*

mánudagur, 1. mars 2021
Týr
21. febrúar 2021 10:12

FA og áfengið

Í vikunni bárust þær fréttir að Ölgerðin hefði sagt sig úr Samtökum iðnaðarins sem setur rimmu frá því fyrr í vetur í nýtt samhengi.

Haraldur Guðjónsson

Týr er öllu jafna hlynntur þeim sem tala máli atvinnulífsins, tala fyrir frjálsu markaðshagkerfi, lágum sköttum, minni ríkisafskiptum og þannig mætti áfram telja. Flestir þeirra sem tala máli atvinnulífsins átta sig á því að hagsmunir atvinnulífs og almennings fara saman, enda er öflugt atvinnulíf forsenda þess að hægt sé að halda uppi öflugu velferðarsamfélagi.

                                                              ***

Félag atvinnurekenda (FA) er eitt af þeim félögum sem reglulega hafa gert sig gildandi í umræðu um frelsi í viðskiptum. Hefur það tekið nauðsynlega slagi við embættismenn ríkisins, gagnrýnt óhóflega gjaldtöku eftirlitsstofnana og beitt sér gegn sykurskatti svo fá mál séu nefnd. Týr tekur undir þau baráttumál, enda fela þau öll í sér skref til að minnka áhrif og völd ríkisins. Eitt af þeim málum sem reglulega blossa upp er umræða um frelsi í verslun með áfengi og hefur Týr verið hugsi þegar FA hefur blandað sér í þá umræðu.

                                                              ***

Í ljósi yfirlýstrar stefnu FA um að vera „einarður talsmaður viðskiptafrelsis og heilbrigðrar samkeppni", vakti grein Ingvars Smára Birgissonar fyrr í vetur athygli Týs. „Félag atvinnurekenda hefur í yfir áratug staðið gegn öllum frumvörpum á Alþingi sem hafa haft það að markmiði að færa fyrirkomulag á sölu áfengis í frjálsræðisátt," segir meðal annars í grein Ingvars Smára, sem var einn af ráðgjöfum dómsmálaráðuneytisins þegar frumvarp til breytinga á áfengislögum var samið. Ingvar Smári segir jafnframt að stærstu áfengisframleiðendur landsins og áfengisinnflytjendur séu félagar í FA. Þeim líði vel í náðarfaðmi ríkisins og séu ekki spenntir fyrir því að þurfa að semja við Bónus og Krónuna um verð og hillupláss.

                                                              ***

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, vísaði þessari gagnrýni á bug í svargrein. Sagði hann að markmið ráðherra um aukið jafnræði og viðskiptafrelsi í verslun með áfengi væru góð og gild, „en eins og FA hefur ítrekað bent á, er mikil hætta á að með því að gera breytingar á markaðnum í smábútum og með hálfkáki eins og lagt er til í þessu frumvarpi verði til nýtt ójafnræði og samkeppnishindranir."

                                                              ***

Í vikunni bárust þær fréttir að Ölgerðin hefði sagt sig úr Samtökum iðnaðarins (SI), á þeim grundvelli að SI hefði lagt of litla áherslu á mál sem fyrirtækið þyrfti aðstoð við. Þessar nýju vendingar setja rimmu þeirra „félaga" í nýtt samhengi. Ölgerðin er jú eitt af stóru félögunum innan FA.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.