*

fimmtudagur, 19. september 2019
Örn Arnarson
1. mars 2019 11:22

Ferskt kjöt og meinlætalifnaður

„Ef raunveruleg hætta steðjar af sýklalyfjaónæmni í heiminum þá eru ekki Íslendingar ekki óhultir frekar en aðrir dauðlegir menn.“

Hörður Kristjánsson

Umræðan um innflutning á fersku kjöti frá Evrópu ber merki örvæntingafullra tilrauna til þess að standa vörð um þjóðminjar landbúnaðarkerfis, sem er engum til gagns og bitnar á neytendum. Íslenskum stjórnvöldum ber einfaldlega að hlíta dómum Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins um að heimila slíkan innflutning. Varðhundar landbúnaðarkerfisins bera hins vegar fyrir sig að ef stjórnvöld fari eftir lögum stafi Íslendingum ógn af sýklalyfjaónæmni .

Nú má vera að sýklalyf séu notuð í minni mæli í landbúnaði og iðnaðarframleiðslu kjúklinga- og svínakjöts hér á landi en annars staðar. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að tvífættir og óvængjaðir Íslendingar eru sjálfir margfaldir Norðurlandameistarar í neyslu sýklalyfja. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Landlæknisembættisins eru engin merki um að við missum þann titil í bráðri framtíð.

Með öðrum orðum: Ef raunveruleg hætta steðjar af sýklalyfjaónæmni í heiminum þá eru ekki Íslendingar ekki óhultir frekar en aðrir dauðlegir menn. Innflutningur á fersku kjöti breytir þar engu um. Við munum aldrei getað lokað landinu fyrir þeirri vá. Íslendingar munu ekki lifa öruggir og afgirtir í sæluríki, hámandi í sig lambakjöt í karríi með ORA-baunum undir sífelldum upplestri á Sturlu í Vogum eftir Hagalín í Ríkisútvarpinu á meðan heimsfaraldur vegna sýklalyfjaónæmni gengur yfir.

Umræðan um hættuna af sýklalyfjaónæmni er fyrirsláttur. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir að íslenskir neytendur eigi kost á að neyta fersks evrópsks kjöts, sem hefur í flestum tilfellum algjöra yfirburði yfir hið íslenska að gæðum og framleiðslukostnaði. Fyrir nú utan hitt, að í Evrópusambandinu hefur sýklalyfjagjöf í eldisskyni verið bönnuð um árabil.

Halldór Laxnes lýsti á sínum tíma íslenskum landbúnaði sem undarlegu samblandi af „meinalætalifnaði og sporti". Skattgreiðendur hafa allar götur greitt fyrir þetta dýru verði. Nú er mál að linni. Glórulaus hræðsluáróður á engu að breyta í þeim efnum, heldur er hann þvert í mót öruggt merki um lélegan málstað og óheiðarlegan málflutning.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.