*

föstudagur, 18. júní 2021
Týr
3. maí 2020 09:08

Ferðaþjónustan og feigðin

„Ferðaþjónustan er þar tæplega á meðal í bráð og hrein fásinna að ausa fé úr ríkissjóði til þess að halda uppi zombie-atvinnugrein, lifandi dauðri.“

EPA

Stórfelldar uppsagnir Icelandair geta ekki hafa komið mörgum á óvart, en auðvitað fer ekki hjá því að þær skjóti mönnum skyndilega skelk í bringu. Þarna ræðir um 2.000 manns, mestu hópuppsögn Íslandssögunnar. Þegar um slíkan fjölda er að ræða í litlu samfélagi eru fáir, sem ekki kannast við einhvern sem fékk slíkt bréf.

* * *

Við bætist svo auðvitað að Icelandair er ekki hvaða fyrirtæki sem er. Það er ekki aðeins eitt stærsta fyrirtæki landsins, heldur er það óopinbert flaggflugfélag landsins, nátengt ímynd þess út á við. Fyrir nú utan hitt að nær allir Íslendingar hafa um langa hríð átt viðskiptasamband við það og fá enn gæsahúð þegar flugfreyjan býður þá velkomna heim eftir lendingu.

* * *

Það er hins vegar ekki svo að starfsmenn Icelandair séu þeir einu, sem eru að missa vinnuna um þessar mundir. Það hafa margir þegar gert, fjölmörg önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu og stoðgreinum þess standa í svipuðum sporum. Mörg sjálfsagt hálfu verri. Þar bíða þúsundir starfsmanna milli vonar og ótta, en vonin er veik, það verður bara að segjast eins og er.

* * *

Það er ekki við neinn að sakast í því, nema menn vilji bölva kínverskum stjórnvöldum í hálfum hljóðum. Staðan er eftir sem áður sú að öll ferðaþjónusta heimsins liggur meira og minna niðri og fátt sem bendir til þess að samgöngutakmörkunum verði aflétt í bráð. Jafnvel þó svo að þeim hindrunum verði rutt úr vegi fyrir sumarlok er síðan ekkert sem bendir til þess að fólk staulist út úr heimilissóttkvíum sínum og fyllist ferðahug. Öðru nær, því um allan heim hafa sóttvarnir byggst á því að ala á ótta við að fara út fyrir hússins dyr. Sá ótti mun vafalaust sitja í mörgum. Og jafnvel þegar draga tekur úr honum, þá blasir við að það verða ekki margir með svo rúmar ráðstöfunartekjur, nú eða bara tekjur yfirhöfuð, til þess að fara strax að ráðgera frí á framandi slóðum.

* * *

Hér er því úr vöndu að ráða, en hér og nú hljóta ráðstafanir að mótast af viðleitni við að verja fólk og fjölskyldur. Það verður best gert með því að örva atvinnulífið, þann hluta þess sem á sér viðreisnar von. Ferðaþjónustan er þar tæplega á meðal í bráð og hrein fásinna að ausa fé úr ríkissjóði til þess að halda uppi zombie-atvinnugrein, lifandi dauðri.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.