*

laugardagur, 4. desember 2021
Týr
29. ágúst 2021 15:04

Fjárans ríka fólkið

Hærri skattar á hina ríku gefa ríkissjóði ekki nema brotabrot af þeim tekjum sem þarf til að standa við loforð stjórnmálamanna.

Eyþór Árnason

Það fer alltaf af stað ákveðin umræða þegar skattayfirvöld bera afbakaða mynd af launum landsmanna á torg ár hvert eftir framlagningu álagningarseðla. Sama hvað fólki finnst um birtingu álagningarseðlanna sýnir umfjöllun um þá að það eru ekki margir á Íslandi sem telja mætti í hópi ofur-ríkra.

Vissulega er til stóreignafólk, örfáir aðilar eru með tekjur sem telja á annan tug milljóna (sem eru að öllum líkindum ekki hefðbundnar launatekjur) og í einhverjum tilvikum rata einstaklingar á lista yfir þau tekjuhæstu það árið vegna einstakra gjörninga, s.s. sölu á fyrirtækjum, skiptingu arðs eða af öðrum ástæðum.

* * *

Fátt er þó hallærislegra en það þegar skrifaðir eru langir leiðarar í hneykslunartón yfir launum eða stöðu einstakra aðila eða þegar verkalýðsleiðtogar (sem sjálfir eru á háum launum) býsnast yfir meintum ofurlaunum. Staðreyndin er sú að svokölluð ofurlaun eru sjaldgæf á Íslandi, því miður. Þeir sem meira hafa á milli handanna greiða augljóslega hærri skatta og verja meira fjármagni í neyslu (sem skapar störf og eykur skatttekjur). Þetta kann að hljóma kalt í eyru láglaunafólks eða sjálfskipaðra réttsýnishafa en það er ekki samfélagslegt vandamál að til sé vel stætt fólk á Íslandi, jafnvel ríkt fólk.

* * *

Það er þó vert að hafa í huga að þegar stjórnmálamenn segjast ætla að leggja hærri skatta á hina ríku er það almennt mjög fámennur hópur. Hærri skattar á þann hóp gefa ríkinu ekki nema brotabrot af þeim tekjum sem þarf til að standa við þau miklu loforð sem stjórnmálamenn eru búnir að gefa hverju sinni.

Það sýndi sig meðal annars á árunum 2009-2013 þegar allar tekjur á bilinu 200-650 þúsund krónur féllu í neðra þrep hátekjuskatts og báru þannig um 40% skatt, en tekjur yfir 650 þúsund krónur báru um 46% skatt. Þannig virka skattahækkanir í raun og veru. Það er ágætt að hafa það í huga í komandi kosningum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.