Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki njóti ekki almennrar lýðhylli verða þeir að fá að njóta sannmælis í fjölmiðlum. Um helgina birti Ríkisútvarpið frétt um þau miklu tíðindi að bankar rukki fyrir þá þjónustu sem þeir veita einstaklingum og fyrirtækjum. Og eins og Alma Ómarsdóttir fréttamaður benti á þá gera þeir þetta þrátt fyrir aukna sjálfvirknivæðingu og fækkun útibúa. Í fréttinni segir:

„Kostnaðurinn er mismikill milli bankanna og oft er ekki hlaupið að því að finna verðið. Afgreiðslugjald fyrir helstu aðgerðir hjá gjaldkera, svo sem innlögn, úttekt eða millifærslu, er á bilinu 250-330 krónur.“

Eins og fyrr segir getur það varla talist fréttnæmt að fyrirtæki þiggi greiðslu fyrir veitta þjónustu. Það hefði því frekar verið fróðlegt ef fréttamaður hefði grennslast fyrir hvaða kostnaður liggur að baki greiðslum fyrir millifærslur og aðra hversdagslega bankaþjónustu sem einstaklingar nota nánast daglega.

Þá er það rangt sem kemur fram í fréttinni að það sé eitthvað sérstaklega vandasamt að finna verð fyrir þá þjónustu sem bankarnir veita og er þessu fleygt fram til þess að gera reksturinn tortryggilegan. Á heimasíðum allra bankanna er að finna ítarlega verðskrá fyrir þá fjölþættu þjónustu sem þeir veita. Vissulega er verðskráin löng enda endurspeglar það þá þjónustu sem viðskiptavinum stendur til boða. Enginn ætti að hugsa sig tvisvar um að eiga í viðskiptum við Húsasmiðjuna eða Byko þó svo að þeir hafi ekki á hraðbergi verð á hverri einustu tegund af skrúfum og legum sem þar eru seldar.

***

Það er ánægjulegt að ljósvakamiðlarnir setja enn töluverðan metnað í útvarpsdagskrána yfir páskana. Eru það sérstaklega Bylgjan og Rás 1 sem standa upp úr í þessum efnum. Fastir liðir eins og spurningakeppni fjölmiðlanna á Bylgjunni skipar fastan sess í páskahaldi margra en auk þess var boðið upp á skemmtilegan viðtalsþátt við Jón Ólafsson á skírdag og einnig ræddi Heimir Karlsson við Þorgeir Ástvaldsson starfsbróður sinn í sérstökum þætti sem óhætt er að mæla með.

Ríkisútvarpið bauð upp á hlaðvarpsþættina Myrtu þeir Eggert sem feðginin Sindri Freysson og Snærós Sindradóttir gerðu. Þættirnir fjalla um dularfullt andlát Eggerts J. Jónssonar, bæjarfógeta í Keflavík, árið 1962, aðdraganda og eftirmál. Feðginin koma til skila kynngimögnuðum bæjarbrag Keflavíkur á 7. og 6. áratugnum enda ættu þau að verða orðin sérfróð um hann eftir að hafa sagt frá ævintýralegum ferli Jósafats Arngrímssonar, skreiðarútflytjanda og athafnamanns, í sambærilegum hlaðvarpsþáttum á páskunum í fyrra.