*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Týr
22. mars 2019 12:14

Fimm kúlur á mánuði

Í gamalli ársskýrslu fjölmiðlaveldsins Dagsbrúnar má sjá hvað þávarendi forstjóri og núverandi sósíalisti hafði í tekjur.

Gunnar Smári Egilsson.
Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Deilur á vinnumarkaði halda áfram sem aldrei fyrr og frekar að baráttan sé að verða heiftarlegri en hitt. Þannig hafa verkalýðsforkólfar tekið upp á því síðustu daga að gagnrýna forystu Samtaka atvinnulífsins (SA), en enginn þó harðar en Lenín vorra tíma, Gunnar Smári Egilsson, sem hefur veist persónulega að Halldóri Benjamín Þorbergssyni á opinberum vettvangi og kennt honum einum um að ekki semjist.

                                                                        * * *

Ekki vandaði hann sínum gömlu vinum í Bónus kveðjurnar heldur, því þrátt fyrir að Gunnar Smári segist stundum ekki tengjast verkalýðshreyfingunni neitt, þá var það hann sem kynnti sniðgöngu verkalýðsins á verslunum Haga og tók svo til við að átelja Finn Árnason forstjóra fyrir að fá ríflega 5 milljónir í launaumslagið meðan kassafólkið fengi 270 þúsund og bar svo saman lífskjör þess og Finns með ýmsum hætti. Þegar þáttarstjórnandi nefndi að óþarfi væri að útmála hann sem óvin og illmenni færðist Gunnar Smári hins vegar allur í aukana og bar Finn saman við sakborninga í Nürnberg forðum tíð!

                                                                        * * *

Allt er þetta auðvitað enn sérkennilegra fyrir sæmilega minnugt fólk eins og Tý, sem gjarnan les gamlar ársskýrslur og árshlutauppgjör á kvöldin meðan vorið gnauðar úti. Mitt í verkalýðsbaráttunni allri staldraði hann við árskýrslu Dagsbrúnar fyrir hrun, en þá var það einmitt Gunnar Smári, sem þar fór fremstur í flokki. Auðvitað fyrir kreppu, en að sögn hans var Ísland æsku hans fremsta jafnaðarland í heimi. Kreppan breytti því öllu til hins mesta og versta ójöfnuðar.

                                                                        * * *

En hvernig voru kjörin þarna fyrir kreppu? Þarna í jafnaðarhagkerfi bólunnar miklu? Jú, þar má lesa að Gunnar Smári hafi haft 31,4 m.kr. í árslaun, sem reiknað til dagsins í dag eru sléttar 60 m.kr. Sem á mánaðarbasís eru … jú, fimm kúlur á mánuði! Af hverju bar hann það ekki saman við launin hans Finns? Eða upplýsti hvað blaðburðarbörnin fengu í sinn hlut á velmektardögum hans í Dagsbrún.

                                                                        * * *

Annars má svo sem ræða kjör fleiri þessa dagana. Týr rakst þannig á auglýsingu Eflingar, þar sem tíunduð voru ýmis skilyrði fyrir því að verkafólk fengi greitt úr verkfallssjóði félagsins, sem það þó á og hefur greitt í: „Hógvær krafa um þátttöku í verkfallsvakt eða skyldum viðburðum verður gerð fyrir úthlutun.“ Já, sumir eru jafnari en aðrir.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is