Ég kom nýverið úr fríi frá New York borg. Í Bandaríkjunum er margt sem hægt er að gagnrýna um þessar mundir – en þar fann ég að minnsta kosti frjálsan samkeppnismarkað – markað sem ég gæti ekki fundið hér heima: skutlmarkað, nánar tiltekið Uber þjónustuna. Efnisvalið er máske ekki það allra frumlegasta. En þetta er málefni sem má gjarnan minna á. Dropinn holar steininn, og allt það.

Ef dæmið væri einungis hugsað út frá neytandanum, myndi ég ekki treysta mér að færa rök fyrir því að banna Uber. Í fyrsta lagi þykir mér almennt séð þurfa að færa býsna sannfærandi rök fyrir því að banna einstaklingum að haga sér á ákveðinn hátt. Í öðru lagi virðist vera sem það myndi þjóna hagsmunum einstaklinga að nýta sér skutlþjónustu: sér í lagi hvað varðar verð og þægindi. Í þriðja lagi grasserar í dag markaður á vefnum þar sem hægt er að panta sér far á Facebook. Í einum hóp á Facebook eru um 10% Íslendinga sem gæti hugnast það að taka frekar ólöglegt skutl en að nýta sér þjónustu íslenskra leigubílastöðva. Í fjórða lagi er oft beitt þeim rökum að leigubílastöðvar þurfi að viðhalda einokun til að tryggja öryggi gesta. Uber bílar eru tengdir staðsetningu þinni, þú færð upplýsingar um bílstjórann og getur séð dóma annars fólks um sama að­ ila. Því teldi ég klént að sá einstaklingur kæmist upp með að stefna lífi fólks í hættu frekar en hinn almenni leigubílstjóri. En ég skil samt reiði leigubílstjóra. Það er líklega fokdýrt að fá leyfi til að keyra leigubíl. Að keppa við einhverja eins og Uber gæti leitt til þess að tekjur leigubílafélaga dragist umtalsvert saman og að þeir þurfi að lækka verð, sem hefði neikvæð áhrif á hinn almenna leigubílstjóra.

Fyrir nokkrum árum heyrðist hátt í leigubílstjórum þegar greint var frá því að OECD og Samkeppniseftirlitið lögðust harkalega gegn núverandi fyrirkomulagi lögbundinna aðgangshindrana á leigubílamarkaði. Í frétt Viðskiptablaðsins sagði framkvæmdastjóri Hreyfils hættu geta skapast með auknu frjálsræði, enda gætu leigubílar þá orðið kjörinn vettvangur til að stunda eiturlyfjasölu og alls konar glæpamennsku. Þá spyr ég: En hvað með skutlarahóp þar sem nú eru ríflega 30 þúsund meðlimir eða um 10% Íslendinga? Þar sem engin lög og enga reglu má finna?

Þessi fjölmiðlapistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 24. maí 2017.