*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Huginn og muninn
22. nóvember 2020 12:20

Fékk læk frá ráðherra

Birgir Jónsson, fráfarandi forstjóri Póstsins, sagði pólitísk sjónarmið farin að skipta meira máli en rekstur hjá Póstinum.

Birgir Jónsson, fráfarandi forstjóri Póstsins.
Eva Björk Ægisdóttir

Birgir Jónsson tilkynnti í byrjun mánaðarins að hann hefði sagt starfi sínu hjá Póstinum lausu. Gustað hafði um Birgi í starfinu enda staðið í ströngu í hagræðingaraðgerðum hjá póstfyrirtæki í eigu ríkisins, sem misst hafði sjónar á grunnrekstrinum og rak m.a. um tíma prentsmiðju, sem Birgir seldi.

Hrafnarnir hafa áður mært Birgi og störf hans hjá Póstinum enda hefur fyrirtækið um langa hríð verið baggi á ríkissjóði, þar sem stjórnendur forðuðust að taka erfiðar ákvarðanir og taka upp niðurskurðarhnífinn. Í þessu samhengi stungu hrafnarnir upp á því að Birgir yrði gerður að farandforstjóra ríkisins, enda af nógu að taka í opinbera geiranum. Þó það taki á að skera niður þá er verkefnið sem tekur við þegar því er lokið líklega enn flóknara og svolítið ódýrt að stökkva frá borði á þeim viðkvæma tímapunkti.

Í færslu sem Birgir skrifaði á Linkedin sagði hann að þetta væri rétti tíminn til að hætta enda pólitísk sjónarmið farin að skipta of miklu máli í rekstrinum. Auðvitað átti Birgir að taka slaginn við pólitíkina. Það má samt vera að stjórnvöld hafi samband við hann með nýtt krefjandi verkefni. Í því samhengi má benda á að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra smellti í eitt læk við færslu Birgis á dögunum.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.