*

mánudagur, 1. júní 2020
Týr
15. september 2019 09:17

Feðraveldið í Strassborg

Hinir ótal furðufletir hins undarlega dómsúrskurðar MDE um Landsrétt.

Róbert Ragnar Spanó er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og fyrrum forseti lagadeildar Háskóla Íslands.
Ómar Óskarsson

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í maí 2018 að dómarar við Landsrétt væru lögmætir í embættum sínum og sakborningar nytu réttlátrar málsmeðferðar, þrátt fyrir áhöld um skipun þeirra. Þessi afdráttarlausa niðurstaða Hæstaréttar var klöguð til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) í Strassborg. Álit hans hafa ekki gildi að íslenskum landsrétti eins og segir einfaldlega í 2. grein laga um MDE: „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“

Meirihluti undirdeildar MDE komst að þeirri niðurstöðu í mars að Hæstiréttur Íslands hefði rangt fyrir sér, en í óvenju harðorðu minnihlutaáliti var meirihlutinn hins vegar gagnrýndur fyrir að láta pólitískt moldviðri á Íslandi bera sig af leið. Nú á mánudag var svo ákveðið að málið yrði tekið fyrir eftir dúk og disk á öðrum áratug 21. aldar í yfirdeild MDE. Þar með hefur niðurstaða undirdeildarinnar aldrei fengið neitt gildi.

Staðan er hins vegar þannig að vegna þessa hafa fjórir fyllilega lögmætir dómarar við Landsrétt setið auðum höndum síðan í mars og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hvarf tímabundið úr embætti. Vegna álits sem aldrei hefur tekið gildi og mun aldrei gera það!

Á ógildu niðurstöðunni eru fleiri furðufletir. Sumir gagnrýndu að Róbert Spanó hafi verið meðal dómara í undirdeildinni, sakir vinfengis við Vilhjálm H. Vilhjálmsson, lögmanninn í málinu. Minni athygli hefur hlotið að faðir Róberts og nafni skrifaði kveðju á opinn Facebook-vegg dómsmálaráðherra síðdegis eftir að að niðurstaða undirdeildar MDE lá fyrir: „You made my day.“ Þessi kalda kveðja, sem enn stendur á Facebook, bendir til einhverra persónulegra illinda. Hvaða rugl er það?

Minnsta athygli hefur hlotið að meðal skattfrjálsra aðstoðarmanna dómara við MDE er Hildur Hjörvar lögfræðingur. Sú hefur ekki dregið af sér við pólitískar yfirlýsingar á Twitter sem víðar og tísti hinni marklausu niðurstöðu undirdeildarinnar með stolti. Týr veit ekki hver hlutur Hildar var í undirbúningi málsins því þannig er nú ógagnsæið í Strassborg. Hins vegar man hann að í þingkosningum 2016, sem fleyttu Sigríði Á. Andersen í embætti dómsmálaráðherra, féll faðir hennar af þingi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.