*

mánudagur, 24. júní 2019
Huginn og muninn
12. maí 2018 10:39

Farsi í Hörpu

Launin forstjóra voru lækkuð, hækkuð og síðan aftur lækkuð og einhvers staðar í millitíðinni voru laun þeirra lægst launuðu lækkuð.

Haraldur Guðjónsson

Nýjasta fórnarlamb kjararáðs, Svanhildur Konráðsdóttir, þurfti að þola tímabundna launalækkun fyrir störf sín sem forstjóri Hörpu á síðasta ári. Fórnfýsi Svanhildar átti þátt í að Harpa skilaði rekstrarhagnaði í fyrsta sinn í fyrra en aðrir þættir á borð við skort á viðhaldi og jú, lækkun launa þjónustufulltrúa Hörpu, höfðu sitt að segja. Stjórnendur Hörpu sjá líklega fram á enn frekari lækkun launakostnaðar eftir uppsögn flestra þeirra í byrjun vikunnar.

Stjórn Hörpu benti á að kjarasamningur VR sé ástæða þess að laun Svanhildar hækkuðu enn frekar umfram umsamin laun upp á 1,5 milljónir króna í 1.568 þúsund krónur á mánuði. VR ákvað að mótmæla þessari óperu allri saman með því að hætta viðskiptum við Hörpu. Harpan hefur að líkindum geta lifað með því áfalli en steininn tók úr þegar höfuð menningarelítunnar, Illugi Jökulsson, lýsti því yfir að hann myndi sniðganga Hörpu vegna þessa farsakennda klúðurs. Svanhildur tilkynnti snögglega í kjölfarið að hún myndi óska eftir því að laun hennar yrðu lækkuð til samræmis við úrskurð kjararáðs. 

Jón Kaldal beindi spjótum sínum að glerhýsinu á Twitter og rifjaði upp þegar hann stóð í niðurskurði fyrir áratug: „Ég var í stjórnendateymi hjá 365 haustið 2008 þegar efnahagslífið hrundi. Við urðum að lækka laun til að halda lífi. Leiðin sem við fórum var að hæstu launin lækkuðu mest og svo fór lækkunin minnkandi niður launastigann og var engin á lægstu launin. Annað kom ekki til greina.“ 

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is