*

þriðjudagur, 28. september 2021
Heiðrún Lind Marteinsd.
4. apríl 2021 13:43

Fiskur og kvikmyndir

Ef ekki hefði komið til frumkvæði útgerða, þá hefðu loðnuleiðangrar hvorki orði fugl né fiskur.

Einar Ásgeirsson

Kvikmyndagerð á Íslandi er ríkisstyrkt. Bæði innlend og erlend. Auðgun menningar er að sjálfsögðu mikilvægt og göfugt verkefni. Ekki síður kann að felast ríkuleg ávöxtun í kvikmyndagerð sem getur laðað hingað til lands fólk og fjármagn. Oft þarf nefnilega að eyða krónum til að fjölga þeim. Ekki ósvipað og kartöflur sem notaðar eru í útsæði.

Á dögunum lauk snarpri loðnuvertíð, sem glöggir menn telja að geti teygt sig í 25 milljarða króna í útflutningstekjum og margföldunaráhrifin í hagkerfinu öllu eru veruleg. Miðað við stöðuna í samfélaginu er óhætt að fullyrða að þessi tiltekna vertíð hafi verið mikilvægari en nokkur önnur.

Það telja margir sérkennilegt, að uppsjávarútgerðir þurftu sjálfar að fjármagna stóran hluta loðnuleitar og -mælinga í vetur, þrátt fyrir að lög kveði á um að slíkar rannsóknir teljist hlutverk Hafrannsóknastofnunar. Án loðnuleitar og -mælinga er ekki hægt að gefa út kvóta til veiða. Miðað við þá hagsmuni sem þarna voru undir, voru það sáralágar upphæðir sem Hafrannsóknastofnun þurfti að leggja til þannig að loðnuvertíð gæti orðið að veruleika. Ef ekki hefði komið til frumkvæði útgerða, þá hefðu loðnuleiðangrar hvorki orði fugl né fiskur.

Sú uppákoma er orðin æði þreytandi að fjármunum ríkisins sé ekki til að dreifa þannig að Hafrannsóknastofnun geti sinnt lögbundn[1]um hafrannsóknum. Á umliðnum árum hafa loðnuútgerðir ítrekað þurft að hlaupa undir bagga með ríkinu til að hægt sé að fara í loðnuleit og -mælingar. Þetta gengur ekki til lengdar, enda engin rök eða réttlæti sem styðja það að einn útgerðarflokkur kosti hafrannsóknir umfram þau gjöld sem á eru lögð lögum samkvæmt.

Það má kannski velta því fyrir sér hvort aukinn vindur kæmi í seglin ef loðnuleit næstu vertíðar yrði kvikmynduð, með viðeigandi styrkveitingu frá ríkinu. Verra bíó hefur vafalaust verið gert.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.