Seðlabankinn hefur gefið launaþróun furðu lítinn gaum undanfarna mánuði þó verðbólgan sé komin á skrið. Í janúar urðu þau tíðindi að verðbólga fór upp fyrir vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í fyrsta sinn í sjö ár þar sem hún hefur haldist síðan. Við höfum fengið langt og kærkomið frí frá verðbólgudraugnum víðfræga en vonir standa til þess að hann muni staldra stutt við að þessu sinni. Spár gera ráð fyrir að verðbólga hjaðni skjótt aftur í markmið Seðlabankans eftir því sem áhrif gengisveikingar krónunnar fjara út og styrking fer að vega á móti. Þá er enn mikill slaki í hagkerfinu sem þýðir að ekki er verið að nýta þá framleiðsluþætti og vinnuafl sem til staðar eru til fulls. Slíkt ástand er almennt til þess fallið að halda aftur af verðlagshækkunum.

Ríkja eðlilegar kringumstæður?

Það er vissulega rétt að framleiðni gæti verið meiri en mælist um þessar mundir, sem birtist ekki síst í skarpri aukningu atvinnuleysis. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi slakinn draga úr þrýstingi til launa- og verðlagshækkana. En ef undirliggjandi þættir svo sem launaþróun endurspegla ekki slakann hvaða áhrif hefur það á verðbólguhorfur? Hvergi í heiminum er hærra hlutfall launafólks í stéttarfélögum og kjarasamningar fyrir þorra landsmanna stóðu óbreyttir þrátt fyrir gjörbreyttar horfur í efnahagsmálum. Það er því ekki gefið að eðlileg verðmyndun á vinnumarkaði, sem myndi halda aftur af verðlagshækkunum, muni eiga sér stað.

Á sama tíma og verðbólga skreið upp fyrir vikmörk í byrjun árs mældist árshækkun launavísitölu 8,5% á almennum vinnumarkaði. Ef sú staðreynd dugar ekki til að vekja fólk til umhugsunar má bæta því við að hækkunin hjá hinu opinbera nam 16%  – 14% hjá ríkinu og 19% hjá sveitarfélögum. Í janúar tóku kjarasamningsbundnar launahækkanir gildi og víða einnig stytting vinnuvikunnar. Þess má geta að áætlanir um opinber fjármál gera ráð fyrir viðvarandi hallarekstri á næstu árum. Þessar tölur eru úr öllum takti við þann efnahagslega veruleika sem við búum við í dag, sem heita á dýpsta kreppa í 100 ár.

Hvað finnst peningastefnunefnd um þróunina?

Er þessi undarlega staða engin ógn við verðstöðugleika að mati Seðlabankans? Það er áhugavert hversu lítill gaumur er gefinn launaþróuninni í seinustu fundargerð peningastefnunefndar miðað við þá staðreynd að raunlaun eru að hækka um 6% á meðan atvinnuleysi stendur í 12%. Horfur eru á miklu og viðvarandi atvinnuleysi. Peningastefnunefnd Seðlabankans ber að vísu ekki skylda til að huga sérstaklega að atvinnuleysi, ólíkt bandarískum kollegum þeirra sem hafa tvöfalt markmið um verðstöðugleika og fullt atvinnustig. Hlutverk Seðlabanka Íslands er fyrst og fremst að tryggja verðstöðugleika.

Í fundargerð nefndarinnar er meðal annars farið yfir niðurstöður könnunar Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins varðandi horfur í efnahagslífinu. Þó virðist ekki hafa verið sérstök umræða um það sem atvinnurekendurnir sjálfir tilgreindu sem helstu áhrifaþætti til hækkunar verðlags í könnuninni. Sé horft til næstu 6 mánaða telja þeir launakostnað helsta áhrifaþátt til verðhækkunar. Aðfangaverð, og þar með talið gengi, er í þriðja sæti sem áhrifaþáttur til verðlækkunar á eftir samkeppnisstöðu og eftirspurn. Nefndin virðist hins vegar einungis ræða það að launaþróunin sé í takti við spár bankans. Af hverju hefur þessi þróun, sem er ekki í neinu samræmi við efnahagsástandið, ekki fengið meira vægi í umfjöllun nefndarinnar um verðbólguhorfur?

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Reksturinn ekki síður þungur hjá hinu opinbera

Það eru þó ekki eingöngu atvinnurekendur í fyrirtækjum landsins sem munu þurfa að kljást við aukinn launakostnað. Ríki og sveitarfélög þurfa einnig að leita leiða til að standa undir þeim áskorunum sem felast í umtalsverðum launahækkunum samhliða styttingu vinnuvikunnar og döprum horfum í rekstri. Skatta- og gjaldskrárhækkanir liggja þar beinast við sem skammtímalausn á þeim vanda, en væru einkar óráðlegar í því ástandi sem ríkir. Ísland er nú þegar háskattaríki og vermir að auki 30. sæti af 36 á lista Tax Foundation yfir samkeppnishæfni skattkerfa OECD landa. Það er ekki eftirsóknarverð staða þegar brýn þörf er á að stórefla hagkerfið horft fram á veg.

Það er gömul saga og ný að launahækkanir umfram efnahagslegt tilefni leiða til verðlagshækkana og/eða atvinnuleysis. Þegar gerð er tilraun til að meta lífskjör þarf að vega þessa þætti saman. Virði stöðugleika í atvinnulífinu endurspeglast meðal annars í hóflegra vaxtastigi en ella, sem getur falið í sér verulegar kjarabætur eins og heimilin hafa fengið nasasjón af að undanförnu. En stærsta áskorunin verður að vinna á atvinnuleysinu. Til að ná fram okkar tvöfalda markmiði um verðstöðugleika og fullt atvinnustig virðist skýrara en oft áður að umbóta á vinnumarkaðslíkaninu er sannanlega þörf.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.