*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Týr
11. júní 2018 10:01

Filterlausir þingmenn

Hvað rekur þingið áfram í að banna veip nema afskiptasemi og ráðríki? Það mætti fá filter á það.

epa

Týr las um það fréttir í gær að sumir þingmenn væru orðnir svo þjakaðir af póstum og öðrum samskiptum frá umbjóðendum sínum, að þeir bæðust undan ósköpunum og sumir hefðu jafnvel tekið í notkun sérstakar netsíur til þess að losna við böggið frá ótíndri alþýðunni. Þetta er auðvitað þeim mun merkilegra fyrir það, að í þeim fríða flokki eru m.a. þeir þingmenn sem hæst hafa talað um aukið aðgengi almennings að störfum þingsins, beinlínis atyrt aðra stjórnmálamenn fyrir að vera ekki nógu duglegir við að hlýða á rödd almennings.

                                                        ***

Ástæðan er kannski sú að þegar þeir dásömuðu rödd almennings áttu þeir ekki von á því að hún myndi ávarpa þá sjálfa. Og sennilegast áttu þeir ekki von á gufustrókinum sem með fylgdi, því loks þegar að því kom að almenningur fór að hvetja þingmenn til dáða vegna máls, sem á honum brann, þá var það vegna frumvarps um rafrettur – veip – sem nú er í meðförum Alþingis.

                                                        ***

Þar hafa menn einkum staldrað við að meirihluti velferðarnefndar þingsins vill breyta upphaflegri gerð frumvarpsins og banna notkun rafrettna á veitinga- og skemmtistöðum. Áður hafði aðeins verið ráð fyrir veipbanni í opinberum stofnunum, þjónusturýmum fyrirtækja, skólum, heilbrigðisstofnunum og almenningsfarartækjum.

                                                        ***

Hér er meirihluti nefndarinnar og ráðuneytið, sem samdi upphaflega frumvarpið, á tómum villigötum. Það er fullkominn óþarfi að banna það með lögum að fólk veipi á öllum þessum stöðum. Þar sem það þykir ekki við hæfi, óhentugt eða ónæði af, er einfalt mál að banna það án aðkomu Alþingis, þessa sama Alþingis og nú þykist mega tíma sinn svo dýrt að of margir tölvupóstar setja hugarró þingheims úr skorðum.

                                                        ***

Á sínum tíma var lagt til atlögu við reykingar vegna þess að ótvírætt þótti að þær væru skaðvænlegar þeim sem reyktu og mögulega þeim, sem í kringum þá voru. Það sem vitað er um veipið bendir engan veginn til sams konar hættu, heldur þvert á móti að þar ræði um verulega skaðaminnkun (þessa sömu og flestir flokkar mærðu fyrir kosningar). Hvað rekur þá þingið áfram í þessu nema afskiptasemi og ráðríki? Það mætti fá filter á það.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is