Frétt Morgunblaðsins um að Umhverfisstofnun hafi heimilað innflutning á risamaurum frá Brasilíu annars vegar og innflutning á allt að tuttugu milljón ránmítlum á ári til tíu ára hins vegar hefur vakið furðu litla athygli. Risamaurarnir eiga að vera til sýnis í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum en mítlarnir eru ætlaðir til sölu sem lífrænar varnir í gróðurhúsum og garðplöntustöðvum.

Ástæðan fyrir því að athygli vekur hversu lítil viðbrögð fréttin hefur vakið er að venjan er að fjöldi manns fer af hjörum þegar fréttir berast af fyrirhuguðum innflutningi á fersku kjöti. Búast hefði mátt við hörðum viðbrögðum við ákvörðun Umhverfistofnunar og greinarskrifum þar sem að áhyggjur af stöðu „íslenska landnámsmítilsins" sem hefur þrifist hér í krafti einangrunar landsins og er því laus við alla þá hættulegu sjúkdóma sem plaga mítla sem eru af erlendu bergi brotnir.

Vonandi er þetta til marks um að umræðan um innflutning á fersku kjöti færist á hærra plan þegar fram í sækir. Hún hefur til þessa einkennst af mikilli geðshræringu og reynt hefur verið að sannfæra landsmenn um að þeim stafi ógn af því að borða sama kjöt og aðrir Evrópumenn. Ágætt dæmi um þetta er þegar læknar bentu á í umsögn til Alþingis að það væri stórhættulegt að leyfa slíkan innflutning áður að stækkun á bráðadeild Landspítalans yrði lokið.

Staðreynd málsins er að í skjóli innflutningshafta gegnum áratugina hefur verið reynt að sannfæra íslenska þjóð um þá reginfirru að almennt séu íslenskar landbúnaðarvörur betri og heilnæmari en þær sem framleiddar eru erlendis. Það er tímabært að þessi hugsun dagi upp eins og nátttröll og íslenskir neytendur njóti góðs af auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum. Afkoma innlends landbúnaðar á svo að ráðast af því hvort að vörur hans seljast hér á landi og erlendis. Valið er neytenda, ekki íslenskra stjórnmálamanna eða bænda.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.