*

laugardagur, 6. júní 2020
Óðinn
19. september 2017 16:02

Eyðilegging og sköpun verðmæta

„Auður verður ekki til við neyslu, heldur í gegnum sparnað og fjárfestingu,“ að mati Óðins.

epa

Skaðinn sem fellibyljirnir Harvey og Irma hafa valdið í Bandaríkjunum einum nemur allt að 200 milljörðum Bandaríkjadala, samkvæmt bráðabirgðatölum matsfyrirtækisins Moody’s. Þetta er sambærilegt við tjónið sem fellibylurinn Katrina olli í New Orleans árið 2005.

***

Þrátt fyrir þetta gríðarlega tjón er líklegt að mæld efnahagsleg áhrif byljanna tveggja verði jákvæð – eins fáránlega og það kann að hljóma. Er það vegna þess hvernig verg landsframleiðsla (VLF) er reiknuð en VLF er algengasti og útbreiddasti mælikvarðinn á stærð hagkerfa.

***

Í mjög einfaldaðri mynd má líta á VLF sem tilraun til að mæla „tekjur“ hagkerfa. Hún er mælikvarði á þann auð sem verður til í hagkerfinu á hverju tímabili, en tekur ekki með í reikninginn þann auð sem búið var að skapa áður. Þetta er ekki vandamál í sjálfu sér, en getur engu að síður skekkt sýn fólks á hagkerfið ef það gleymir takmörkunum mælikvarðans.

***

Brotni glugginn hans Bastiats 

Franski hagfræðifrumkvöðullinn Fréderic Bastiat gerði fræga dæmisöguna um brotna gluggann. Í henni brýtur pörupiltur rúðu í glugga föður síns svo sá gamli þarf að kaupa nýja rúðu. Vitni að atburðinum kemst að þeirri niðurstöðu að pilturinn hafi í raun verið að gera samfélaginu gustuk þar sem gluggagerðarmaðurinn fær þarna auknar tekjur, sem og iðnaðarmaðurinn sem fenginn er til verksins. Brotni glugginn er þar með hagvaxtarhvetjandi.

***

Vitnið gleymir því hins vegar að faðir piltsins getur ekki eytt sömu krónunni tvisvar. Með því að brjóta gluggann hefur pilturinn neytt föður sinn til að eyða fé, sem hann hefði ella varið í annað, í að kaupa nýjan glugga. Eyðilegging rúðunnar skapaði engan nýjan auð í samfélaginu.

***

Hið sama á við í Houston og Flórída núna. Það sem mestu máli skiptir er það að skaðinn nemur, eins og áður segir, 200 milljörðum dala. Enduruppbyggingin snýst um að koma samfélögunum á staðnum á þann stað sem þau voru áður en byljirnir skullu á. Það að enduruppbyggingin mælist sem hagvöxtur afhjúpar gallana við hagvaxtar og VLF módelin.

***

Erfiður útreikningur 

Óðinn ítrekar að hagvöxtur er mikilvægur. Í raun þarf hagvöxtur að minnsta kosti að halda í við fólksfjölgun til þess að lífsgæði hvers og eins minnki ekki með fjölgun íbúa landsins. Ef hagvöxtur væri enginn á meðan íbúum fjölgaði væru í raun fleiri um sömu kökuna og því fengi hver um sig minna í sinn hlut. Því er betra að kakan stækki í takt við fjölgun þeirra sem sitja að henni.

***

Að sama skapi þýðir þetta að eigi lífsgæði að aukast ár frá ári þarf hagvöxtur að vera meiri en sem nemur fólksfjölgun.

***

Það að reikna út landsframleiðslu og hagvöxt er hins vegar hægara sagt en gert og eru mismunandi leiðir færar til þess. François Lequiller, yfirmaður þjóðhagsdeildar OECD, sagði fyrir nokkrum árum að fólk vanmeti oft hversu erfitt er að reikna út landsframleiðslu af einhverju öryggi. Til að byrja með þarf að ákveða hvað eigi að telja til landsframleiðslu og stundum virðist geðþótti einn ráða því hvað telst með og hvað er skilið út undan. Til dæmis telst alls kyns vinna, sem unnin er á heimilum, ekki til landsframleiðslu. Barnagæsla telst til dæmis ekki til landsframleiðslu þegar foreldrar sinna henni sjálfir, en þegar ráðin er barnfóstra reiknast laun hennar inn í VLF. Sama á við um viðhald á fasteignum og ræktun grænmetis í kálgarðinum heima.

***

Þegar búið er að ákveða hvað eigi að teljast með þarf að afla áreiðanlegra tölulegra upplýsinga, sem oft er hægara sagt en gert. Í mörgum löndum er svarta hagkerfið svokallaða mjög stórt, en áhrif þess mælast vart í opinberum tölum um verga landsframleiðslu. Á síðustu árum hafa verið gerðar tilraunir til að slá á umfangið og færa það til bókar í opinberum hagvaxtartölum, en eðli málsins samkvæmt er það hægara sagt en gert.

***

Útgjaldamæling 

Algengasta aðferðin við að reikna út VLF er svokölluð kostnaðareða útgjaldaaðferð. Hugmyndin að baki henni er sú að allar vörur, sem framleiddar eru í hagkerfinu, eru keyptar af einhverjum öðrum og með því að mæla útgjöld allra einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila sé hægt að leggja mat á framleiðslu í hagkerfinu. Formúlan sem notuð er við þessa aðferð er í sinni einföldustu mynd C + I + G + (E-I) = VLF, þar sem C er einkaneysla, I er fjárfesting, G er opinber útgjöld eða samneysla og (E-I) er munurinn á útflutningi (E) og innflutningi (I).

***

Með öðrum orðum er í raun verið að mæla útgjöld og eyðslu, en ekki framleiðslu. Það er ekki rangt í sjálfu sér, en það getur hins vegar leitt menn í ógöngur ef þeir gleyma þessari stað- reynd. Mælingar á VLF eru því svolítið eins og hitamælir sem mælir lofthita. Mælirinn getur gefið mikilvægar upplýsingar, en aldrei má rugla saman mælinum og því sem hann mælir. Engum heilvita manni dettur í hug að með því að halda kveikjara undir hitamælinum sé hægt að hafa áhrif á hitastigið úti, en ótrúlegustu hlutir eru reyndir til að hafa áhrif á VLF í þeirri von að það hafi áhrif á raunhagkerfið. Þá má aldrei gleyma því heldur að hitamælirinn getur verið bilaður, eða að staðsetning hans hefur áhrif á það hvaða hita hann sýnir.

***

Þetta er e.t.v. örlítið langsótt samlíking, en hún varpar þó að mati Óðins ljósi á vandann sem menn standa frammi fyrir.

***

Hefur ljós hækkað eða lækkað í verði?

Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar skoðaði William Nordhaus, hagfræðingur við Yale háskóla í Bandaríkjunum, tvær mismunandi leiðir til að skoða verðþró- un á ljósi undanfarnar tvær aldir. Önnur leiðin er í raun sú sama og notuð er við útreikning á VLF, þ.e. að skoða verðbreytingu á ljósgjöfum yfir þetta tímabil. Þegar þessi aðferð er notuð er niðurstaðan sú að ljós hafi 3-5 faldast í verði á tímabilinu. Þessi aðferð horfir hins vegar algerlega framhjá þeirri niðurstöðu að tungsten ljósaperur gefa frá sér miklu meira ljós en tólgarkerti. Þegar verð á ljósi er skilgreint sem krónur á hverja lumen-klukkustund, kemur í ljós að verð á ljósi var um hundrað sinnum hærra fyrir 200 árum en það var í lok síðustu aldar. Nú þegar LED ljós eru farin að taka við af tungsten-perunum hefur verð á ljósi lækkað enn meira.

***

Þetta undirstrikar einn af mestu göllunum við VLF útreikninga. Í þeim eru ekki teknar til greina gæðabreytingar á þeim hlutum sem við kaupum fyrir peningana okkar. Aðeins er horft á verðmiðann. Tölva, sem framleidd er árið 2017 er margfalt öflugri en tölva sem framleidd var árið 1997 og notagildi hennar er sömuleiðis margfalt meira. Þessi þróun skilar sér hins vegar ekki inn í VLF útreikninga. Sama má segja um ótalmargar aðrar neysluvörur.

***

Af þessu má vera ljóst að hvað þetta varðar hafa lífsgæði fólks – einkum á Vesturlöndum – batnað mun meira og hraðar á síðustu áratugum en opinberar tölur um verga landsframleiðslu gefa til kynna.

***

Þáttur hins opinbera 

Útreikningurinn á VLF er háður nákvæmum upplýsingum um verð þeirrar vöru og þjónustu sem keypt er. Í einkageiranum tekur markaðsvirði á vörum og þjónustu iðulega mið af jaðarkostnaði framleiðanda og jaðarnotagildi neytanda. Erfiðara er hins vegar að leggja mat á framlag hins opinbera til landsframleiðslu, þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um markaðsvirði á þjónustu þar sem ríkið er í einokunarstöðu.

***

Þáttur opinberra útgjalda í hagvexti er nokkuð sem hagfræðingar eru ekki allir sammála um. Er þá bæði átt við það hvernig eigi að reikna út hvaða áhrif útgjöldin hafa á hagvöxt og einnig það hvort yfirhöfuð eigi að reikna með því að opinber útgjöld skapi hagvöxt.

***

Vegna þess hvernig hagvöxtur er mældur í flestum ríkjum út frá útgjöldum einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila geta greiðslur á milli tveggja opinberra stofnana talist til hækkunar á vergri landsframleiðslu. Ríkisstofnun A „selur“ ríkisstofnun B einhverja þjónustu fyrir 200 milljónir króna, svo dæmi sé tekið, og ef þetta er tekið með í reikninginn hækkar mæld landsframleiðsla sem því nemur.

***

Erfitt er hins vegar að sjá að raunveruleg landsframleiðsla hafi aukist sem nokkru nemur, einkum vegna þess að verðið á þjónustunni er í raun ákveðið einhliða en ræðst ekki á markaði. Aðrir taka harkalegar til orða, eins og Patrick Barron í grein sinni „C + I + G = Baloney“, sem birtist á vefsíðu Mises-stofnunarinnar í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Þar segir hann að það sé grundvallarmisskilningur að opinber útgjöld stækki efnahagskerfið og leiði til aukinnar hagsældar. Þvert á móti dragi hver króna sem hið opinbera eyðir frá hinu raunverulega hagkerfi og minnki það. Hið raunverulega hagkerfi sé einkahagkerfið og hver króna sem ríkið eyðir þurfi að koma þaðan.

***

Deila má um þessa nálgun. Sumir hlutir sem ríkið gerir eru óumdeilanlega þjónusta sem reikna má inn í landsframleiðslu. Heilbrigðisþjónusta, menntun og löggæsla eru dæmi um slíkt, en hins vegar er erfitt að meta það hvert virði þjónustunnar er þegar ekki er hægt að sjá raunverulegt markaðsvirði hennar. Auð- veldast er því að taka einfaldlega útgjöld ríkisins til þessara málaflokka og telja þá inn í landsframleiðslu, en að sama skapi er auðvelt að gagnrýna þá nálgun fyrir ónákvæmni.

***

Hvaðan kemur auðurinn? 

Kemur þetta í raun inn á kenningar um virði vöru og þjónustu. Marxískar kenningar ganga út frá því að kostnaður við framleiðslu vöru eigi að ráða söluverði hennar. Samkvæmt sömu kenningum á lengd háskólanáms að ráða launum opinberra starfsmanna. Þetta er að sjálfsögðu röng nálgun. Endanlegt verð ræðst ekki af framleiðslukostnaði og laun ekki af lengd háskólanáms, heldur af því hvað kaupandi vöru eða vinnu er tilbúinn að greiða fyrir hana. Af þessum sökum er afar hæpið að taka einfaldlega útgjöld hins opinbera til mennta- og heilbrigðismála og leggja þau athugasemdalaust við VLF.

***

Enn vitlausara er að telja til landsframleiðslu ýmis opinber útgjöld, sem ekki teljast til nauðsynlegrar þjónustu. Einkageirinn nýtir fjármuni betur en sá opinberi og hver einasta króna sem hið opinbera eyðir á uppruna sinn í einkageiranum.

***

Vegna þess að opinber útgjöld eru gagnrýnislaust tekin inn í hagvaxtarútreikninga hefur þessi reikningsaðferð lengi verið notuð til að réttlæta útgjaldaaukningu hins opinbera á krepputímum. Stjórnlyndir stjórnmálamenn telja hlutverk ríkisins að „jafna út hagsveifluna“ með því að mæta samdrætti í einkageiranum með auknum opinberum útgjöldum. Þessi auknu útgjöld eru oftar en ekki fjármögnuð með lántökum. Ári síðar geta þessir sömu stjórnmálamenn bent á tölur hagstofunnar um „aukinn hagvöxt“ og réttlætt gjörðir sínar.

***

Þá er einnig stórhættulegt að mati Óðins að taka bókstaflega þann hluta VLF-jöfnunnar sem kallast einkaneysla. Neysla eykur ekki hagvöxt. Neysla er hins vegar notuð til að mæla hagvöxt. Með því að rugla þessu tvennu saman geta stjórnmálamenn fallið í þá gryfju að leggja áherslu á að auka einkaneyslu í þeirri trú að hún sé í eðli sínu jákvæð. Auður verður ekki til við neyslu, heldur í gegnum sparnað og fjárfestingu.

***

Þarna er, að mati Óðins, að finna stærsta gallann við það hvernig við reiknum út verga landsframleiðslu og það hversu mikið við reiðum okkur á þessar tölur við hagstjórnina. Það er hættulegt að rugla saman mælinum og því sem hann mælir. Næst þegar stjórnmálamaður talar um mikilvægi samneyslu (opinberra útgjalda) eða einkaneyslu sem drifhvata hagvaxtar ættu viðvörunarbjöllur að hringja í eyrum þess sem hlustar.

Stikkorð: VLF verðmæti kostnaður Harvey fellibylir Eyðilegging
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.