*

sunnudagur, 13. júní 2021
Óðinn
24. maí 2020 15:04

Ferðaþjónustan & plágan, kemur síldin aftur?

Íslendingar eru vanir sviptingum í gæftum og hafa hvað eftir annað sýnt að þeir ná sér skjótt á strik eftir hamfarir.

Baráttan við heimsfaraldurinn hefur gengið alveg bærilega hér á Íslandi, þó það sé engin ástæða til þess að miklast um of af því; tölfræðin talar sínu máli og Ísland alveg um miðbikið þegar horft er til dánartalna ríkja heims. Mætti jafnvel halda því fram að veiran hafi reynst óvenjuskæð í svo litlu og afskekktu landi, þar sem þéttleiki byggðar er með allra minnsta móti, almenningssamgöngur leika ekki sama hlutverk og á öðrum Vesturlöndum, offita ekki teljandi vandi og þjóðin í yngsta lagi meðal þróaðra ríkja.

                                                                ***

Raunar er full ástæða til þess að rannsaka það, þegar rykið sest en áður er hætta er á annarri smitbylgju, hvort sóttvarnayfirvöld hefðu ekki átt að bregðast við fyrr og af meiri einurð. Eins og Björgvin Halldórsson benti á sínum tíma á þá búum við á eyju. Inn í landið er aðeins eitt hlið, sem eitthvað að kveður.

Framan af var samt talið fráleitt að hefta ferðir til landsins í nokkru, spyrja komufarþega um einkenni, taka upp skimun, hvað þá sóttkví. Viðbárurnar voru þær að það þjónaði engum tilgangi, mætti heita óframkvæmanlegt eða hefði í för með sér óþolandi efnahagsafleiðingar, án þess þó að rök væru fyrir því færð.

                                                                ***

Allt reyndist þetta rangt. Við blasir að það hefði verið mjög þýðingarmikið til þess að halda veirunni í skefjum og efnahagsröksemdirnar ristu afar grunnt, virðast aðallega hafa byggst á tillitssemi við ferðaþjónustuna og allt atvinnulíf landsins lagt að veði.

Umfram allt mátti því vel við koma að loka landinu, líkt og var gert í ýmsum eyríkjum öðrum með góðum árangri, hvort heldur litið er til frændfólks okkar Færeyjum eða andfætlinga á NýjaSjálandi. Á Íslandi hafa 2,8 af hverjum 100.000 íbúum látist af völdum COVID-19, 0,43 á Nýja-Sjálandi og enginn í Færeyjum.

                                                                ***

Næsti kafli

En við erum þar sem við erum og allt útlit fyrir að þessum fyrsta kafla baráttunnar við veiruna sé lokið. Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í liðinni viku kynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þær fyrirætlanir að ekki síðar en 15. júní gætu allir ferðamenn sem til landsins koma - íslenskir borgarar sem erlendir - valið um að fara í sóttkví, fara í skimun fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli eða framvísa vottorði sem samþykkt er af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum.

(Og gaman að segja frá því að Óðinn hafði einmitt kynnt slíkar tillögur vikunni áður.) Þetta mun breyta heilmiklu um samgöngur til og frá landinu, má heita fyrsta stóra skrefið til þess að koma lífinu í eðlilegt horf á ný, þó auðvitað verði áfram langt í land.

                                                                ***

Enn er of snemmt að segja til um áhrifin af þessu, en mest hefur borið á jákvæðum viðbrögðum Íslendinga erlendis, sem sjá fram á að geta komist heim til landsins eina í sumar. Þá verður ekki annað séð af erlendum fjölmiðlum en að árangur Íslands í viðureign við veiruna og þessi fyrirhugaða opnun veki verðskuldaða athygli. Óvíst er hvað það hefur að segja fyrir almenna ferðaþjónustu í bráði, þó til lengdar hafi það vafalaust góð áhrif.

Það kynni mögulega að vekja áhuga efnameira fólks sem vill komast í slíkt skjól frá plágunni, en kannski þó ekki síður þeirra, sem veist hefur erfitt að fá próf heima fyrir. Í mörgum löndum hefur reynst örðugt að koma slíkum prófum við í þeim mæli sem þyrfti og víða eru varla nema forgangshópar, lykilstarfsfólk og sjúklingar, sem hafa komist að og biðlistar víðast langir. Ísland gæti þannig orðið áfangastaður heilbrigðistúrista en á annan hátt en ráðagerðir voru uppi um.

                                                                ***

Óðinn varar hins vegar eindregið við óraunhæfum væntingum um að við þetta komist ferðaþjónustan úr lífshættu. Því jafnvel þó svo hún mætti öll opna upp á gátt, þá munu farþegarnir láta á sér standa. Jú, vissulega má segja sem svo að Ísland eigi einstakt tækifæri til þess að geta kynnt landið sem öruggt og opið, en það er ákaflega ólíklegt að það heilli marga í augnablikinu.

Eða að þeir geti mikið gert í því, helstu ferðamannaþjóðirnar, sem sótt hafa Ísland heim (og sjá má á skífuriti að neðan), eru meira og minna í útgöngubanni og eiga flestar langt í land með að koma þjóðlífinu í rétt horf á ný.

                                                                ***

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa varast að „tala ástandið niður", en þeir hafa engu að síður reynt að tala af raunsæi. Landsframleiðslan mun minnka tilfinnanlega og þó að ferðaþjónustan finni mest fyrir því mun það bitna á hagkerfinu öllu og óhjákvæmilegt að lífskjörin versni fyrir vikið eftir hið mikla og langa hagvaxtarskeið undanfarinna ára. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra talaði enga tæpitungu um þetta í viðtali við Kjarnann um liðna helgi:

Ég held að það sé hinn blákaldi raunveruleiki sem að enginn vildi horfast í augu við upphafega, en flestir eru að gera sér grein fyrir. Í starfsgrein sem var nokkuð mikið skuldsett og stóð frammi fyrir áskorunum allt síðastliðið ár, og jafnvel síðastliðin tvö ár, er óum­flýjanlegt að það verði einhverjar breytingar. Ég held að það sé augljóst að nokkur hluti þeirra fyrirtækja mun ekki lifa þetta af.

                                                                ***

Jafnvel þegar slíkum hömlum er aflétt bendir flest til þess að Ísland geti reynst býsna afskekkt. Allt útlit er fyrir að Bandaríkin verði mikið einangruð um talsverðan tíma. Í Evrópusambandinu er eindregnari vilji fyrir því að aflétta samgönguhömlunum á hinum sameiginlega markaði, en þar vilja menn þó fara að öllu með gát og að lönd með svipaða áhættu opni „ganga" sín á milli. Hugmyndir um samflot Íslands með Norðurlöndum eru athugandi, en ekki tilefni til mikillar bjartsýni. Þaðan komu aðeins um 7% ferðamanna í fyrra.

                                                                ***

Ferðaóhugur í fólki

Öll aflétting á samgönguhömlum kemur þó fyrir lítið ef fólk hefur ekki áhuga á að ferðast. Líkt og sjá má á súluritinu hér efst benda skoðanakannanir meðal nokkurra helstu ferðamannaþjóða a.m.k. ekki til þess að það verði mikill ferðahugur í fólki eftir plágu.

Margir virðast orðnir frábitnir flugferðum og ferðalögum til útlanda og mannmergð yfirleitt, en fólk er mun jákvæðara gagnvart ferðalögum í heimalandi sínu. Allt eru þetta skelfilegar niðurstöður fyrir ferðaþjónustuna, en það bætir gráu ofan á svart að fyrir þorra fólks myndi bóluefni ekki breyta afstöðu þess. Jafnvel fyrir plágu hefði ferðaþjónustan tæplega mátt við 20% færri ferðamönnum í eitt ár, hvað þá lengur.

                                                                ***

Fall ferðaþjónustunnar

Alþjóðaferðamálaráðið (WTTC) reiknar með því að hrun í ferðaþjónustu um heim allan muni kosta heimshagkerfið um 2,7 billjónir Bandaríkjadala. Þar af muni ferðaþjónustan í Evrópu verða fyrir um 709 milljarða dala höggi, en alls muni um 13 milljónir Evrópubúar missa vinnuna af þeim sökum. Margir markaðssérfræðingar telja þær áætlanir þó litaðar mikilli óskhyggju!

                                                                ***

Nú er það auðvitað svo að um nánast alla Evrópu hafa lönd orðið fyrir miklum efnahagsskelli af völdum veirunnar, en Morgan Stanley telur að þar kunni hlutur ferðaþjónustu í þjóðarbúskapnum að skilja á milli feigs og ófeigs. Samkvæmt þeim mælikvarða er Ísland ferðamannaland, þar sem ferðaþjónusta hefur álíka vægi og á Spáni.

                                                                ***

Ferðaþjónusta er á flestum heimilum viðbótarútgjöld, ákaflega háð ráðstöfunartekjum og í flestra huga nokkur afgangsstærð. Það er því ekki nýtt að í efnahagsniðursveiflum finni ferðaþjónusta fyrr og meira fyrir þeim en margar aðrar greinar. Í heimsfaraldrinum hafa margir gengið ört á sparnað eða eiga eftir að gera það á næstu mánuðum, svo vel getur verið að það taki fólk lengri tíma en fram að sumrinu 2021 að koma heimilisbókhaldinu í það lag, að því finnist verjandi að leggjast í löng og dýr ferðalög.

                                                                ***

Að þessu sinni er þó ekki aðeins um þær mælanlegu stærðir að ræða, heldur skiptir fyrrnefnd kreppa hugarfarsins ekki minna máli. Fólk er hikandi við að fara á framandi slóðir og erfitt að spá fyrir um hvenær uggurinn vegna plágunnar hverfur mönnum úr sinni. Ef biðin eftir bóluefni verður löng og grípa þarf til skyndilokana og annarra ráðstafana vegna síðari bylgna veirunnar, er hætt við að færri vilji þyrpast í mannmergðina á sólarströndum Miðjarðarhafsins. Sú arfleifð plágunnar kann að reynast langvinn.

                                                                ***

Fyrsta kastið verður örugglega mun minna um langferðir, sérstaklega með flugi (þó lestarferðir séu litlu öruggari með tilliti til sóttvarna). Mun fleiri munu kjósa að eyða fríinu heima fyrir, kannski fara í sumarbústað, einhverjir til ferðamannastaða innanlands, en í því samhengi nefna flestir þjóðgarða og náttúruperlur, hugsanlega í von um að geta haldið sig fjarri mannmergð. Sú virðist a.m.k. ætla að verða raunin bæði í Evrópu og Norður-Ameríku.

                                                                ***

Leiðrétting í ferðageira

Inn í þetta kunna svo að spila verulegar breytingar í ferðageiranum. Nú þegar eru fjölmörg flugfélög komin í miklar þrengingar og einhver þeirra munu ekki lifa pláguna af. Stórminnkandi eftirspurn í bland við samgönguhömlur og síðari lokanir geta hæglega fækkað flugi svo að flugrekstur verður með allt öðru móti en undanfarna áratugi.

Fleiri flugfélög geta þannig helst úr lestinni á komandi misserum, sætaframboð minnkað og flugfargjöld hækkað verulega. Ekki þó síður ef hert verður á regluverki um bil á milli sæta, mannfjölda í flugstöðvum og þess háttar, líkt og fram hafa komið hugmyndir um. Jafnframt óttast flugfélögin mjög að það, í bland við skimun og sóttkvíar, kunni að fækka viðskiptaferðalögum til mikilla muna, en það eru ábatasömustu ferðalangarnir.

                                                                ***

Flugið mun vafalaust finna sér nýtt jafnvægi í því áður en langt um líður, með minni umsvifum og færri ferðamönnum, en sömu sögu er ekki hægt að segja um aðra ferðaþjónustu, sem hefur svo ákaflega byggst upp á stórauknu sætaframboði og lágum fargjöldum á undanförnum áratug. Ekki síst á það auðvitað við um nýlega fjárfestingu, sem enn ber þunga skuldabagga.

Vandséð er hvernig hún á að lifa pláguna af og ekki sjálfgefið að nýtt fjármagn komi að henni eins og við venjuleg gjaldþrot. Um það hafa menn sæg dæma í Ítalíu og Spáni, þar sem víða má enn finna hálfkaraðar hótelbyggingar og ferðamannanýlendur í eyði síðan í fjármálakreppunni 2008.

                                                                ***

Alþjóðaferðamálaráðið, WTTC, er nokkru bjartsýnna á langtímahorfur og bendir á það hversu skjótt ferðaþjónustan hafi braggast aftur eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 2001 og ýmis hryðjuverk í Evrópu á undanförnum árum. Gloria Guevara, framkvæmdastjóri WTTC, bindur miklar vonir við bóluefni gegn COVID-19, og segir engum vafa undirorpið að hart verði í ári þar til það verður komið til skjalanna. Um leið og það verði orðið almennt geti ástandið fljótt komist í eðlilegt horf. Það gerist þó ekki nema með samræmdum aðgerðum ríkja um að opna efnahagslífið aftur og hvetja fólk til flugferða á ný.

                                                                ***

Það er skiljanleg og jafnvel skynsamleg afstaða, en engan veginn víst að það gangi þannig eftir. Því jafnvel þó svo að vonir um bóluefni rætist, þá er ekki víst að almenningur verði jafnáfjáður í langferðir og áður. Og svo má ekki gleyma hinu heldur, að nú þegar hefur pólitískur þrýstingur loftslagsaðgerðasinna aukist verulega um að tækifærið verði notað til þess að flugumferð sæki ekki í sig veðrið að nýju, hvort sem það verði gert með beinum aðgerðum, sköttum, ferðakvótum eða öðru.

                                                                ***

Það er því vart tilefni til bjartsýni í ferðageiranum í bráð og fráleitt að skattgreiðendur geti haldið honum uppi misserum eða árum saman. Og hreint glapræði að þeir stígi inn sem hluthafar og geri áhættuna þar með sína. Þar mun hins vegar reyna á eigendur og fjármálastofnanir. Þá vill vel til að íslenskt fjármálakerfi er óvenjuvel í stakk búið til þess að mæta slíkum áföllum og aðstoða þessa viðskiptavini sína til þess að komast í gegnum skaflinn, grafa þá í fönn ef ekki vill betur.

                                                                ***

Þó má spyrja hvort íslenski ferðageirinn hafi ekki vaxið allt of ört á síðustu árum. Margir hafa kvartað undan breyttri ásýnd Miðbæjarins og eins hafa verið látnar í ljós réttmætar áhyggjur af átroðningi náttúrunnar, ófullkomnu vegakerfi og fleiru slíku. Menn hafa talað fjálglega um hina nýju stoð atvinnulífsins, en sjá nú að hún var brothætt og að stoðirnar hefðu mátt vera fleiri.

Þrátt fyrir mikla umræðu um þá atvinnuuppbyggingu alla hefur samt verið litið hjá því að ferðaþjónusta er í eðli sínu láglaunagrein og að helstu ferðamannalönd heims eru fæst með eftirsóknarverðan efnahag og auðlegð. Svo kannski Ísland megi vel við leiðréttingu í ferðaþjónustu og ferðamarkaði.

                                                                ***

Þar horfa flestir til Icelandair, en fullkomin óvissa ríkir um framtíð félagsins, þrátt fyrir gósentíð liðinna ára. Þar tókst stjórnendum ekki alltaf vel upp, eins og allir þekkja, og stundum var félagið einfaldlega óheppið. Þess vegna er það líka í afleitri stöðu til þess að takast á við áfall af þessu tagi. Það á svo sem við fluggeirann allan, eins og fyrr var rakið, en ef litið er til samanburðar á gengi hlutabréfa í nokkrum flugfélögum, sem sýndur er í línuriti hér að ofan, blasir hin einstaklega veika staða Icelandair við. Hana má ekki aðeins rekja til plágunnar; hún hófst ekki í mars á þessu ári.

                                                                ***

Eftir stendur samt vandi dagsins, að íslensk ferðaþjónusta er öll í stórhættu og atvinna þúsunda í uppnámi, að ógleymdum þeim verðmætum sem þar geta farið í súginn og áhrifum á efnahagslíf landsins í heild. Því fyrr sem fólk áttar sig á því að það mun ekki allt lifa og að það á ekki allt að lifa, því fyrr getum við tekist á við aðsteðjandi vanda atvinnuleysis og gjaldþrota með skaðaminnkun í huga.

Einmitt þannig að sársaukinn standi sem skemmst yfir, að fjármunir og fólk komist sem fyrst í að skapa verðmæti og afla lífsviðurværis á ný. Þar þarf að leysa úr læðingi öfl markaðarins, hugvitssemi og ábatavonar, ekki eyða tíma og orku í að reglubinda atvinnulífið frekar, segja heilu atvinnugreinarnar til sveitar og ímynda sér að stjórnmálamenn og skriffinnar eigi við öllu svör.

Íslendingar eru vanir sviptingum í gæftum og hafa hvað eftir annað sýnt að þeir ná sér skjótt á strik eftir hamfarir. Sú mun einnig verða raunin nú ef við tökumst á við vandann af raunsæi, framtaki og vinnusemi, ekki falsvonum forsjárhyggju og verndarstefnu. Því síldin kemur aftur og þá er eins gott að til séu atvinnutæki og vinnufúsar hendur, sem kunna að draga björg í bú.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.