*

föstudagur, 5. júní 2020
Benoit Chéron
15. mars 2020 13:43

Fimm atriði úr bréfi Larry Fink

Árlegt bréf forstjóra fjármálarisans BlackRock þar sem lagðar eru línur fyrir fjárfesta.

Larry Fink, forstjóri BlackRock.

Í fjármálaheiminum ríkir mikil eftirvænting eftir árlegu bréfi Larry Fink, forstjóra fjármálarisans BlackRock. Fyrir þá sem ekki vita er BlackRock stærsta eignastýringafélag heims með um sjö þúsund milljarða Bandaríkjadala í stýringu og eru áhrif Finks, sem er minna þekktur en Warren Buffet, á viðskipta- og fjárfestaheiminn umtalsverð. BlackRock sinnir eignastýringu fyrir fjölbreyttan hóp einstaklinga, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta víða um heim, þar með talið á Íslandi.

Endurmótun fjármála

Bréfið er eins og áður segir árlegur viðburður þar sem Fink leggur línurnar fyrir bæði fjárfesta í BlackRock og framkvæmdastjóra fyrirtækja sem BlackRock starfar með. Í ár tekur Fink djúpt í árinni og lýsir því yfir að loftslagsbreytingar séu að ýta okkur að endurmótun fjármála og að í náinni framtíð muni koma til verulegrar tilfærslu fjármagns. Sökum þess að BlackRock, sem er undir smásjá almennings, er sakað um að sitja beggja vegna borðsins hefur félagið ákveðið að „setja sjálfbærni í forgrunn fjárfestingarstefnu“ sinnar. Sem einn umsvifamesti fjárfestir í heimi í kola-, olíu- og gasiðnaði mun BlackRock setja sjálfbærni sem hið nýja viðmið í fjárfestingum sínum, lofar Fink.

Loftslagsbreytingar og sjálfbærni eru áhættuþættir

Að sögn Finks hafa loftslagsbreytingar orðið að grundvallarforsendu fyrir langtímaárangri fyrirtækja. Öfgar í veðurfari eins og skógareldar, flóð, stormar og þurrkar ásamt möguleikanum á stórfelldum fólksflutningum skapa áhættu sem ekki verður hundsuð mikið lengur. Þessum öfgum fylgir áþreifanleg áhætta (e. physical risk) sem hefur bein samfélagsleg áhrif og mögulega ófyrirséð efnahagsleg áhrif. Enn fremur lýsir Fink því yfir að aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum muni hafa áhrif á verð, kostnað og eftirspurn þvert á hagkerfi heimsins, nokkuð sem hægt er að kalla umbreytingaáhættu (e. transition risk). Sumar greinar munu eða hafa nú þegar fundið fyrir talsverðum áhrifum þessara áhættuþátta í gegnum breytingar á eignavirði eða hærri viðskiptakostnað.

Ákall eftir upplýsingum og gagnsæi

Innleiðing á stýringu áhættuþátta sem tengjast loftslagsbreytingum og sjálfbærni í eignasöfn fjárfesta og áhrif þeirra á fjárfestingaákvörðun þarf að taka mið af áreiðanlegum gögnum og auknu gagnsæi. Þannig þurfa fyrirtæki sem vilja sækja fjármagn að huga að birtingu gagna sem tengjast þessum þáttum og þarf sú birting að taka tillit til allra hagsmunaaðila. Fyrirtækin þurfa því að skilja raunveruleg áhrif sín á hagsmunaaðila og samfélagið í heild.

Fink útskýrir að fyrir árslok muni BlackRock óska eftir birtingu yfirlits í samræmi við leiðbeiningar Sustainability Accounting Standards Board (SASB) ásamt yfirliti um loftslagstengda áhættu samkvæmt tilmælum Task Force on Climate- related Financial Disclosures (TCFD). Þessum stöðlum var komið á fót árin 2012 (SASB) og 2015 (TCFD) og fjölmörg stórfyrirtæki hafa nú tekið þá upp víða um heim. SASB hefur gefið út hitakort um efnisleg atriði sem fyrirtæki ættu að taka mið af í tengslum við sjálfbærni. Kortinu er skipt niður á 10 atvinnugreinar og tilgreinir lykil árangursmælikvarða þvert á hverja grein. TCFD staðallinn var stofnaður sem leiðarvísir að skilgreiningu, mati og reikningsskilum loftslagstengdrar fjárhagsáhættu fyrirtækja. Með stuðningi BlackRock við að samræma staðlana tvo munu þeir verða augljósi kostur þegar kemur að ábyrgri upplýsingagjöf um loftslagsáhættu.

Aukið framboð á grænum vörum

Með væntingar um gríðarlega tilfærslu fjármagns og samþættingu sjálfbærnisjónarmiða við val á fjárfestingum mun BlackRock aðlaga vöruframboð sitt. Sem dæmi má nefna sjálfbærni á útgáfu af flaggskipi BlackRock, iShares, sala á hlutabréfum í kolaframleiðslu, tvöföldun á UFS kauphallarsjóðum og svona mætti lengi telja. Miðað við umsvif þessa fjármálarisa má gera ráð fyrir að þessar ákvarðanir hafi mikil áhrif, og það gefur augaleið að samkeppnisaðilar munu fylgjast náið með og gætu tekið sambærilegar ákvarðanir. Árið 2020 gæti orðið ár ábyrgra fjárfestinga með breiðri þátttöku þvert á atvinnugreinar með tilheyrandi umbreytingum.

Leiðtogahlutverk og ábyrgð

Að lokum bætir Fink við að BlackRock muni hafa tilhneigingu til þess að kjósa gegn stjórnendum og stjórnarmeðlimum þegar fyrirtæki leggi ekki sitt fyllilega að mörkum og nái ófullnægjandi árangri á sviði sjálfbærni í upplýsingagjöf og rekstri og að félagið muni gera stjórnarmeðlimi ábyrga. Þessa fullyrðingu ber að meta út frá tveimur sjónarhornum. Í fyrsta lagi þýðir hún að sjálfbærni er lykilbreyta í stýringu eignasafna og áhættustýringu og eftirliti. Í öðru lagi þýðir hún að BlackRock er farið að meta sérstaklega ábyrgðaráhættu sína með það að markmiði að takmarka möguleg málaferli á grundvelli umboðsskyldu sinnar.

Hver telst ábyrgur fyrir tapi vegna loftslagsbreytinga sem rekja má til áþreifanlegrar- eða umbreytingaráhættu? Í Bandaríkjunum sigldi Pacific Gas & Electric Corp í gjaldþrot eftir skógareldana í Kaliforníu árið 2018 vegna mögulegra skaðabóta. Þriðji geirinn í Frakklandi (e. NGOs) ásamt stjórnvöldum höfðuðu mál gegn Total, einum stærsta orkurisa heims, fyrir ófullnægjandi framtakssemi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og fyrir að virða ekki lögbundna árvekniskyldu Frakka í þágu umhverfismála. Lög þessi krefja fyrirtæki um skýrar aðgerðir til að fyrirbyggja umhverfisskaða eða brot á mannréttindum vegna starfsemi sinnar. Árið 2018 lagði einstaklingur í Ástralíu fram kæru gegn lífeyrissjóði fyrir að veita ófullnægjandi upplýsingar um loftslagstengda áhættu sjóðsins og koma þar með í veg fyrir að einstaklingar gætu tekið upplýsta ákvörðun um stýringu og fjárhagslegt heilbrigði sjóðsins.

Það er fullt tilefni til þess að fagna ákvörðun BlackRock um að innleiða sjálfbærni í allan sinn rekstur. Okkar skylda er að halda áfram að þrýsta á aðgerðir frá BlackRock og öllum fjármálaheiminum. Það er einnig skylda okkar allra að tryggja breiða þátttöku um upplýsingagjöf vegna loftslagsaðgerða. Upplýsingagjöf er lykilatriði í vegferðinni að kolefnishlutlausum heimi og sjálfbæru markaðshagkerfi.

Höfundur er sérfræðingur á ráðgjafarsviði KPMG

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.