*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Huginn og muninn
5. október 2019 10:02

Excel-vofan mætti til Þjóðskrár

Fasteignamat hefur verið leiðrétt eftir að í ljós koma að það gleymdist að taka með í reikninginn á hvað hæð íbúðir væru.

Excel-draugurinn hefur gert víðreist síðasta mánuð.
Aðsend mynd

Excel-draugurinn heldur áfram að gera víðreist hjá hinu opinbera. Draugurinn hóf ferðalag sitt fyrir mánuði og var Hagstofan fyrsta stopp. Þar ruglaði hann menn svo í ríminu að þeir vanmátu hagvöxt um 1,3 prósentustig. Eftir þetta stökk draugurinn inn í Sorpu, sem hafði þau áhrif að menn gleymdu að gera ráð fyrir tæplega 1,4 milljarða króna kostnaði í fjárfestingaráætlun sinni.

Því næst skaust hann í læknadeild Háskóla Íslands, þar sem hann fór með sínum hætti yfir inntökupróf í deildina. Vinnubrögðin voru svo slæleg að tvo stærðfræðinga þurfti til að leiðrétta reikningsskekkjuna. Eftir þetta brunaði hann aftur upp í Hagstofu, með stuttu stoppi hjá kortafyrirtækjunum. Eftir heimsóknina þurfti að leiðrétta tölur um kortaveltu.

Eftir stanslausan þeyting um bæinn síðasta mánuð, nennti draugurinn ekki að fara lengra en í næsta hús. Fórnarlambið að þessu sinni var Þjóðskrá Íslands, sem hefur nú þurft að leiðrétta fasteignamat, þar sem það gleymdist að ráð fyrir því í útreikningum á hvaða hæð í húsum íbúðir væru.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.