*

laugardagur, 6. júní 2020
Óðinn
19. nóvember 2019 18:05

Fall Berlínarmúrsins og krakkar á RÚV

Óðinn bíður leiðréttingar frá Krakkafréttum og afsökunarbeiðnar frá Ríkisútvarpinu vegna umfjöllunar um Berlínarmúrinn.

Hans Conrad Schumann, Schumann 19 ára gamall landamæravörður í Austur Þýskalandi hleypur í átt til frelsis á þriðja degi uppbyggingar Berlínarmúrsins.
Aðsend mynd

Höfuðborginni í Berlín var líka skipt í tvennt og árið 1961 var reistur múr til að aðgreina borgarhlutana. Það var líka gert til að koma í veg fyrir að fólk flyttist á milli, aðallega frá austri til vesturs.

 • Krakkafréttir 11. 11. 2019 – Ríkisútvarpið

Meginástæðan fyrir byggingu Berlínarmúrsins var stöðugur straumur fólks frá AusturÞýskalandi til Vestur-Þýskalands. Þegar hafist var handa við að reisa múrinn 13. ágúst 1961 höfðu 2,5 milljónir manna yfirgefið Austur-Þýskaland frá því það var stofnað árið 1949. Fólksflóttinn náði hámarki 1961, fyrstu tvær vikurnar í ágúst það ár fóru 159.730 manns til Vestur-Berlínar.

 • Vísindavefur Háskóla Íslands – 2. 12. 2009; höf.: Hjálmar Sveinsson dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu

                                                            ***

Leppstjórn Kremlarbænda í Austur-Þýskalandi lét sér ekki nægja að reisa múr og breyta landinu öllu í fangabúðir. Alþýðulýðveldið raðaði upp hermönnum og landamæravörðum meðfram öllum múrnum, notaðist við gaddavír, vélbyssuturna, jarðsprengjur og hunda. Þrátt fyrir það hélt fólk áfram að reyna að flýja í frelsið með öllum ráðum, eins og myndin að ofan ber með sér. Jafnvel hermönnum einræðisstjórnarinnar, líkt og hinum 19 ára gamla landamæraverði Hans Conrad Schumann, ofbauð verkamannaparadísin og lögðu líf sitt í bráða hættu til þess að flýja vestur yfir.

                                                            ***

Opinberar tölur segja að 136 manns hafi verið drepnir við að reyna að komast yfir Berlínarmúrinn af landamæravörðum Austur-Þýskalands og um 200 særst. Þúsundir eru taldir hafa verið fangelsaðar vegna flóttatilrauna.

                                                            ***

Sigurður Már Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins og blaðamaður um langt skeið, hefur hins vegar bent á að opinberu tölurnar séu rangar:

Miðað við grimmdaræði kommúnista víða annars staðar þá eru tölurnar til þess að gera hófstilltar í Austur-Þýskalandi. Milli 13. ágúst 1961 og þess þegar landamærin vestur voru opnuð 9. nóvember 1989 eru skráð 186 mannslát við landamærin austan megin. Þegar hins vegar farið var að skoða í skjalasöfn Stasi kom í ljós að minnsta kosti 825 manns höfðu goldið með lífi sínu tilraunir til að flýja vestur. Þetta kom fram í málsskjölum þegar réttað var yfir meðlimum austur-þýska öryggisráðsins. Til viðbótar því sem átti sér stað við landamæri voru óskilgreind dauðsföll úti um allt Austur-Þýskaland sem verða helst rakin til lögregluyfirvalda. Haustið 1991 var búið að skrá 4.444 dráp eða morðtilræði þar sem ekki var ljóst hvað hafði orðið um fórnarlambið. Þessar tölur eru því enn að breytast. Því til viðbótar komu um 40.000 dómsúrskurðir þar sem ákæruefnin voru pólitísk. Talið er að um 240.000 manns hafi þurft að dvelja um lengri eða skemmri tíma vegna pólitískra skoðana í austur-þýskum fangelsum.

                                                            ***

Samt er sagt fullum fetum í Krakkafréttum RÚV að í Berlín hafi verið reistur múr „til að aðgreina borgarhlutana“, rétt eins og að um það hafi nú bara ríkt víðtæk samstaða í skipulagsmálum. Og svo höfuðið bitið af skömminni með því að bæta við að það hafi „líka [verið] gert til að koma í veg fyrir að fólk flyttist á milli, aðallega frá austri til vesturs.“ Líka?! Aðallega?!!

                                                            ***

Nei, sá var eini tilgangur þessa ógeðslega minnismerkis alræðisins, sem reist var einhliða af austur-þýskum stjórnvöldum, að koma í veg fyrir að íbúarnir gætu flúið í frelsið. Að halda þeim föngnum. Og það var ekkert aðallega frá austri til vesturs, heldur einvörðungu. Það flúði enginn austur yfir og það átti enginn von á skoti í bakið við að láta sér detta í hug að fara austur yfir Múr.

                                                            ***

Óðinn bíður leiðréttingar frá Krakkafréttum og afsökunarbeiðnar frá Ríkisútvarpinu.

                                                            ***

Hjálmar Sveinsson, borgarfullltrúi og fyrrverandi dagskrágerðarmaður á Ríkisútvarpinu, má eiga að hann sagði satt og rétt frá í pistli sínum fyrir Vísindavefinn árið 2009. En Hjálmar okkar Sveinsson var ekki endilega með puttann á púlsinum í nóvember árið 1989 þegar hann skrifaði í Þjóðviljann heitinn um þjóðarviljann í Austur-Þýskalandi eins og hann kom honum fyrir sjónir þegar það molnaði úr múrnum fyrir 30 árum. Eða vildi sjá það.

Í viðtölum við austur-þýska borgara, sem undanfarna daga hafa verið að virða dýrð Vestur Berlínar fyrir sér, hefur komið skýrt fram: að þeir óttast talið um endursameiningu, að þeir yilja vera áfram Austur-Þjóðverjar, að þá dreymir um þjóðfélag sem er öðru vísi en það gamla og líka öðru vísi en það vestur-þýska. […]

Það leikur enginn vafi á að þessar tvær ræður [ræður Stefan Heym og Christa Wolf] endurspegla skoðanir og tilfinningar fjölmargra Austur-Þjóðverja um þessar mundir: gleði yfir að hafa varpað af sér okinu, tortryggni gagnvart ráðamönnum sem allt í einu eru búnir að venda um og draumur um lýðræðislegan sósíalisma.

                                                            ***

Fyrstu þingkosningar í Austur-Þýskalandi fóru fram í mars 1990. Síðast höfðu frjálsar kosningar verið haldnar í nóvember 1932. Kristilegir demókratar, flokkur Helmuts Kohl kanslara, fékk 40,8% atkvæða. Sósíalistarnir í SPD fengu 21,9% atkvæða. Flokkurinn Partei des Demokratischen Sozialismus eða Demókratíski sósíalistaflokkurinn fékk 16,4% atkvæða. Samanlagt fengu þessir sósíalistaflokkar minna fylgi en hægriflokkurinn Kristilegir demókratar.

                                                            ***

Hjálmar Nostradamus Sveinsson hefur hugsanlega horft (eða speglað sig) skakkt í kristalskúluna, þegar hann skrifaði grein sína fimm mánuðum fyrr. Nú eða að spádómurinn hafi byggt á því fólki sem hann umgekkst í Berlín, og síðar á Ríkisútvarpinu og nú í Samfylkingunni.

                                                            ***

Eyðileggingarmáttur kommúnismans, og litla bróður sósíalsismans, hefur enn mikil áhrif á gömlu kommúnistaríkin í Austur-Evrópu. Lífsgæði og velmegun eru þar enn miklu minni en í vestri þótt þrjátíu ár séu liðin frá falli kommúnismans.

                                                            ***

Austur-Þýskaland var raunar mun betur statt efnahagslega heldur en hin kommúnistaríkin. Þjóðverjarnir voru að jafnaði betur menntaðir og landið var iðnríki. Skyldmennin í vesturhlutanum höfðu þar einnig nokkur áhrif, en peningar, matar- og fatasendingar voru tíðar. Samt hefur það enn ekki náð sér fyllilega á strik.

                                                            ***

Verg landsframleiðsla á mann í Vestur-Þýskalandi var næstum tvöfalt hærri en í austri frá byggingu múrsins árið 1961 fram til 1990 þegar ríkin sameinuðust. Austan múrsins talaði heldur enginn um efnahagsundur nema í bitrum hálfkæringi.

                                                            ***

Enn í dag er verg landsframleiðsla lægri í austurhlutanum eða um 82% af því sem hún er í vesturhlutanum. Mörgum í austurhlutanum finnst þeir vera annars flokks borgarar þrátt fyrir að sameiningin hafi átt sér stað fyrir 29 árum síðan. Það jákvæða sem hefur gerst er að frá sameiningu hefur atvinnuleysi lækkað úr 20% í 6%.

                                                            ***

Það er eins gott að varast vinstri beygjurnar. Því afleiðingarnar geta varað lengi.

                                                            ***

Umfram allt má þó ekki gleyma þessari sorgarsögu, þegja yfir henni eða láta eins og þar hafi aðeins togast á austur og vestur, sárasvipaðar fylkingar að öðru leyti, eiginlega jafngild, eins og látið var að liggja við börnin. Það er bæði rangt og illa gert, hvort sem um er að kenna heimsku eða pólitískri blindu undir yfirvarpi hlutleysis Ríkisútvarpsins.

Verg landsframleiðsla á mann árið 1990

Úr árbók Bandarísku leyniþjónustunnar 1990, verg landsframleiðsla á mann í Bandaríkjadölum eftir löndum:

 • Vestur-Þýskaland 18.690
 • Austur-Þýskaland 9.679
 • Sovétríkin 9.211
 • Tékkóslóvakía 7.878
 • Ungverjaland 6.108 Búlgaría 5.710
 • Júgóslavía 5.464
 • Pólland 4.565
 • Rúmenía 3.445
 • Albanía 1.200
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.