Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram frumvörp sem ætlað er að lækka húsnæðiskostnað þeirra efnaminni með húsnæðisbótum, með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur, og auka réttindi leigjenda og búseturéttarhafa í húsnæðissamvinnufélögum.

Það er kannski liður í afmælisfögnuði, nú þegar 100 ár eru liðin frá stofnun Framsóknarflokksins, að dusta rykið af jafngömlum hugmyndum og leita lausna í bótum og samvinnufélögum. Menn virðist þó ekki átta sig á hinu augljósa; að aukin réttindi leigutaka gagnvart leigusölum og hærri bætur munu að sjálfsögðu skila sér í hærra leiguverði.

Stjórnvöldum virðist ekki hafa hugkvæmst, sem er þó eðlilegri lausn, að aflétta kvöðum, gjöldum og sköttum af húsbyggjendum og fasteignaeigendum til að lækka byggingarkostnað, kostnað við fasteignakaup og rekstrarkostnað fasteigna, sem myndi skila sér í lægra leiguverði.

Tökum nokkur dæmi. Ríkið getur lækkað byggingarkostnað með því að aflétta óþarflega ströngum kvöðum í byggingarreglugerðum. Sveitarfélögin geta að sama skapi lækkað þennan kostnað með því að minnka kvaðir og gjaldtöku af byggingaframkvæmdum. Ríkið gæti lækkað kostnað við rekstur leiguíbúða með því að lækka eða afnema fjármagnstekjuskatt af leiguhúsnæði.

Sveitarfélögin gætu lækkað fasteignagjöld og aðra gjaldtöku á fasteignaeigendur og aukið framboð af lóðum fyrir íbúðahúsnæði. Þá væri einfalt að henda í ruslið öllum hugmyndum um bann við verðtryggðum lánum.

Viðameira bótakerfi og öflugri húsnæðissamvinnufélög eru skrýtin framtíðarsýn í landi þar sem langflestir vilja búa í eigin húsi. Hvers vegna búum við ekki frekar til þannig aðstæður að húsnæðiskostnaður verði sem lægstur í stað þess að hækka hann á einum enda opinbers rekstrar og greiða hann niður á öðrum?