*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Jóhannes Þór Skúlason
2. mars 2019 13:43

Eyðileggjum ekki vertíðina fyrir samfélaginu

„Ferðaþjónustufyrirtæki hafa þegar fengið fyrirspurnir frá mjög stórum aðilum sem nú velta fyrir sér að færa ferðir sínar annað.“

Haraldur Guðjónsson

Allir vita að ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Ferðamennirnir fara ekki fram hjá neinum og eðlilega hefur mikil umræða skapast um fjöldann sem hingað kemur, sem núna telur um 2,3 milljónir manna á ári, og þær áskoranir sem þessi aukning veldur á ýmsan hátt.

Á sama hátt eru núorðið fáir sem ekki gera sér grein fyrir því virði sem ferðaþjónustan hefur gefið samfélaginu í gegn um þennan vöxt. Mikill fjöldi fyrirtækja hefur orðið til, atvinnuuppbygging og ný tækifæri hafa orðið til í öllum landshlutum og tekjur hafa streymt inn í landið með þessum mikilvægu gestum okkar. Á síðasta ári einu saman voru tekjur ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu um 65 milljarðar króna og atvinnugreinin stendur nú undir vel rúmlega 40% af gjaldeyristekum þjóðarinnar.

Þessi uppgangur hefur haft margt gott í för með sér fyrir almenning á Íslandi. Okkur verður oft raupsamt um áskoranirnar sem fjöldanum fylgja, en sem betur fer er núorðið oftar viðurkennt hversu mikilvæg greinin hefur verið til að bæta lífskjör í landinu. Það er engin tilviljun að í fyrsta sinn í lýðveldissögunni er erlend staða þjóðarbúsins jákvæð um margra ára skeið. Það er heldur engin tilviljun að kaupmáttur hefur aukist fordæmalaust síðan 2010. Hvort tveggja eru þetta gríðarmikilvægir þættir í því að bæta lífskjör almennings í samfélaginu. Allir njóta góðs af þessum breytingum. Og hvort tveggja hefur töluvert að gera með þær breytingar sem ferðaþjónustan hefur komið með inn í efnahagslífið.

Flóknari veruleiki en virðist í fyrstu

En þar með er ekki öll sagan sögð. Það er að hluta eðlilegt að fólk tengi þennan mikla vöxt og breytingarnar sem honum fylgja við að fyrirtækin hljóti að sitja á miklum tekjum. Og vissulega hafa síðustu ár verið jákvæð á margan hátt. En iðulega gleymist hin hlið reksturs fyrirtækja, kostnaðarhliðin. Ísland er ekki bara dýrt land fyrir ferðamenn og almenning, það er líka mjög dýrt að reka fyrirtæki á Íslandi. Launakostnaður hefur hækkað um 75% frá árinu 2010, sérstaklega á kjarasamningatímabilinu frá 2015. Þetta þýðir að algengt er að launakostnaður ferðaþjónustufyrirtækja sem hlutfall af tekjunum hafi hækkað úr 32-36% í 45-55%. Það er gríðarleg hækkun. Og almennt séð er þessi staða mun brothættari á landsbyggðinni, einmitt vegna þessa.

Við þetta bætist að neysluvísitala hefur hækkað um 25% og byggingarvísitala um 37%. Öll aðföng og aðkeypt þjónusta hafa því hækkað í verði, sem kemur út sem kostnaður hjá fyrirtækjum.

Það sem þetta þýðir á mannamáli er að þó að fyrirtæki hafi miklar tekjur þá er kostnaðurinn líka mikill og þess vegna verður lítill hluti eftir í fyrirtækinu. Svigrúm þeirra til að stækka, bæta við sig starfsfólki eða hækka laun er því miklu minna í dag en það var fyrir þremur árum.

Og þá er ekki einu sinni öll sagan sögð. Ofan í þetta hefur gengi krónunnar styrkst um 23% í heildina litið frá 2010. Fyrirtæki sem seldi þjónustu fyrir 1 milljón króna í gjaldeyri árið 2010 fær því 23% minni tekjur í íslenskum krónum fyrir sömu milljónina í gjaldeyri í dag.

Tekjurnar lækka, kostnaðurinn eykst. Það er saga íslenskrar ferðaþjónustu sem mun sjaldnar hefur verið sögð en saga fjöldatalnanna, sem birtist nánast mánaðarlega og gefur skakka mynd af raunstöðunni.

Hvað er framundan?

Það er því ekki að ástæðulausu sem varað er við því að átök á vinnumarkaði valdi röskun á ferðaþjónustunni. Staðreyndin er sú að boðun verkfalls var nóg til að hefja tjónið. Ferðaþjónustufyrirtæki hafa þegar fengið fyrirspurnir frá mjög stórum aðilum sem nú velta fyrir sér að færa ferðir sínar annað. Hótelbókanir hafa þegar byrjað að færast yfir í skuggahagkerfi óskráðrar heimagistingar, sem hefur neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn. Erlend fyrirtæki sem starfa ódýrt hér á landi í krafti þess að greiða miklu lægri laun en íslenskir kjarasamningar segja til um eru þegar byrjuð að nýta sér þá staðreynd að verkfallið hefur ekki áhrif á þau til að sölsa undir sig stóra kúnna frá íslenskum fyrirtækjum. Það er þegar orðið stórtjón í íslenskri ferðaþjónustu bara með umtali og kosningu um verkfall. Bara með umtalinu. Fréttunum. Orðsporinu. Hvað heldur fólk að gerist þegar aðgerðir skella á af þeim þunga sem boðaður hefur verið?

Það er augljóst hvað gerist: Allir tapa. Ferðaþjónustufyrirtæki tapa, öll fyrirtæki sem hafa atvinnu af því að þjónusta ferðaþjónustufyrirtæki tapa. Allt samfélagið tapar gjaldeyristekjum og beinum sköttum.

Nýlega kom í umræðuna að án loðnuvertíðar muni samfélagið verða af 20-25 milljörðum króna í gjaldeyristekjur. Efling og VR boða nú 18 daga verkföll sem beinast að ferðaþjónustunni. Á 18 dögum færir ferðaþjónustan samfélaginu einmitt um 25 milljarða gjaldeyristekjur. Er ekki skynsamlegt að hugsa þetta aftur?

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.