Í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn fjallaði Óðinn um gjaldþrot Fréttablaðsins og rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Sem og sjónarmið Sigríðar Daggar Auðunsdóttur formann blaðamannafélagsins og frétt hennar í ríkisfréttamiðlinum um hlutabótaleiðina.

Hér er upphaf pistilsins Óðins en áskrifendur geta lesið hann hér.

Fall Fréttablaðsins, rekstrarumhverfi fjölmiðla og formaður ríkisfréttamanna

Fréttablaðið varð gjaldþrota á föstudaginn þegar Helgi Magnússon eigandi blaðsins tók þá ákvörðun að setja ekki meira fé inn í reksturinn. Það er auðvitað mjög miður þegar tugir manna verða atvinnulausir, fjárfestar tapa miklu og sem og kröfuhafar.

En það er einkennilega staðið að gjaldþrotinu. Óðinn benti á í janúar að sú ákvörðun að hætta dreifingu Fréttablaðsins væri upphafið að endalokunum. Þetta vissu stjórnendur Torgs líka.

Það er því illa gert af eigandanum og stjórnendunum að segja starfsmönnunum ekki frá því að þetta væri örvæntingarfull tilraun til að halda rekstrinum gangandi. Sönnun þess að eigandinn hafði ekki lengur trú á rekstrinum var stofnun nýs félags, Fjölmiðlatorg ( var stofnað í október 2022).

***

Hvers vegna fór sem fór?

Það er mikill misskilningur að halda því fram að gjaldþrot Fréttablaðsins sé aðeins rekstrarumhverfi fjölmiðla og Covid að kenna. Fleira kemur þar til sem skýrir líklega betur gjaldþrotið. Enda tapaði Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, DV og Hringbrautar, 265 milljónum króna árið 2019.

Það hefur haft mikil og vond áhrif á útgáfu fríblaðs í stóru upplagi að pappírsverð hefur hækkað mikið. Að auki hefur launakostnaður fyrirtækja á Íslandi hækkað gríðarlega á undanförnum árum en launahlutfallið í rekstrarkostnaðinum er hátt hjá fjölmiðlum. Dreifingarkostnaðurinn á blaðinu tekur einnig mið af laununum.

***

Óðinn er reyndar þeirrar skoðunar að það hafi aldrei verið forsendur fyrir rekstri fríblaðs á Íslandi. Höfuðborgarsvæðið er strjálbýlt, þar er engar lestarstöðvar að finna eða nokkuð annað þar sem mikill fjöldi fólks fer um á degi hverjum. Því er dreifingarkostnaðurinn mun hærri.

Fréttablaðið var lengst af inni í stórum rekstrarfélögum og því afkoman ekki ljós. Einnig voru eigendurnir lengst af í þeirri stöðu að geta beint auglýsingarfé sínu inn í blaðið. Fyrir því kunna að hafa verið rök. En Húsasmiðjan hjá Helga jafnaðist ekki við Baugsveldið hjá Jóni Ásgeiri.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út miðvikudaginn 5. apríl. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.