*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Óðinn
4. júlí 2012 12:10

Ferskir vindar frá Basel

BIS segir nauðsynlegt að ríki heims skeri á naflastrenginn á milli bankakerfa og ríkissjóða til að stuðla að nauðsynlegri hagræðingu.

None

Verð á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum gefur til kynna að ástandið í bankakerfi heimsins í dag er svipað og það var í kjölfar falls Lehman Brothers haustið 2008. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri ársskýrslu Alþjóðlega greiðslumiðlunarbankans í Basel (hér eftir BIS).

* * *

Ársskýrsla BIS er einkar áhugaverð og mun bersögulli en almennt gerist um viðlíka skýrslur. Meginboðskapur skýrslunnar er að ríki heims, og þá sérstaklega vestræn ríki ásamt Kína og Indlandi, hafi gengið alltof langt í stuðningi við bankakerfi sín og að ríki heims verði að hætta endalausum peningamokstri í von um að leysa vandamál tengd of miklum skuldum með enn meiri skuldum og fara að huga að langtíma greiðsluhæfi sínu.

Áhugaverðasti kafli skýrslu BIS heitir Takmörk peningamálastefnu. Skýrsluhöfundar benda á að frá því að lausafjárkrísan hófst hafi óvenju mikill slaki verið í peningamálum stærstu hagkerfa heims. Þetta hefur meðal annars þá alþjóðlegu hliðarverkun að auka óstöðugleika og ýta undir eignabólur á smærri mörkuðum. Þetta hljómar kunnuglega í íslenskum eyrum, en án peningaprentunar erlendra seðlabanka á árunum fyrir hrun hefði aldrei fengist loft í íslensku bankabóluna.

Vaxtamunarviðskiptin í hávaxtaríkjum byggðu á því að spákaupmenn hugðust nýta sér lágt vaxtastig í iðnríkjunum með því að fjármagna skuldbindingar í hávaxtamyntum. Það var beinlínis markmið peningastefnu helstu iðnríkja að ýta undir áhættusækni með lágum vöxtum. Þessi áhættusækni leitaði í bandaríska skuldabréfavafninga, lán til íslenskra banka og Gríslanda Evrópu. Það ýtti undir þenslu í þessum eignaflokkum og misfjárfestingar. Hér á landi og í öðrum hávaxtamyntum gróf slaki í peningamálum helstu iðnríkjanna undan peningastefnunni þar sem seðlabankar reyndu að slá á þenslu með því að hækka vexti, en hærri vextir juku þenslu með því að laða að vaxtamunarviðskipti. Í opnu hagkerfi smitast misfjárfesting á milli landa og því minna sem myntsvæðið er því viðkvæmara er það fyrir sveiflum.

* * *

Langvarandi slaki í peningastefnu grefur undan seðlabönkum með því að farið er að gera væntingar til þeirra sem þeir geta ekki staðið undir. Seðlabanki getur veitt fjármálakerfi lausafjárstuðning en hann getur ekki leyst eiginfjárvanda þess. BIS eru á því að kröftug peningaprentun í kjölfar krísunnar hafi komið í veg fyrir að hrunið yrði enn verra en þeir benda á að með því að viðhalda langvarandi stuðningi komast bankar upp með að slá því á frest að taka til í efnahagsreikningum sínum. Þannig eigi Vesturlönd nú á hættu að þar verði svipað ástand og í Japan þar sem stórum hluta atvinnulífsins er haldið á floti ofskuldsettum eða jafnvel ógreiðslufærum. Slík fyrirtæki hamla eðlilegum hagvexti.

* * *

Seðlabankar eiga einnig á hættu að tapa trúverðugleika sínum þegar verðbólguvæntingar hækka vegna peningaprentunar. Reynslan sýnir að þegar það gerist taki það langan tíma fyrir seðlabanka að ávinna sér traust á ný.

* * *

Loks benda skýrsluhöfundar á að stórfelld kaup seðlabanka á hvers kyns fjárskuldbindingum fjármálastofnana og ríkja grafi undan sjálfstæði þeirra, þar sem slíkt eru ákvarðanir sem þjóðþing geti alveg eins tekið og er í raun mun eðlilegra að kjörin stjórnvöld geri en seðlabankar þar sem skattgreiðendur sitja uppi með tapið ef illa fer. Þeir taka sem dæmi LTRO áætlun Seðlabanka Evrópu, en bankinn víkkaði verulega út hvaða bréf væru tæk í endurhverf viðskipti og lækkaði veðhlutfall í þeim viðskiptum um helming áður en áætlunin fór af stað. Bönkum var m.a.s. heimilað að gefa út skuldabréf á sjálfa sig og fá lausafjárfyrirgreiðslu hjá Seðlabanka Evrópu samkvæmt LTRO prógramminu. Seðlabankastjóra Þýskalands þótti nóg um og sendi Seðlabanka Evrópu bréf þar sem hann lýsti áhyggjum af gæðum veða og lak svo bréfinu til fjölmiðla. Það er eðlilegt að fólk spyrji sig hvaðan seðlabönkum komi vald til að skuldbinda almenning með þessum hætti og hvort þá sé ekki eðlilegt að slíkir bankar heyri beint undir lýðræðislega kjörin stjórnvöld.

* * *

Loks er nefnt í skýrslunni, og vitnað í rannsóknarritgerð eftir hagfræðinginn Claudio Borio, að hrunið hljóti að draga úr trúverðugleika seðlabanka þar sem hugmyndafræði þeirra fyrir hrun, að verðstöðugleiki tryggi fjármálastöðugleika, hefur augljóslega reynst röng. Þar við bætist að samfélagsverkfræði seðlabankanna, sem byggði á ný-keynisískri tæknihyggju og stærðfræðilegri módelsmíði á hagkerfum, hefur algjörlega brugðist. Loks er efast um að það sé nóg fyrir seðlabanka að hafa eitt stýrtæki; það er vexti.

* * *

Annar kafli skýrslunnar fjallar um nauðsyn þess að koma ríkisfjármálum í jafnvægi á ný. Skýrsluhöfundar benda á að staða ríkisfjármála hafi þegar verið orðin óviðunandi löngu fyrir fjárkreppuna. Stephen Cecchetti, aðalhagfræðingur BIS, sagði í ræðu sinni á ársfundinum að hagfræðingar hafi varað við í tvo áratugi að skuldbindingar vestrænna ríkja væru langt umfram greiðslugetu þeirra og þótt slíkir millikynslóðarreikningar væru næmir fyrir mismunandi forsendum gæti engum dulist að miðað við allar skynsamlegar forsendur væru skuldbindingar vestrænna ríkja nú langt umfram greiðslugetu.

* * *

BIS leggst því eindregið gegn áróðri öfgavinstrimanna eins og Paul Krugmans sem leggja til stóraukin ríkisútgjöld sem þeir halda að vinni bug á kreppunni. Í fyrsta lagi er bent á að það sé mikilvægara að auka sveigjanleika hagkerfanna en útgjöld. Þau hagkerfi sem hafa farið verst út úr kreppunni eiga það sameiginlegt að vera með mjög ósveigjanlegan vinnumarkað og mjög ríka vernd við einstakar atvinnugreinar sem hindrar samkeppni. Það er því ekki einhlítt að þau ríki hafi farið verst út kreppunni sem voru skuldsettust heldur ekki síður þau sem hafa haft lægstan hagvöxt.

* * *

Rétt eins og aukin peningaprentun til bankakerfisins tekur ekki á undirliggjandi eiginfjárvanda og lætur bankakerfið komast upp með að slá því á frest að taka til á efnahagsreikningi sínum, þá tekur aukin skuldsetning ríkissjóða ekki á undirliggjandi vanda ósveigjanlegra hagkerfa og veldur því að umbótum er slegið á frest. Skuldsetning eykur ekki hagvöxt heldur flytur einungis neyslu á milli tímabila. Þessi flutningur á neyslu er dýr af þremur ástæðum, í fyrsta lagi vegna þess að vegna framleiðniaukningar í hagkerfum væri hægt að fá meiri gæði fyrir sama pening ef honum er varið seinna, og svo vegna þess að fólk þarf að borga vexti af lánum, og loks vegna þess að pólitísk úthlutun gæða er miklu óhagkvæmari en að láta borgurunum sjálfum það eftir að fjárfesta sjálfsaflafé sitt. Eins og sést á meðfylgjandi mynd er ekkert langtímasamband á milli aukinnar skuldsetningar og hagvaxtar.

* * *

BIS vísa til rannsókna sem sýna að ef skuldsetning ríkja er komin yfir 85% af vergri landsframleiðslu hafi hún neikvæð áhrif á hagvöxt. Þessi tala er þó líkast til mun lægri fyrir lönd með lágan hagvöxt eins og sjá má af vandræðum Portúgals og Spánar sem bæði voru með ríkisskuldir vel innan þessara marka. Rannsóknir Kenneths Rogoff og Carmenar Reinhart sýna að helmingur þeirra ríkja sem hafa lent í ríkisfjármálakrísu eftir seinna stríð skulduðu minna en 60% af vergri landsframleiðslu.

* * *

Ofan á kolsvarta stöðu ríkisfjármála bætist nú við stóraukin ábyrgð ríkjanna á bankakerfum sínum. Óðinn hefur áður bent á að að meint ábyrgð ríkja á bönkum hafi í besta falli verið vafasöm fyrir hrun. Í skýrslu BIS kemur skýrt fram að þessi meinta ábyrgð hafi stóraukist eftir hrun og það sést meðal annars á því að munur á lánshæfismati banka, þegar þeir eru metnir án ríkisstuðnings og með ríkisstuðningi, hefur aukist verulega eftir hrun. Skýrsluhöfundur benda líka á aðra vísbendingu um að ábyrgð ríkisins á bankakerfinu hafi verið aukin en það er að fylgni CDS álaga banka og ríkja hafi ríflega tvöfaldast á árabilinu 2008 til 2011 og er nú víðast í kringum 70%.

* * *

BIS segja því nauðsynlegt að ríki heims byrji að skera naflastrenginn á milli bankakerfa og ríkissjóða til að stuðla að nauðsynlegri hagræðingu í bæði fjármálakerfinu og ríkisrekstrinum. Þrátt fyrir gegndarlausan fjáraustur í bankakerfi heims undanfarin fimm ár hefur lítið eða ekkert áunnist í hagræðingu þeirra. Sá afkomubati sem mátti merkja hjá bönkum fram til vorsins 2012, en virðist vera að ganga til baka, var nær eingöngu af fjárfestingarbankastarfsemi og stöðutöku. Aukinn óstöðugleiki vegna peningaprentunar færir einmitt fé frá raunhagkerfinu til fjármálakerfisins eins og fjallað var um í þessum pistli 18. apríl sl.

* * *

Það er því brýn nauðsyn á að ríki heims fari að koma fjármálum sínum í lag. Í fyrsta lagi til að taka á undirliggjandi óhagkvæmni í hagkerfunum, en samhliða lækkun ríkisútgjalda verður að auka sveigjanleika hagkerfanna. Í öðru lagi verður að laga lífeyris- og heilbrigðisskuldbindingar ríkjanna að því sem er raunhæft að þau geti staðið við í framtíðinni, þannig að fólk fari að gera raunhæfar áætlanir í lífeyrismálum. Þetta er stærsta vandamál næstu ára en það er alveg ljóst að vestræn ríki munu svíkja loforð sín gagnvart ellilífeyrisþegum á næstu árum, einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki efni á að standa við þau. Þess vegna eru það vonbrigði að eitt fyrsta verk Francois Hollande skuli vera að draga til baka þær litlu umbætur sem gerðar höfðu verið á lífeyriskerfi Frakklands og bendir það til þess að hann sé í raun jafn ábyrgðarlaus lýðskrumari og hann gaf sig út fyrir að vera í kosningabaráttunni.

Loks er nauðsynlegt að ríkin taki til í fjármálum sínum til að bæta lánshæfi sitt. Það að ríkisskuldabréf eru ekki lengur álitin áhættulaus torveldar verulega fjármálalega milligöngu í hagkerfinu og mun til lengri tíma litið hækka fjármagnskostnað allra í viðkomandi hagkerfum.

 

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.