*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Leiðari
11. ágúst 2016 12:11

Fátækt á Íslandi

Þegar kemur að því að glíma við samfélagsleg vandamál eins og fátækt, hvort sem um er að ræða almenna fátækt eða fátækt afmarkaðra hópa eins og ellilífeyrisþega, verður að gera það á réttum forsendum.

Eldriborgarar
Gunnhildur Lind Photography

Fátækt er nokkuð sem ekki ber að hafa í flimtingum og í siðuðu samfélagi ber þegnunum siðferðileg skylda til að styðja við bakið á þeim sem minnst mega sín. Það er hins vegar ekkert sem réttlætir það að mála hlutina í dekkri litum en ástæða er til. Því miður er sú tilhneiging rík hjá mörgum vinstrimanninum að halda því fram að fátækt hér sé meiri en hún raunverulega er og að misskipting tekna sé hér mikið vandamál.

Fyrir þessu eru sjaldnast færð raunveruleg rök, heldur eru tilfinningar látnar ráða. Bent er á ákveðna einstaklinga sem eru með há laun í samanburði við hinn almenna launamann og af þeim samanburði dregnar ályktanir sem ekki eiga við nein almenn rök að styðjast.

Samkvæmt nýjustu tölum OECD er jöfnuður hvergi meiri í aðildarríkjunum en einmitt á Íslandi, ef miðað er við Gini-stuðulinn, en það eru svosem engin ný sannindi. Afar treglega reynist hins vegar að koma þessari staðreynd að í umræðunni að það er nauðsynlegt að benda reglulega á hana. Ekki nóg með að tekjujöfnuður á Íslandi sé meiri hér en annars staðar, heldur hefur hann aukist síðustu árin.

OECD deildi svo í vikunni afar áhugaverðu grafi, þar sem umfjöllunarefnið var fátækt ellilífeyrisþega. Þar voru aðildarríki OECD borin saman hvað varðar hlutfall fólks, 65 ára og eldri, sem býr við svokallaða hlutfallslega fátækt. Þar er átt við að tekjur viðkomandi séu minni en helmingur af miðgildi tekna í viðkomandi landi. Hlutfallið er um 12,6% að meðaltali í OECD ríkjunum öllum og hæst er það 49,6% í Suður-Kóreu. Í Bandaríkjunum er hlutfallið 21,5%, 13,4% í Bretlandi og 9,3% í Svíþjóð. Um 7,8% finnskra ellilífeyrisþega býr við hlutfallslega fátækt og 4,6% aldraðra dana og 4,1% aldraðra Norðmanna. Á Íslandi er þetta hlutfall aðeins 3,0% og er aðeins lægra í Hollandi og Tékklandi.

Ítreka ber að hér er ekki verið að gera lítið úr raunverulegum vanda þeirra 3% íslenskra ellilífeyrisþega sem búa við þessar aðstæður, en því ber engu að síður að fagna að hlutfallið skuli þó ekki vera hærra.

Þegar kemur að því að glíma við samfélagsleg vandamál eins og fátækt, hvort sem um er að ræða almenna fátækt eða fátækt afmarkaðra hópa eins og ellilífeyrisþega, verður að gera það á réttum forsendum. Það verður að greina raunverulegan vanda og takast á við hann, en ekki búa til strámenn í pólitískum tilgangi og úthrópa þá sem ósammála eru sem fjandmenn þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu.

Engum er greiði gerður með slíkum málflutningi, síst af öllum þeim sem aðstoðar eru þurfi.

Stikkorð: Fátækt Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.