*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Höskuldur Marselíusarson
16. desember 2016 13:14

Fiðurfé gefur samviskufrelsi

Neytendur gætu komið með alls kyns kröfur að smekk hvers og eins ef eftirlit með matvælaframleiðslu væri komið í hendur einkarekinna faggildingarfélaga.

epa

Það er ekkert furðulegt við það að neytendur séu margir hverjir ósáttir við að hafa ekki fengið að vita fyrr en í uppljóstrun Kastljóssins nýlega um hvernig framleiðsluháttum fyrirtækisins Brúneggja var háttað raunverulega.

Sérstaklega þegar fyrirtækið rukkaði hærra verð því það gaf sig út fyrir að stunda framleiðslu sem væri vistvæn og tryggði að meðferð fiðurfjárins væri betri en í hefðbundnum eggjabúskap.

Hins vegar verð ég að lýsa furðu minni á annars vegar ákvörðun verslana að taka eggin úr sölu svo nú geti ég ekki nálgast þessi egg neins staðar þar sem ég ven komur mínar. Þannig gætu viðskiptavinir sem ekki setja framleiðsluhætti fyrirtækisins fyrir sig væntanlega fengið eggin ódýrari fyrst eftirspurnin hefur væntanlega hríðfallið, svona ef lögmál um framboð og eftirspurn á markaði fá að njóta sín.

Ég er þó ekki að segja með þessu að ég myndi kaupa þau ef ljóst væri að fyrirtækið héldi áfram uppteknum hætti, en ég vænti þess að fyrirtækið hljóti að vera að gera allt sem í þess valdi stæði þessa dagana til að reyna að endurheimta brotið traust sinna viðskiptavina.

Auðvitað eiga neytendur að fá að velja sér vörur eftir því hvernig hún er framleidd og fái að borga hærra fyrir það ef þeir telja sig þannig geta fengið einhvers konar aflausn sinna neyslusynda.

Umræða um hvernig best sé að neyta einhvers til að skaða ekki jörðina virðist vera uppáhaldsdægurmálaþras margra og fyllast heilu umræðuhóparnir á samfélagsmiðlum réttlætingarreiði ef einhver vogar sér að draga sérkreddur hvers hóps fyrir sig í efa.

Það sem hins vegar hefur því miður minna farið fyrir í þessari umræðu er að þeir séu dregnir til ábyrgðar sem áttu að sinna eftirlitinu með starfseminni.

Þá er ég ekki að tala um þegar eggjum var kastað í rangar ríkisstofnanir vegna nafnaruglings, heldur að Matvælastofnun þurfi ekkert að óttast tekjumissi eða orðsporshnekki þó að stofnunin hafi látið viðgangast árum saman að stöðlum um vistvæna framleiðslu eða jafnvel lágmarksmeðferð dýra hafi ekki verið framfylgt.

Á það hefur verið margoft bent, t.a.m. af Samtökum verslunar og þjónustu, að einkarekin faggildingarfyrirtæki geti sinnt stærstum hluta starfsemi þessarar stofnunar sem annarra líkt og víða tíðkast í samanburðarlöndum okkar.

Þá væri ekki eingöngu hægt að draga eftirlitsaðilana einnig til ábyrgðar heldur gætu þá mismunandi fyrirtæki til að mynda framfylgt mismunandi stöðlum eftir því sem neytendur kalla eftir og þannig aukið tækifæri einstaklinga til að kaupa sér veraldlegan samviskufrið ef þeim svo sýnist.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is