Um daginn vakti athygli mína auglýsing í Fréttablaðinu frá Fiskeldi Austurlands þar sem fyrirtækið auglýsti drög að tillögu um matsáætlun vegna framleiðsluaukningar á laxi í Mjóafirði, Seyðisfirði, Norðfjarðarflóa og Stöðvarfirði upp á 30.000 tonn. Ég kynnti mér tillögurnar á heimasíðu fyrirtækisins og verð að segja að mér finnst þar ýmislegt gagnrýnisvert.

Áður en lengra er haldið er ágætt að rifja upp hvað sérfræðingur Veiðimálastofnunar, Sigurður Guðjónsson líffræðingur, hafði að segja um laxeldi árið 2014:

Áhrif laxeldis á náttúrulega stofna laxfiska geta verið af margvíslegum toga, en alvarlegust eru áhrif vegna erfðablöndunar og laxalúsar. Áhrif laxeldis geta stuðlað að hnignun náttúrulegra stofna laxfiska og ógnað líffræðilegum fjölbreytileika. [...] Erfðarannsóknir sýna að íslenskir laxastofnar eru talsvert frábrugðnir öðrum laxastofnum [...] Norski eldislaxinn sem notaður er í eldi hér á landi er framandi stofn og því er möguleg erfðablöndun stroklax við íslenska stofna sérstakt áhyggjuefni. Erfðablöndunin getur valdið varanlegum og óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra stofna og þar með spillt líffræðilegum og efnahagslegum verðmætum. [...] Í norskri rannsókn var sýnt að stór hluti endurheimta á eldislaxi, sem sleppt var úr eldi sem unglax, kom fram í vatnsföllum í hundrað eða nokkurra hundraða kílómetra fjarlægð frá sleppistað. Ekki má gleyma því að um þriðju tilraun til uppbyggingar fiskeldis er að ræða og mikið fjárhagslegt tap varð á fyrri tilraunum. Þrátt fyrir stutta reynslu laxeldis í Suðurfjörðum Vestfjarða hafa komið fram vandamál varðandi laxalús og sleppingar kynþroska laxa (Sigurður Guðjónsson, 2014).

Svo mörg voru þau orð sérfræðingsins, en eins og svo oft áður telja íslenskir fiskeldisforkólfar ástæðulaust að hafa miklar áhyggjur, vandinn sé ýktur, segja þeir, og ýja jafnvel að því að menn gefi vísvitandi ranga mynd af stöðunni hjá stóru fiskeldisþjóðunum. Slíkur málflutningur er í takt við annað í sjókvíaeldissögu Íslendinga sem er ein stór hrakfarasaga frá upphafi, og er þar engu logið. En aftur skal gefið frjálst á garðann og fiskeldisfyrirtæki spretta upp vítt og breytt um landið tilbúin að „bjarga” heilu byggðarlögunum. Búið er að meta, af til þess bærum stofnunum, hvar má setja niður kvíar þannig að engin hætta sé af fyrir villta lax- og silungsstofna og nú sækja fyrirtækin fram af auknum krafti. En snúum okkur aftur að auglýsingunni í Fréttablaðinu frá Fiskeldi Austfjarða þann 29 janúar.  Almenningi var gefinn frestur til 6. febrúar að koma með athugasemdir og fyrir áhugasama má finna drögin á heimasíðu fiskeldisfyrirtækisins. Þessi frestur er í engu samræmi við eðlilega stjórnsýslu og sýnist mér reyndar þegar þetta er skrifað að frestur hafi verið framlengdur um einhvern tíma.

Fyrir þá sem ekki vita er staðan gróflega þessi: Í gangi eru risalaxeldisáform á Vestfjörðum, Austförðum og í Eyjafirði þar sem nýta á erfðabreyttan norskan laxastofn til eldisins. Í mínum huga er algjörlega glórulaust og fullkomlega óskiljanlegt hvernig leyfi til að nota norskan erfðabreyttan eldislax fór í gegnum kerfið. Í því samhengi er vert að rifja upp samkomulag sem undirritað var 25. október 1988 af formanni Fiskeldis- og hafbeitarstöðva og veiðimálastjóra fyrir hönd Veiðimálastofnunar um að aldrei skyldi leyft að norskur lax væri notaður í sjókvíaeldi eða hafbeit og dreifingu hans skyldi takmarka við strandeldi.

Þegar drögin frá Fiskeldi Austfjarða eru skoðuð virðist mér í fljótu bragði að þeim sé einna helst ætlað að slá ryki í augu fólks. Þar er lögð áhersla á mikilvægi atvinnusköpunar sem og það að öryggi kvía sé í hávegum haft en minna er fjallað um hvernig fyrirtækið ætli að halda á málum ef illa fer, til dæmis vegna blöndunar norska erfðabreytta eldislaxins við villta laxastofna. Engu er svarað í drögunum um það hvernig endurheimta megi villta laxinn og hvernig bæta eigi tjónið sem kynni að verða ef allt færi á versta veg. Um slysasleppingar úr kvíum er þetta að segja: Þær munu eiga sér stað hvað sem fiskeldismenn fullyrða um nýjustu gerðir af skotheldum kvíum. Ekki er langt síðan Simon Coveney, ráðherra landbúnaðar og veiðimála í írsku stjórninni, þurfti að éta ofan í sig opinberlega að hann hefði haft rangt fyrir sér varðandi öryggi sjókvía við Írlandsstrendur þegar hátt í 300 þúsund laxar sluppu úr kvíum í Bantry flóa. Eldissaga Norðmanna er ein allsherjar slysasleppingasaga og þar eru afleiðingarnar að koma betur og betur í ljós. Ef gluggað er í gögn frá Norðmönnum þá tilkynntu eldisfyrirtækin um 244 þúsund strokulaxa árið 2015 en talið er að þann fjölda megi allt að fimmfalda.

Talsmaður eldismanna á Íslandi lét hafa eftir sér í blaðagrein að ástandið í Noregi væri ýkt og þeir hefðu góða stjórn á málum. Þetta eru hrein og bein ósannindi. Norðmenn eru og hafa verið um langt skeið með allt niðrum sig.

Fyrir ekki margt löngu var blásið til ráðstefnu í Noregi af veiðiréttareigendum Alta árinnar og öðrum norskum hagsmunaaðilum. Ráðstefnan var vel sótt og mættu norskir ráðherrar umhverfis- og veiðimála, ásamt sérfræðingum í málefnum Atlantshafslaxins og fólki frá verndarsamtökum, þar á meðal NASF. Í skýrslu sem lögð var fram á ráðstefnunni var dökk mynd dregin upp af ástandi norskra laxastofna þar sem niðurstaðan var að aðeins 22 prósent af norskum laxveiðiám væri í lagi. Í ræðu dr. Trygve T. Poppe prófessors frá Norska Veterinary háskólanum kom fram að ef ekki kæmu til mjög afgerandi aðgerðir, mætti reikna með að innan fimm ára heyrði stangaveiði á villtum laxi í Noregi fortíðinni til. Á sama tíma og þessar grafalvarlegu spár koma fram áætlar ríkisstjórn Noregs að leyfa áfram netaveiði á Altasvæðinu og veiði með sérstökum netum (kroggarn), á rússneska stórlaxinum sem gengur í árnar á Kolaskaga. Kroggarn eru skæð veiðarfæri sem eru alfarið bönnuð á öðrum stöðum í Noregi og í öðrum löndum. Til að bæta um betur hefur forseti þings Sama gefið út yfirlýsingu um að þessum veiðum verði haldið áfram þrátt fyrir að það sé í trássi við alþjóðlega sáttmála og ef eitthvað verði veiðin aukin. Á áðurnefndri ráðstefnu lagði Kjetil Hindar frá Norsku Náttúrufræðistofnuninni, þekktur sérfræðingur í erfðafræði laxfiska, fram skýrslu sem sýndi fram á erfðafræðileg áhrif eldislaxa á villtu laxastofnana. Sýndi hún að 65 prósent norskra laxveiðiáa hafa orðið fyrir áhrifum vegna þessa og 20 prósent þeirra eru mjög illa farnar vegna erfðamengunar. Jens Olav Flekke, stjórnarformaður í NASF (Noregi) benti á að með framleiðslu á 1.2 milljónum tonna af laxi í norskum fjörðum væru Norðmenn algjörlega búnir að missa tök á sleppilaxa- og laxalúsavandanum. Laxalúsarplágan í fjörðunum skaði villta stofna laxa og sjóbirtings og vegna stjórnlausrar notkunar lyfja og annarra efna hafi lúsin myndað ónæmi fyrir öllum þekktum meðferðum og lúsaplágan þar af leiðandi stjórnlaus. Hann benti jafnframt á að þó opinberar tölur eldisfyrirtækja um slysasleppingar væru milli 200–300 þúsund laxar á ársgrundvelli ættu fyrirtækin erfitt með að sýna fram á hvað yrði um þau tvö prósent laxa sem vanti í heildartöluna sem væri þá í kringum sex milljónir laxa.

Á ráðstefnunni var hart deilt á ríkisstjórn Noregs og ráðherrarnir lofuðu bót og betrun. Bent var á að það væri ekki í fyrsta sinn sem slík loforð sæju dagsins ljós án efnda. Orri Vigfússon frá NASF benti í þessu sambandi á að það væri lítil von fólgin í loforðum frá ríkisstjórn sem hefði hvað eftir annað sýnt að henni væri ekki treystandi þegar kæmi að verndun villtra lax- og silungsstofna og búsvæða þeirra. Ég fæ ekki betur séð en að íslenskir ráðamenn séu á svipuðum slóðum og kollegar þeirra í Noregi þegar kemur að þessum málaflokki.

Hér í lokin langar mig svo að minnast á rannsókn Prófessors Mathews Gage frá háskólanum í Austur-Anglíu sem gefin var út 2014. Þar er sýnt fram á að eldisfiskur er álíka frjór og sá villti. Rannsókn Gage sýnir einnig fram á að eldisfiskur sem sleppur úr kvíum lifir af í hafi og finnur sér ár til að hrygna í. Þetta er í fullu samræmi við reynslu Norðmanna þar sem helmingur laxa í sumum ám eru af eldisuppruna og rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að erfðablöndun hefur átt sér stað.

Fiskeldi í kvíum á Austfjörðum á sér gamla og lúna sögu. Í síðustu Austfjarðaeldissveiflu var öllum varnaðarorðum ýtt út af borðinu. Laxeldið gæti ekki klikkað, engin hætta væri af sleppingum, atvinna fjölda manna trygg, smjör myndi drjúpa af hverju strái. Það er því skiljanlegt að síðustu eldisuppsveiflu hafi verið fagnað á sínum tíma en þau fagnaðarlæti hljóðnuðu fljótlega þegar vatnaði undan eldinu eða réttara sagt allt fór þráðbeint á hausinn.

Ég er landsbyggðarmaður í hugsun, alinn upp í litlu sjávarþorpi á Austurlandi og hef upplifað frá fyrstu hendi hversu hörð lífsbaráttan getur verið í samfélögum þar sem allt byggir á einni atvinnugrein. Ég skil þess vegna vel þegar menn fagna nýjum störfum sem fylgja fiskeldi í byggðarlögum þar sem kvóti er horfinn og allir eiga sitt undir því að eitthvað komi í staðinn. Ég er alls ekki á móti eldi á matfiski en ef við ætlum að koma í veg fyrir óafturkræfa eyðileggingu íslenskra lax- og silungsstofna er að mínu mati aðeins ein leið fær, þ.e. að staðsetja slíkt eldi uppi á landi. Reyndar er ég sannfærður um að þegar að borðinu koma framkvæmdaaðilar sem sjá sér hag í að ala fisk í strandeldi muni góðir hlutir fara að gerast og þá í sátt við alla.