Stofnun evrunnar er vafalaust metnaðarfyllsta verkefni ESB á efnahagssviðinu, en nú orðið telur varla nokkur maður að hún hafi verið vel heppnuð, þó að sumir íslenskir Evrópusinnar tali enn þannig. Lendi ESB í allsherjarefnahagssamdrætti, eins og nú er ekki ósennilegt, þá mun enn ein evrukreppan dynja yfir með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Mögulega má afstýra slíkum ósköpum með stórauknum samruna á sviði peningamála, ríkisfjármála og stjórnmála, en það verður að efast um að fyrir því sé mikill vilji almennings eða pólitískt þrek. Hin nýja forysta ESB er vart til stórræðanna heldur.

                                                                  * * *

Ástæður þessarar dræmu frammistöðu ESB eru margvíslegar, en þar skipta hönnunargallar evrunnar sennilega mestu, í bland við hina alþjóðlegu fjármálakreppu. En það er ekki heldur hægt að líta hjá öllu regluverkinu, sem veikir nýsköpun í atvinnulífi og gerir vinnumarkaðinn óskilvirkari. Það sjá menn kannski best á því að Evrópa á enga netrisa, þó að Evrópubúar séu annar af tveimur stærstu neysluhópum á netinu.

                                                                  * * *

Fyrir Íslendinga skiptir aðgangur að evrópskum mörkuðum miklu, en ekki öllu. Ef hinn sameiginlegi markaður og tollabandalagið væru augljós forsenda hagsældar, hvernig stendur þá á því að fleiri ríkjaheildir og efnahagssvæði hafa ekki farið að því fordæmi? Hvernig stendur á því að ESB hefur hlutfallslega staðið sig svo illa á efnahagssviðinu? Og hvernig má það vera að innflutningur svo margra helstu viðskiptalanda ESB hefur aukist mun hraðar en milliríkjaverslun innan hins sameiginlega markaðar?

                                                                  * * *

Það er mikilvægt að Íslendingar viðhaldi nánum tengslum við frændur okkar, vini og granna í Evrópusambandinu, en það er líka mikilvægt að við verðum þeim ekki of háðir. Eða verðum sömu efnahagsstöðnun að bráð.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.