*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Óðinn
22. maí 2018 12:32

Farartálmar í vegi verslunar

Reglugerðir geta valdið tjóni ef þær eru óþarfar eða illa ígrundaðar sem og kerfi sem er fjandsamlegt innflutningi og verslun.

Í ár eru tíu ár liðin frá því að alþjóðlega fjármálakreppan hófst formlega með falli Lehman Brothers bankans, þótt líklega sé hægt að rekja upphaf hennar til ársins 2007. Síðan þá hefur það tekið stærstu hagkerfi heimsins nokkuð langan tíma að komast aftur á lappirnar og í raun hafa þau ekki öll gert það enn.

                                    ***

Það er nefnilega mjög sérstakt hvað það hefur tekið heimshagkerfið langan tíma að jafna sig eftir fjárkreppuna. Minnir þessi kreppa því um margt á kreppuna miklu hvað það varðar.

                                    ***

Eflaust eru margar mismunandi ástæður fyrir þessum hægagangi. Tíma hefur tekið fyrir fyrirtæki og banka að vinda ofan af mikilli skuldsetningu og ríkissjóðir stærstu ríkjanna hafa engan veginn náð viðunandi árangri á þessu sviði.

                                    ***

Minni hagvöxtur og minni verslun

Sænsku hagfræðingarnir Fabian Wallen og Magnus Wilberg birtu fyrr í mánuðinum áhugaverða grein á vegum bresku hugveitunnar Institute of Economic Affairs þar sem þeir færa fyrir því rök að heimsverslun sé ekki að vaxa með sama hraða eftir hrunið 2008 og hún gerði á árunum á undan. Það skýri að einhverju leyti að minnsta kosti af hverju heimsframleiðslan hefur ekki vaxið sem skyldi síðustu árin.

                                    ***

Samkvæmt tölum Alþjóðabankans var hagvöxtur á heimsvísu að meðaltali 3,955% á árunum 2003-2007, en á árunum 2012-2016 var hann aðeins 2,652%. Ekki eru komnar tölur fyrir árið 2017. Hægt er í raun að velja hvaða árabil sem er – hagvöxtur eftir fjárkreppuna er minni en hann var fyrir hana.

                                    ***

Þeir Wallen og Wilberg setja þessar tölur í samhengi við heimsverslun. Árlegur vöxtur útflutnings var á árunum 1980-2007 4,7% að meðaltali, en á árunum 2008-2017 var hann hins vegar aðeins 2,2%. Heimsverslun er því að vaxa um helmingi hægar að meðaltali eftir fjárkreppuna en fyrir hana.

                                    ***

Meiri fjárfesting

Verslun hefur jákvæð áhrif á samfélög, en mælanleg áhrif verslunar koma meðal annars fram í hagvexti og landsframleiðslu á mann. Við vitum að meiri verslun hefur jákvæð áhrif á landsframleiðslu, en mismunandi kenningar eru uppi um nákvæmlega hvernig þessi áhrif virka.

                                    ***

Ein kenningin hefur að gera með fjárfestingu og fjárfestingargetu í hagkerfi. Ef við göngum út frá því að utanríkisverslun aukist hjá tilteknu ríki vegna þess að tollar voru lækkaðir. Þetta gerir ríkinu kleift að sérhæfa atvinnugreinar sínar í takt við hlutfallslega yfirburði. Þetta eykur framleiðslu og tekjur. Hækkandi tekjur leiða til aukins sparnaðar og þar með aukinnar fjárfestingar, sem er forsenda hagvaxtar í framtíðinni.

                                    ***

Önnur kenning gengur út frá því að langtímahagvöxtur byggi á rannsóknum, þróun og nýsköpun. Samkvæmt henni eru tengsl milliríkjaviðskipta og hagvaxtar nokkurn vegin þau að meira frelsi í viðskiptum opnar fleiri og stærri markaði fyrir fyrirtæki, sem ná þá til fleiri viðskiptavina, geta þróað vörur sínar meira og þróað nýjar vörur. Það kallar á fjárfestingu í rannsóknum og þróun, sem aftur skilar sér í auknum hagvexti.

                                    ***

En þetta eru ekki bara kenningar háskólamanna. Gerðar hafa verið rannsóknir á hagsögulegum tölum sem sýna fram á þessi sömu tengsl verslunar og hagvaxtar. Má hér nefna rannsókn Romain Wacziarg og Karen Horn Welch, en þau skoðuðu hagtölur 141 lands frá árunum 1950-1998. Í mjög einföldu máli eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að hagvöxtur ríkja sem juku frelsi í utanríkisverslun var 1,5 prósentum meiri á ári að meðaltali eftir breytinguna en fyrir hana.

                                    ***

Það er því að mati Óðins óhætt að ganga út frá því að milliríkjaverslun hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og að ekki sé ólíklegt að minni utanríkisverslun síðustu árin hafi haft áhrif á dauflegan hagvöxt í heiminum eftir fjármálakreppuna.

                                    ***

Duldar hindranir

En hvað skýrir? Ekki eru það auknir tollar, þótt hugsanlega muni tollahótanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta og kínverskra stjórnvalda hafa áhrif til hins verra. Frá miðjum síðasta áratug hefur meðal tollastig í heiminum lækkað um hálft prósentustig, úr 3,1% í 2,6%.

                                    ***

Tollar hafa því ekki verið að tempra milliríkjaverslun. En ríki hafa fleiri vopn í vopnabúrinu ef markmiðið er að leggja stein í götu innflytjenda. Og þar virðist hundurinn liggja grafinn. Skipta má viðskiptahömlum milli ríkja í tvo flokka, annars vegar tolla og hins vegar aðrar hindranir. Undir tolla í þessu samhengi má setja vörugjöld, innflutningsskatta og aðra slíka hluti.

„Aðrar hindranir“ eru hins vegar óljósari. Þar undir eru hlutir eins og lög og reglur sem mæla fyrir um að vörur skuli framleiða eða dreifa með ákveðnum hætti. Þessar reglur geta verið mismunandi eftir ríkjum og þær geta gert milliríkjaverslun dýrari og tafsamari. Svifaseint tollafgreiðslukerfi og skrifræði geta einnig sett steina í götu innflytjenda.

                                    ***

Margt bendir til þess að það séu einmitt þessar hindranir sem hafi hægt á vexti milliríkjaverslunar eftir hrun. Það er erfitt fyrir ríki að setja á hreina og klára tolla án þess að brjóta reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO, eða annarra sambærilegra alþjóðlegra stofnana. Reglugerðir um heilbrigðiseftirlit er hins vegar hægt að setja án þess að það hringi sömu bjöllum.

                                    ***

Viðskiptahindranir sem þessar geta brotið gegn reglum WTO og fylgist stofnunin því með þeim og heldur bókhald um fjölda nýrra slíkra hindrana. Þar kemur fram hversu margar nýjar hindranir hafi verið boðaðar, en ekki eru ekki enn komnar til framkvæmda og einnig hversu margar nýjar hindranir hafa raunverulega tekið gildi.

                                    ***

2009 og 2010 fjölgaði í báðum þessum flokkum mjög hratt og tóku nýjar, innleiddar hindranir annað stökk á árunum 2015 og 2016. Nýjar innleiddar hindranir voru færri í fyrra en árin á undan, en boðaðar hindranir, sem koma eiga til framkvæmda síðar, hafa aldrei verið fleiri en einmitt í fyrra. Það boðar ekki gott fyrir framtíðina.

                                    ***

Hér ber að geta þess að fleiri þættir en viðskiptahindranir hafa haft áhrif á hægari vöxt alþjóðaverslunar. Óvissa og áhættufælni eftir fjármálakreppuna og aukin áhersla kínverskra stjórnvalda á einkaneyslu í stað útflutnings gæti hér leikið hlutverk.

                                    ***

Verum á varðbergi

En greinin ætti að vekja lesendur til umhugsunar um þær leiðir sem ríkið getur farið til að leggja farartálma í veg verslunar. Óðinn hefur ítrekað hrósað þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir að fella niður gríðarlegt magn tolla og vörugjalda einhliða. Það var stórt skref fram á við. En það er hægt að skemma þann árangur án þess að leggja einn einasta nýjan toll á.

                                    ***

Reglugerðir geta valdið tjóni ef þær eru óþarfar eða illa ígrundaðar. Illa rekið stjórn- og embættismannakerfi, eða kerfi sem er fjandsamlegt innflutningi og verslun, getur einnig valdið tjóni.

                                    ***

Það er verkefni sem aldrei endar að standa vörð um verslun og viðskipti, en það er mikilvægt verkefni, því á þessum grunni er velmegun okkar að stórum hluta reist.

Stikkorð: Verslun tollar WTO viðskipti Fabian Wallen Magnus Wilberg
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.