Guðlaugur Þór Þórðarson ku vera að íhuga framboð til formanns Sjálfstæðisflokksins. Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með stjórnmálum að hann hefur rennt hýru auga til formannsstólsins um árabil.

Guðlaugur Þór hefur unnið ötullega að því undanfarin ár að tryggja sínum stuðningsmönnum landsfundarsæti og mögulega gæti hann borið sigur úr býtum. Hitt er annað mál að það er ekki víst að allir hans stuðningsmenn væru tilbúnir til þess að styðja framboð hans á þessum tímapunkti á móti sitjandi formanni, Bjarna Benediktssyni. Bjarni hefur setið lengi og því hefur verið spáð að hann muni ganga sjálfur frá borði innan tíðar. Sumum stuðningsmönnum Guðlaugs hugnast ekki fjandsamleg yfirtaka og vildu heldur sjá hann taka slaginn þegar Bjarni fer sjálfur frá, á meðan aðrir úr hans röðum vilja ekkert heitar en sjá hann fella Bjarna.

Orðrómar hafa verið á kreiki um að Bjarni hyggist hætta á milli landsfunda, þannig varaformaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir taki við, og greiða henni þannig leiðina. Það myndi gera Guðlaugi Þór erfiðara um vik að komast að og mögulega mun sú sviðsmynd spila inn í ákvörðun hans. Þá blasir við að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra hefur sömuleiðis augun á stólnum. Staða þeirra styrkist með hverju árinu af fenginni reynslu og líklega hugsar Guðlaugur: „Ef ekki núna, þá hvenær?“

Flokkurinn man fylgisfífil sinn svo sannarlega fegurri og það mun væntanlega verða meginstef framboðs Guðlaugs Þórs, fari hann fram. Ljóst er þó að hann tæki mikla áhættu með formannsframboði, hvort sem það væri í anda hugrekkis eða fífldirfsku.

Bjóði Guðlaugur Þór sig fram og tapi, má leiða að því líkur að hann muni ekki njóta trausts áfram sem ráðherra. Sigri hann, mun það reynast honum mikil áskorun að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram, en það hefur staðið af sér ólgusjó fyrir tilstilli þess trausts sem ríkir á milli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna. Sama traust mun ekki vera á milli Guðlaugs Þórs og Katrínar. Þá er spurning hversu vel honum gengi að eiga við ímyndarkrísu flokksins, sem hefur sérstaklega átt undir högg að sækja hjá ungu fólki og konum.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. september 2022.