alein þú dóttir vor dvaldir
við dauðagný
hafið þig harmþrungið færði
heim á ný
landið í faðm sinn þig lagði
um langa nótt
við syrgjum þig systir vor allra
sofðu rótt
— Friðrik Erlingsson

Ljóðið að ofan birtist á miðopnu Morgunblaðsins á dögunum, eftir leitinni að Birnu Brjánsdóttur lauk. Fjölmiðlarýnir veit að höfundur erfir það ekki við hann þó það sé endurbirt hér. Það er ekki aðeins gert til minningar um Birnu og hið óhugnanlega hvarf hennar, samhug og sorg þjóðarinnar.

Hér er það ekki síður til þess að benda á hversu margslungin fjölmiðlaumfjöllun getur verið. Þó þar séu fréttirnar jafnan í fyrirrúmi, þá hafa fjölmiðlar fleira að segja og góðir fjölmiðlar lifa og hrærast með lesendum sínum og samfélagi. Stundum kemur að því að það þarf að segja hluti, sem ekki verða tjáðir nema í ljóði af þeirri list, sem gert var að ofan.

* * *

Fyrst og fremst sinntu fjölmiðlarnir þó skyldum sínum í þessu máli með því að segja fréttir. Ekki þarf að orðlengja hvernig fréttaþyrst þjóðin stóð á öndinni meðan á leitinni stóð og fréttamiðlarnir gerðu sitt ýtrasta til þess að svala þeim þorsta.

Eins og áður hefur verið rakið á þessum stað er það ekki vandalaust í svo viðkvæmu máli og þar reynir á miðlana. Það reynir auðvitað á ýmsa fleiri í því samhengi, fyrst og fremst auðvitað lögregluyfirvöld, sem stóðu sig afar vel gagnvart fjölmiðlum og almenningi í málinu öllu. Alveg til fyrirmyndar.

Fjölmiðlarýnir fullyrðir að hið sama eigi við um hina almennu fréttamiðla, sem máttu hafa sig alla við í fréttaflutningi af málinu og fóru ekki fram úr sér. Þar með er ekki sagt að allir miðlar hafi staðið sig óaðfinnanlega, en hinir hefðbundnu fréttamiðlar stóðu sig allir vel og enginn þeirra fór yfir nein strik.

Það hefur vissulega mátt sjá suma hreyfa gagnrýni í garð fjölmiðlanna, jafnvel fullyrt að þeir hafi ekki farið fram af nægilegri nærgætni, hugsanlega spillt fyrir rannsókn málsins eða ámóta. Það er rangt og enginn hefur getað nefnt raunhæf dæmi um slíkt.

Fjölmiðlar segja fréttir, þeim ber skylda til þess og það er þjóðfélaginu nauðsynlegt. Ætlaðir rannsóknarhagsmunir trompa það ekki og mega ekki gera það.

* * *

Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu, kom eilítið við sögu réttarfrétta í vikunni. Í fyrra skiptið var opinberri ákæru gegn honum fyrir hatursorðræðu vísað frá, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, sagði að ummælin væru almenn eðlis og óljóst af ákæru hver þeirra ákæruvaldið teldi saknæm, því gæti orðið erfitt fyrir sakborning að verjast þeim.

Þeirri frávísun má fagna og jafnframt binda vonir við að lögreglan láti sér þá sneypuför að kenningu verða. Löggjafinn má svo hugleiða það einnig, því lagabókstafurinn er ekki skýr og gengur sennilegast of langt gagnvart stjórnarskrárákvæðum og mannréttindum varðandi tjáningarfrelsi.

Í öðru máli var það Pétur, sem stefndi konu fyrir að hafa deilt á Facebook hlekk að mynd af Pétri skeyttum við óæðri endann á asna með fyrirsögninni „Kúkur mánaðarins“. Dómarinn sýknaði konuna, m.a. þar sem ummælin voru ekki hennar, en aðallega þó vegna þess að þarna var látin í ljós skoðun.

Þótt umræddur texti og mynd hafi augsýnilega haft það að markmiði að lítillækka stefnanda með spotti og háði, verður ekki fram hjá því litið að hvort tveggja var þáttur í þjóðfélagsumræðu sem stefnandi hefur tekið virkan þátt í á opinberum vettvangi. Var því í reynd um að ræða neikvæðan gildisdóm um stefnanda og framlag hans til téðrar þjóðfélagsumræðu án þess að dróttað væri að tiltekinni háttsemi eða eiginleikum stefnanda, svo sem þegar hefur verið slegið föstu.

Því ber líka að fagna.

* * *

Eiður Svanberg Guðnason varð bráðkvaddur á mánudag. Eiður var blaðamaður á Alþýðublaðinu og síðar einn af frumherjunum á fréttastofu Ríkissjónvarpsins frá 1967 til 1978.

Undanfarinn áratug fékkst Eiður við að skrifa um málfar í fjölmiðlum. Hann var góður íslenskumaður, næmur á málið og meðferð þess.

Öllum blaðamönnum var og er hollt að lesa aðfinnslur hans, en það gat verið vanþakkátur starfi, eins og sést á því að gárungi í stéttinni nefndi eftir honum nýyrðið „eiðindi“ um slíka umvöndun! En er unnt að komast lengra í blaðamennsku en í orðabókina?

Guð blessi minningu Eiðs.