*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Huginn og muninn
17. maí 2020 10:01

Snögg að finna nýjan Finn

Um fátt er meira talað í viðskiptalífinu en hvað hafi eiginlega gerst á bakvið tjöldin hjá verslunarrisanum Högum.

Finnur Oddsson nýr forstjóri Haga.
Haraldur Guðjónsson

Um fátt er meira talað í viðskiptalífinu en hvað hafi eiginlega gerst á bakvið tjöldin hjá verslunarrisanum Högum.

Um mánaðamótin bárust þau stórtíðindi að bæði Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, væru að stíga til hliðar. Finnur hafði þá verið forstjóri í 15 ár og Guðmundur verið í hartnær þrjá áratugi hjá Bónuss. Viku síðar var tilkynnt að Finnur Oddsson tæki við forstjórastöðunni hjá Högum.

Sú ráðning er áhugaverð. Í fyrsta lagi er áhugavert að ráðning nýs forstjóra hafi tekið sjö daga. Það er afar skammur tími svo ekki sé meira sagt en til samanburðar tók það Icelandair Group um þrjá mánuði að tilkynna formlega um eftirmann Björgólfs Jóhannssonar haustið 2018.

Í öðru lagi er áhugavert að Finnur kemur frá Origo, sem er eitt öflugasta fyrirtæki landsins á sviði upplýsingatækni. Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga, var afdráttarlaus þegar hún sagði að reynsla hins nýja forstjóra í tæknigeiranum myndi „nýtast félaginu vel á þeim áhugaverðu tímum sem framundan eru“.

Þetta er eftirtektarvert þegar haft er í huga að margir telja að Hagar hafi setið eftir í netverslunarkapphlaupinu. Hrafnarnir eru reyndar ekki endilega á því, þar sem þá rekur ekki minni til þess að íslensk netverslun hafi verið skila sérstökum hagnaði undanfarin ár, þó á því kunni að verða breyting.

Einungis sex dögum áður en tilkynnt var um brotthvarf Finns Árnasonar og Guðmundar var haft eftir ef þeim síðarnefnda í Viðskiptablaðinu að möguleikinn á að setja upp netverslun hefði margoft verið ræddur en niðurstaðan alltaf verið sú sama „að viðskiptamódel Bónusar bjóði ekki upp á að setja á fót netverslun“.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.