Ein mikilvægasta og stærsta sjávarútvegssýning heims var haldin í Barcelona í síðustu viku. Tugþúsundir kaupenda frá öllum heimshornum mættu til leiks. Stofnað var til nýrra viðskiptasambanda og hin eldri treyst. Þessi sambönd eru hornsteinn efnahagslegrar hagsældar Íslendinga, sem selja 98% af sínu sjávarfangi á erlendum markaði.

Sjávarafurðir eru yfir 40% af vöruútflutningi landsins. Svo mikið vægi sjávarútvegs fyrir þjóðarhag er fáheyrt í heiminum. Sjálfbærar fiskveiðar þar sem hugað er að umhverfi, efnahag og samfélagi gera að verkum að Íslendingar hafa einstaklega góða sögu að segja á alþjóða vettvangi.

En fiskur selur sig ekki sjálfur. Vinnan er þrotlaus, keppinautarnir margir. Það sást vel í Barcelona. Auðvelt er að falla í skuggann innan um hundruð fyrirtækja og stórþjóðir með mikið fjármagn. Það þarf að skara fram úr.

Öll njótum við góðs af því þegar vel gengur í útflutningsatvinnugreinum. Kraftmikill útflutningur er grunnforsenda hagvaxtar og áframhaldandi góðra lífskjara. Á erfiðum útivelli eru allir Íslendingar í sama liði.

Rétt eins og á alþjóðlegu listahátíðinni Feneyjatvíæringnum, sem nú stendur yfir í samnefndri borg á Ítalíu. Hátíðin er þungamiðja í alþjóðlegum listum og menningu. Að þessu sinni opnaði Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra íslenska skálann í Feneyjum. Af því tilefni sagði ráðherrann að þátttaka Íslands skipti miklu máli fyrir menningu landsins og kynningu hennar á erlendri grundu.

Nokkur fjöldi opinberra starfsmanna var jafnframt mættur til Feneyja til að styðja við þátttöku Íslands og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins miðluðu mikilvægi þátttöku landsins til almennings heima á Fróni. Þarna var stemning, við vorum öll í sama liði – að lyfta íslenskri menningu upp úti í heimi.

Næstum eins og á stóru sjávarútvegssýningunni í Barcelona. Þar var þó enginn ráðherra, opinberir erindrekar í tugum eða Ríkisútvarpið að sýna stuðning í verki. Kannski væri ráð að flytja fiskinn til Feneyja.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.