*

þriðjudagur, 28. janúar 2020
Andrés Magnússon
29. september 2017 17:13

Fantar og ærur

„Það er ekki einkamál Ríkisútvarpsins eða fréttastofunnar hvernig hún hagar sér eða brennir upp skattfé með óvarlegum vinnubrögðum,“ skrifar fjölmiðlarýnir.

Haraldur Guðjónsson

Hér hefur stöku sinnum verið minnst á virka í athugasemdum, sem sjaldnast hafa bætt þjóðmálaumræðuna. Hér á landi halda þeir sig þó fyrst og fremst við þjóðmálaumræðuna og almenn fúkyrði, en því er ekki alls staðar að heilsa erlendis.

Í Bretlandi hafa þannig misskipulagðir hópar virkra í athugasemdum, netfanta, vaðið uppi í pólitískri netumræðu, ekki síst á Twitter, lagt stjórnmálamenn, blaðamenn og fleiri í einelti, haft í hótunum og jafnvel ógnað fjölskyldum þeirra. Konur hafa sérstaklega orðið fyrir barðinu á netföntunum, svo óhætt er að tala um kynbundið einelti á köflum, þar sem menn skirrast ekki við að óska skotspónum sínum nauðgana og misþyrmingjum.

Þarna að baki er aðallega um þrjá hópa að ræða: rasista af ýmsum stærðum og gerðum, stuðningsmenn Skoska þjóðarflokksins og villta vinstrið í Verkamannaflokknum, sem er hinn harði stuðningsmannakjarni Jeremy Corbyn flokksleiðtoga. Þarna er því ekki aðeins um einhverja jaðarhópa að ræða.

Svo rammt hefur að þessu kveðið, að á flokksþingi Verkamannaflokksins sem lauk í gær, þótti breska ríkisútvarpinu BBC rétt að láta lífvörð fylgja Lauru Kuenssberg, stjórnmálaritstjóra BBC, hvert fótmál á þinginu, líkt og nauðsyn þótti í kosningabaráttunni þar í landi í sumar.

Að þessu leyti er þjóðmálaumræðan komin á einhvern ömurlegan stað í einu rótgrónasta lýðræðis- og réttarríki heims. Bretland er engan veginn einsdæmi um þetta á Vesturlöndum.

Það er umhugsunarefni fyrir allan almenning, en sérstakt áhyggjuefni fyrir blaðamenn. Ekki aðeins vegna öryggis þeirra, heldur ekki síst vegna hættunnar á að vegna slíkra hótana, þori menn ekki að spyrja jafnágengra spurninga og áður, láti sumar spurningar eiga sig, láti jafnvel vera að fjalla um tiltekin málefni.

***

Skömmu eftir að niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál lá fyrir, birti dómsmálaráðuneytið þau gögn, sem birta mátti, varðandi mál Róberts Downey á vef sínum. Um það mál hafði enda verið fjallað svo mikið, að sjálfsagt var að birta þau þar.

Gögn varðandi önnur mál voru hins vegar aðeins send þeim fjölmiðlum, sem óskað höfðu eftir þeim, og þeim eftirlátið að meta hvað af því átti erindi við almenning og hvað ekki. Það er ekkert út á þau vinnubrögð að setja, enda á það yfirleitt að vera þannig að þeir fjölmiðlar, sem óska upplýsinga um eitthvert mál, þurfi ekki að una því að minna forvitnum eða duglegum keppinautunum sé sent afrit af fyrirspurnum þeirra.

Í þessu tilviki voru þeir svo sem mikið að biðja um hið sama, svo þeir fengu um það bil sömu gögnin. En munurinn er sá að ráðuneytið birti gögnin ekki milliliðalaust til almennings. Fyrir því eru ýmis ágæt rök, þau helst að ráðuneytið eigi fyrir sitt leyti ekki að vera að birta upprifjanir á löngu liðnum embættisfærslum, sem eru helst til þess fallnar að valda þeim, sem í hlut eiga, frekari og endurnýjaðri vanvirðu. Það er lítið réttlæti í því fyrir fólk, sem tekið hefur út refsingu fyrir löngu og á að heita skuldlaust við þjóðfélagið að því leyti. Nema auðvitað að sérstakt tilefni sé til, viðkomandi hafi brotið af sér á ný eða eitthvað þess háttar. Alveg burtséð frá öllum æruþvotti.

Ábyrgð fjölmiðla við vinnslu frétta úr slíkum gögnum er því allnokkur. Það snýr ekki einvörðungu að almannahagsmunum og mannhelgi gamalla sakamanna og dómþola. Fjölmiðlar þurfa líka að hafa hagsmuni brotaþola í huga. Það tekur ekki aðeins til augljósra þátta, eins og að afhjúpa þá ekki ef brotið var á þeim af nákomnum. Miðlarnir verða einnig að hafa hugfast að upprifjun á gömlum sakamálum, ekki síst þeim sem svívirðilegust þykja, getur verið brotaþolunum afar þungbær.

Það á ekki að koma í veg fyrir að fjölmiðlar fjalli um gömul sakamál ef þurfa þykir, en það er ekki sama hvernig það er gert. Eins og segir í siðareglum Blaðamannafélagsins ber blaðamönum skylda til þess að sýna.

fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. [Blaðamaður] forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Í umfjöllun liðinna daga fóru sumir nærri strikinu í þeim efnum. Ekki af mannvonsku eða annarlegum ástæðum, heldur sennilegast aðeins af kappsemi og umhugsunarleysi. Sem á sinn hátt er skiljanlegt í málum þar sem mörgum er mikið niðri fyrir um og kannski sérstaklega vegna þess að það snerist að miklu leyti um fyllstu upplýsingu.

Fjölmiðlar eiga að segja fréttir og þeir eiga ekki að hika við að greina frá því sem máli skiptir. En það á líka að ætlast til þess að þeir sýni dómgreind við það. Lesandinn þarf ekki hvert smáatriði, það er einmitt hlutverk fjölmiðla að sleppa þeim og draga aðalatriðin fram. Sumar fréttir eru þannig vaxnar, að það er trauðla hægt að segja þær án þess að valda viðkomandi eða fólki þeim tengdum sársauka. En það er vegna þess hvernig komið er, ekki vegna frásagnar fjölmiðlanna. Fyrrgreint ákvæði siðareglnanna kveður hins vegar á um óþarfa sársauka og fjölmiðlar geta vel skrifað greinargóðar fréttir um hræðilega hluti án þess að valda óþarfa sársauka.

***

Einn anga ærumálsins má enn nefna, sem snýr raunar að fleiru varðandi fjölmiðlun.

Stundin birti þannig frétt um svívirðilegt kynferðisbrotamál, tveggja áratuga gamalt, en dómþoli hlaut uppreist æru fyrir ekki löngu. Fréttin hófst á nafni mannsins. Nafnbirtingar í fréttum eru nokkuð misjafnar eftir ritstjórnarstefnu miðla, en eins og áður hefur komið fram á þessum síðum er fjölmiðlarýnir er hlynntur þeim, nema sérstakar ástæður séu til annars.

Í tilviki eins og þessu er hins vegar hæpið að birta nafnið. Ekki vegna þess að ráðuneytið hafi gæðastimplað æru mannsins, heldur einfaldlega vegna þess hve langt er um liðið og nafnbirtingin er til einskis fallin nema að verða manninum til síðbúins refsiauka. Öðru máli gegndi ef maðurinn hefði haldið sakaferli sínum áfram, nýverið brotið af sér með svipum hætti eða ámóta.

Stundin sá enda að sér og fjarlægði nafnið úr upphafi fréttar. Það var bót í máli, en hins vegar varaði Stundin sig ekki á því að á Facebook-síðu blaðsins var þessi sama frétt auglýst áfram með upphaflega textanum og þannig deildu henni einhverjir.

***

Á mánudag sagði Stígur Helgason skrýtna frétt í Ríkisútvarpinu. Ekki vegna þess að hann hafi misstigið sig, heldur vegna efnis fréttarinnar. Þar sagði að maður að nafni Guðmundur Spartakus Ómarsson hefði dregið til baka meiðyrðamál sitt á hendur Ríkisútvarpinu og starfsmönnum þess, en þeir staðhæfðu á sínum tíma að hann væri stórgrósser í fíkniefnaheimi Paraguay. Í staðinn greiddi RÚV honum málskostnað og ótilgreinda upphæð í miskabætur.

Heimildin um þetta var Vilhjálmur H. Vilhjálmssoni, lögmaður Guðmundar Spartakusar, sem sagði að hann mætti ekki ræða samkomulagið nánar. Svo Stígur sló á þráðinn til Margrétar Magnúsdóttur, lögfræðings RÚV, sem vildi hvorki tjá sig um efni samkomulagsins né ástæðu þess að leiðin var farin.

Þetta er allt hið einkennilegasta mál. Umfram allt hefði mað- ur þó haldið að það kæmi eigendum Ríkisútvarpsins, almenningi, við hvað væri verið að borga vegna málsins og nákvæmlega hvers vegna. Við blasir að þetta laumuspil er að kröfu Ríkisútvarpsins, en hvaða hagsmuni er það að verja með þeim hætti?

Þetta er vitaskuld frekara umhugsunarefni í ljósi þess að yfir Ríkisútvarpinu höfða frekari málshöfðanir, einnig vegna rangs og meiðandi fréttaflutnings, sem virðist mega rekja til þess að rétt og eðlileg vinnubrögð voru ekki viðhöfð, hvorki varðandi heimildir né framsetningu, bæði af fréttamönnum og fréttastjóra. Þar kann Ríkisútvarpið, almenningur, að þurfa að greiða tugmilljónir króna áður en yfir lýkur vegna víðtækra afleiðinga fréttaflutnings þess á atvinnurekstur.

Það er ekki einkamál Ríkisútvarpsins eða fréttastofunnar hvernig hún hagar sér eða brennir upp skattfé með óvarlegum vinnubrögðum.

Stikkorð: fjölmiðlar Æra
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.