*

laugardagur, 25. janúar 2020
Týr
20. október 2019 11:04

Evruspurningin

Týr ætlar að halda sig við Evrópuheygarðshornið, en þar hefur evran verið helsti dragbíturinn, þó fáir þori að segja það upphátt.

epa

Týr ætlar að halda sig við Evrópuheygarðshornið, en þar hefur evran verið helsti dragbíturinn, þó fáir þori að segja það upphátt. Nú á 20 ára afmæli evrunnar eru glæstar vonir um hlutverk hennar brostnar. Hún átti að skáka Bandaríkjadal, verða nýr forðagjaldmiðill heimsins og gera Evrópusambandið leiðandi afl í peningamálum heimsbyggðarinnar þegar Bretton Woods liðaðist í sundur. Raunin er hins vegar sú að áhrif Evrópu í fjármálakerfi heimsins hafa minnkað verulega.

                                                                  * * *

Í nýrri ritgerð, sem peningamálahagfræðingarnir Carmen Renhart og Kenneth Rogoff kynntu á ráðstefnu á vegum Finnlandsbanka í liðinni viku, voru helstu gjaldmiðlar heims bornir saman út frá ýmsum þáttum svo sem gjaldeyrisforða seðlabanka heims, skuldum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og fleiru. Þar kom ekki aðeins í ljós að evran á ekkert í dollarann, heldur hefur hún minna vægi en gamla þýska markið og franski frankinn höfðu samanlagt í árslok 1998. Verr af stað farið en heima setið.

                                                                  * * *

Þetta er mikill áfellisdómur yfir evrunni og bætist við brostin fyrirheit um að hún drægi úr viðskiptahindrunum, lækki fjármagnskostnað og ræki smiðshöggið á innri markaðinn. Að ekki sé minnst á þann mikla vanda sem evran hefur beinlínis valdið, en þar er varanleg efnahagskreppa Miðjarðarhafsríkjanna efst á blaði. Tveimur áratugum síðar, er evran ekki alþjóðlegur heldur svæðisbundinn gjaldmiðill og kínverska júanið öðlast senn meira vægi. Þar er ekki aðeins efnahagsáföllum, evrukreppu og stöðnun um að kenna. Seðlabanki Evrópu hefur frá upphafi verið veikur og viðkvæmur fyrir pólitískum þrýstingi, en eins hefur fáum öruggum eignum í evrum verið til að dreifa á alþjóðlegum skuldabréfamarkaði; þar eru bandarískir pappírar 4-5 sinnum meiri að verðmæti.

                                                                  * * *

Það er lítil von til þess að evran rétti úr kútnum úr þessu, tækifærin eru glötuð og erfiðleikarnir undanfarinn áratug gert illt miklu verra. Raunalegt raunar að hugsa til þess að Evrópa hefði verið betur sett með þýska markið, en situr þess í stað uppi með meingallaðan gjaldmiðil og hnignandi hagkerfi. Samt er það svo að evran er enn helsta röksemd íslenskra Evrópusinna fyrir aðild að ESB. Það má vissulega finna eitt og annað að íslensku krónunni og ekki sjálfgefið að örríki eigi að halda úti örgjaldmiðli. En evran er ekki svarið.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.