*

þriðjudagur, 24. nóvember 2020
Huginn og muninn
8. nóvember 2020 10:02

Finnur nýjar leiðir fyrir Haga

Hagar standa á tímamótum. Nýr forstjóri og nýr stjórnarformaður hafa boðað nýjar áherslur í rekstrinum.

Haraldur Guðjónsson

Hagar, stærsta smásölufyrirtæki landsins, standa á tímamótum. Finnur Oddsson tók við sem forstjóri í sumar af Finni Árnasyni, sem kvaddi eftir yfir tveggja áratuga starf fyrir félagið. Davíð Harðarson tók jafnframt við sem stjórnarformaður af Ernu Gísladóttur sem setið hafði í stjórn Haga frá árinu 2010. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sagði starfi sínu lausu sama dag og Finnur en hætti svo við að hætta.

Stjórnendum félagsins hafði verið legið á hálsi fyrir að hafa orðið eftir á í samkeppni við aðrar matvöruverslanir. Þá hafa kaup félagsins á Olís ekki skilað jafn miklu hagræði og vonir stóðu til.  Nýi Finnur kynnti fyrsta uppgjör sitt fyrir viku þar sem ný stefna var boðuð. Meðal annars á að selja útivistarvöruverslunina Útilíf sem og Reykjavíkur Apótek, sem Hagar keyptu fyrir ríflega ári. Þá var stefnan að fjölga apótekum þó nokkuð.

Á kynningarfundinum nefndi Finnur að fyrirtækið þyrfti að miða stefnu sína við að vera sífellt reiðubúið að mæta breyttri hegðun og áhugasviði neytenda. Þá ættu Hagar inni ónýtt tækifæri á sviði upplýsingatækni, sem þarf ekki að koma á óvart miðað við reynslu Finns á því sviði, sem fyrrverandi forstjóri Origo. Hagar hyggjast kynna frekari breytingar á stefnu sinni á næstu vikum sem athyglisvert verður að fylgjast með.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.