*

mánudagur, 25. október 2021
Óðinn
24. maí 2019 18:02

Ferðamenn, vextir og hagvöxtur

Lykilatriði í að gera ferðaþjónustuna samkeppnishæfa við útlönd nú þegar stefnir í fækkun er lækkun gjalda.

Már Guðmundsson er Seðlabankastjóri.

Ferðaþjónustan varð undirstöðuatvinnugrein á Íslandi á örfáum árum. Ríkisreknar markaðsstofur þökkuðu sér hinn mikla árangur þegar raunin var sú að náttúruöflin beindu kastljósi fjölmiðla heimsins að okkar litlu eyju. Í kjölfarið snarfjölgaði ferðamönnum.

                                                                                                  * * *

Nú eru blikur á lofti. Útlit er fyrir að ferðamönnum muni fækka í fyrsta sinn síðan 2011. Greiningardeildir bankanna hafa verið duglegar að fylgjast með ferðaþjónustunni og benda á ýmsar staðreyndir um hana. Þær hafa hins vegar verið varfærnari að spá fyrir um hver fækkunin verður. Greiningardeild Íslandsbanka gaf út skýrslu um greinina í byrjun mánaðarins. Þar er gengið út frá fækkun en ekki gerð tilraun til að áætla hana.

                                                                                                  * * *

Það gerði Seðlabankinn hins vegar í gær í ritinu Peningamálum. Bankinn spáir því að ferðamönnum fækki um 10,5% í ár sem er 8 prósentustiga meiri fækkun en gert var ráð fyrir í febrúarspá bankans. Bankinn spáir því að ferðamönnum muni fjölga á næsta ári þótt fjölgunin verði mun hægari en hún hefur verið undanfarin ár. Samkvæmt spánni verður fjöldi ferðamanna hér á landi kominn í 2,3 milljónir á árið 2021 sem er svipaður fjöldi og kom hingað til lands í fyrra.

                                                                                                  * * *

Isavia spáir því að sætaframboð til og frá Keflavíkurflugvelli muni minnka um 2,2 milljónir flugsæta, eða 28%. Icelandair ætlaði að auka sætaframboð um 14% en óvíst er hvort það næst. Í maí dróst sætaframboðið saman um 2% vegna kyrrsetningar MAX véla félagsins. Það sem mun líklega ráða mestu um hversu mikið ferðamönnum mun fækka er hvort Icelandair tekst að fjölga ferðamönnum sem hafa viðkomu á Íslandi og fækka tengifarþegum. Nú kalla sumir eftir viðbrögðum stjórnvalda. Þau munu aldrei fjölga ferðamönnum. Það geta einstaklingar og fyrirtæki ein gert. En stjórnvöld gætu gert breytingar á reglum sem þau settu sjálf og snúa að meiri ánægju ferðamanna.

                                                                                                  * * *

183% dýrari

Í skýrslu Íslandsbanka er bent á að hótel og veitingastaðir séu 86% dýrari en innan ESB og áfengir drykkir 183% dýrari. Hvorki meira né minna.

                                                                                                  * * *

Lækkun opinberra gjalda á ferðaþjónustuna er lykilatriði. Fasteignaskattar hafa hækkað gríðarlega síðustu árin og lækkun þeirra myndi gera ferðaþjónustuna samkeppnishæfari við útlönd. Það er nefnilega misskilningur að fasteignafélög og fasteignaeigendur beri kostnað af fasteignagjöldum. Á endanum eru það leigutakarnir, einstaklingar og fyrirtæki, sem þurfa að standa undir álögunum.

                                                                                                  * * *

Nú stendur til að endurskoða löggjöf um leigubíla. Leigubílar eru dýrir á Íslandi og besta leiðin til að bæta þjónustu og lækka verð er að gefa leigubílaakstur frjálsan. Eftir að hafa kynnst þjónustu bifreiðaþjónusta líkt og Uber mun ekki nokkur maður vera ánægður almennt með hefðbundinn leigubíl.

                                                                                                  * * *

Starfshópur á vegum samgönguog sveitarstjórnarráðuneytisins skilaði af sér skýrslu í mars 2018 þar sem lagt var til að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubílaaksturs og að fallið verði frá lögbundinni stöðvarskyldu. Í dag eru leigubílstjórar skyldaðir til að starfa hjá leigubílastöð. Alls er heimilt að úthluta 650 leigubílaleyfum, þar af 580 á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi leyfa hefur hvorki haldið í við fólksfjölgun né fjölgun ferðamanna. Starfshópurinn benti á að engar fjöldatakmarkanir væru í gildi í Svíþjóð eða Danmörku og stefnt hefði verið að afnámi fjöldatakmarkana í Finnlandi í sumar auk þess sem verið sé að undirbúa afnám fjöldatakmarkana í Noregi.

                                                                                                  * * *

Taprekstur

Frá árinu 2011 hefur hlutfall fyrirtækja í ferðaþjónustu sem skilað hafa hagnaði verið 54% að meðaltali. Það fór hæst í 59% árið 2016. Þetta þýðir að helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu skilar tapi. Mikil fjárfesting hefur verið í greininni samfara gríðarlegum vexti og nauðsynlegt að nota þessa mögru mánuði til að hagræða. Það virðast fyrirtæki í ferðaþjónustu vera að gera.

                                                                                                  * * *

Eins og fram kemur í skýrslu Íslandsbanka þá fer eiginfjárstaða ferðaþjónustunnar batnandi. Árið 2011 nam eiginfjárhlutfall greinarinnar aðeins tæpum 20%. Hlutfallið hækkaði í um 30% fram til ársins 2015 en hefur staðið í stað síðan þá.

                                                                                                  * * *

Þetta eru meðaltalstölur og ljóst er að ferðaþjónustan má ekki við miklum búsifjum. Þó að 30% eiginfjárhlutfall teljist þokkalegt er styrkur ferðaþjónustunnar ekki mikill, ekki síst smærri fyrirtækja. Erum við á leið í kreppu?

                                                                                                  * * *

Í gær birti seðlabankinn nýja hagvaxtarspá. Í stað 1,8% hagvaxtar á þessu ári eins og gert var ráð fyrir í febrúar er nú spáð 0,4% samdrætti. Í ljósi þess og þokkalegra verðbólguhorfa lækkaði bankinn vexti um 0,5%. Undanfarin misseri hefur bankinn aðeins hreyft vexti um 25 punkta og því er ljóst að bankinn taldi nauðsyn að bíða ekki með frekari vaxtalækkun fram að næsta vaxtaákvörðunardegi.

                                                                                                  * * *

Fróðlegt verður að sjá hvort bankinn lækki vexti 26. júní enn meira, en margir spá allt að 1% lækkun, og þeir bjartsýnustu allt að 2% sem verður að teljast óskhyggja. En sjáum til. Vaxtalækkun Seðlabankans mun hafa jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækja almennt og þar með skuldsetta ferðaþjónustuna.

10-15% vextir

En vaxtalækkunin mun lítil áhrif hafa á hagvöxt ef viðskiptabankarnir halda áfram að halda að sér höndum í útlánum. Óðinn skilur vel að bankarnir vilji ganga eilítið hægar inn um gleðinnar dyr en undanfarin ár. Það er hins vegar alþekkt á markaðnum að minni fjármálafyrirtæki eru að lána í góð verkefni gegn góðum veðum á miklu hærri kjörum en almennt tíðast, á 10-15% vöxtum auk 1-2% lántökugjalds. Oft er þetta millilagsfjármögnun þar sem viðskiptabankarnir þrír hafa lækkað lánshlutföll töluvert.

                                                                                                  * * *

Efnahagshorfur í heiminum hafa versnað undanfarin misseri. Heimshagvöxtur minnkaði er leið á síðasta ár og mældist 3,6% á árinu öllu sem er 0,2 prósentum minni vöxtur en árið 2017. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur í heiminum verði 3,3% í ár sem er 0,4 prósentum minni hagvöxtur en hann spáði í október í fyrra.

                                                                                                  * * *

Það er bjart framundan í íslensku efnahagslífi þegar horft er framhjá tímabundinni fækkun ferðamanna. Það eina sem gæti komið í veg fyrir að sú spá rætist eru efnahagshorfur heimsins. Meðan ólíkindatólið Trump ræður ríkjum í Bandaríkjunum eru líkur þó minni á verulegum samdrætti í heimshagkerfinu, þar sem hann er líklegur til að gera allt sem í hans valdi er til að blása lífi í efnahag Bandaríkjanna.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.