*

mánudagur, 1. júní 2020
Huginn og muninn
14. september 2019 10:02

Excel-vofan hrellir hið opinbera

Eftir stutt stopp á Hagstofunni og hjá Sorpu hélt Excel-draugurinn upp í Háskóla Íslands.

Axel Jón Fjeldsted

Excel-draugurinn heldur áfram að hrella hið opinbera. Fyrir rúmri viku þurfti Hagstofan í tvígang að leiðrétta mistök við gagnavinnslu, sem höfðu mikil áhrif á hagvaxtar-útreikninga. Sem dæmi hafði Hagstofan gefið út að áætlaður hagvöxtur á 2. ársfjórðungi hefði verið 1,4% en eftir leiðréttingu kom í ljós að hann var 2,7%.

Eftir að hafa dvalið hjá Hagstofunni í smá tíma færði Excel-draugurinn sig yfir í Sorpu. Í síðustu viku kom í ljós að Sorpa „gleymdi“ að gera ráð fyrir tæplega 1,4 milljarða króna kostnaði í fjárfestingaráætlun sinni.

Eftir stutta dvöl í Sorpu lagði Excel-draugurinn leið sína upp í Háskóla Íslands. Um síðustu helgi var greint frá því að vegna meiriháttar reiknivillu í inntökuprófi hjá læknadeildinni hefðu fimm nemendur, sem náðu prófinu, ekki fengið inngöngu í deildina. Alls þreyttu um 400 manns prófið og af þeim komust 55 inn. Eftir að hvorki meira né minna en tveir stærðfræðingar höfðu farið yfir niðurstöðurnar var fimm til viðbótar boðið að hefja nám við deildina. Hrafnarnir eru svolítið spenntir að sjá hvert Excel-draugurinn fer næst.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.