*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Leiðari
24. júní 2018 10:02

Fíllinn í stofunni

Það er löngu tímabært að fjarlæga þennan fíl úr stofunni. Hann er hægt og rólega að kæfa einkarekna fjölmiðla.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Enn og aftur er staða RÚV á íslenskum auglýsingamarkaði komin í umræðuna. Það er ekki að furða því RÚV hefur einstaka stöðu á þessum markaði. Þessi ríkisrekni fjölmiðill hefur fullkomlega óeðlilegt forskot á aðra fjölmiðla – forskot sem skekkir alla samkeppni. Í fyrra fékk RÚV 4,1 milljarð króna frá skattgreiðendum og hafði því til viðbótar 2,3 milljarða króna í auglýsingatekjur.

Nú er RÚV með sýningarréttinn frá leikjum á HM í knattspyrnu. Forsvarsmenn sjónvarpsstöðvanna Hringbrautar og N4 saka RÚV um að hafa hreinlega ryksugað upp auglýsingamarkaðinn fyrir sumarið. Eftir að hafa eytt milljónum í auglýsingar í tengslum við mótið hafi fyrirtæki ekki bolmagn til að auglýsa í öðrum fjölmiðlum. Auglýsingapakkar söludeildar RÚV hafa lekið í fjölmiðla og samkvæmt þeim kostaði pakkinn 10 milljónir króna.

„Þegar ríkið hagar sér eins og mesti böðull á auglýsingamarkaði, fer langt fram yfir einkarekin fyrirtæki í því að verða sér úti um auglýsingatekjur í krafti stærðarinnar, í krafti þess bolmagns sem stofnunin hefur, starfsmannafjölda til dæmis, þá er nóg komið og það verður að spyrna við fótum,“ sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri Hringbrautar í viðtali á Bylgjunni í vikunni. Hann sagði enn fremur að á meðan stjórnmálamenn hefðu engan áhuga á að beita sér þá yrði staðan óbreytt.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur lagt orð í belg. Hann ver RÚV með kjafti og klóm og segir vandséð að ójöfn samkeppni hafi verið á auglýsingamarkaði í aðdraganda HM. Í skriflegu svari til mbl.is í vikunni bendir hann á greiningu Hagstofunnar á íslenskum auglýsingamarkaði þar sem fram kemur að hlutdeild RÚV á markaðnum sé aðeins 15%. Magnúsi Geir þykir þetta kannski ekki sérlega hátt hlutfall en þá gleymir hann, líklega meðvitað, að RÚV fær ríflega 4 milljarða forgjöf frá skattgreiðendum. Hver einasti skattskyldi einstaklingur, sem er með meira en 1,7 milljónir í árstekjur, þarf að greiða um 17 þúsund króna nefskatt sem rennur beint til RÚV. Auk þess ber lögaðilum að greiða þennan skatt.

Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan skýrsla nefndar mennta- og menningarmálaráðherra um rekstrarumhverfi fjölmiðla var birt. Samkvæmt skýrslunni er ástandið á fjölmiðlamarkaði ekki eðlilegt. Vandi einkarekinna fjölmiðla endurspeglast ágætlega í þeirri staðreynd að á þriggja ára tímabili, frá 2014 til 2016, voru einungis tveir fjölmiðlar af ellefu réttu megin við núllið öll árin. Í fyrra varð Fréttatíminn gjaldþrota, sem og Pressan og sjónvarpsstöðin ÍNN.

Í stuttu máli þá lagði meirihluti nefndarinnar til að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði, og ekki bara það, heldur er lagt til að hann fari hið fyrsta af þessum markaði. Viðskiptablaðið tekur heils hugar undir þetta sjónarmið.

Miðað við orð Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra á Stöð 2 í vikunni þá eru stjórnmálamenn kannski aðeins að vakna. „Menn verða að fylgja leikreglum á fjölmiðlamarkaði og vera sanngjarnir,“ sagði Lilja. „Það er búið að kvarta undan þessu til bæði Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar. Ég fylgist náið með þessu máli og hef fengið margar athugasemdir inn á mitt borð vegna þess. Málið er nú í eðlilegum farvegi hjá til þess bærum stofnunum.“

Þá er bara að vona að málið deyi ekki hjá þessum stofnunum því það er löngu tímabært að fjarlæga þennan fíl úr stofunni. Hann er hægt og rólega að kæfa einkarekna fjölmiðla.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is