Umtalsverðar breytingar eru að eiga sér stað í gangi efnahagsmála hér á landi. Eftir hraðan hagvöxt síðustu ára er nú tekið að hægja á. Teikn eru á lofti um að hægt hafi á vexti gjaldeyristekna af ferðamönnum en þær hafa verið ein helsta driffjöður núverandi hagvaxtarskeiðs. Einnig hefur hægt á vexti í annarri útflutningstengdri starfsemi s.s. í stóriðju. Vekur þetta upp spurningar hvernig verður byggt undir hagvöxt næstu ára.

Dregur úr fjárfestingum í stóriðju og tengdum greinum

„Framundan er ótímabundið hlé á virkjanaframkvæmdum,“ sagði forstjóri Landsvirkjunar í fjölmiðlaviðtali í tengslum við uppgjör fyrirtækisins sem birt var fyrr í þessum mánuði. Dregið hefur úr fjárfestingum í stóriðju og tengdum greinum undanfarið og er reiknað með að samdrátturinn haldi áfram í ár og á næsta ári ef marka má nýja spá Seðlabankans.

Kemur samdrátturinn í kjölfar talsverðs vaxtar í þessari grein á árunum 2015 og 2016 en heildarfjárfestingin í stóriðju og tengdum greinum nam ríflega 70 mö.kr. á árinu 2016 og hafði þá ríflega tvöfaldast á föstu verði frá árinu 2014 en það ár byrjaði fjárfesting að taka við sér í greininni. Vó fjárfesting greinarinnar tæplega 19% af heildarfjárfestingu atvinnuveganna á árinu 2016 og því er um umtalsvert stóran þátt hennar að ræða. Samdráttur í þessum hluta fjárfestingar atvinnuveganna hefur því talsverð áhrif á fjárfestingarstigið í hagkerfinu.

Dregur úr fjárfestingum tengdum ferðamönnum

Stór hluti þess vaxtar sem verið hefur í atvinnuvegafjárfestingu á síðustu árum hefur verið tengdur fjölgun ferðamanna hér á landi. Mikil uppbygging hefur verið í hótelum og aukin fjárfesting í bílum til útleigu, rútum og flugvélum svo eitthvað sé nefnt.

Nú hefur hins vegar hægt umtalsvert á fjölgun ferðamanna. Samhliða dregur úr fjárfestingu í tengdri starfsemi. Svo dæmi sé tekið hefur hægt á vexti í framboðnum gistirýmum á hótelum undanfarið samhliða minni vexti í fjölda ferðamanna. Var aukningin 8,9% í fyrra í fjölda herbergja á hótelum samanborið við 19,5% árinu áður. Reikna má með enn minni aukningu í ár. Fjárfesting í hótelog veitingarekstri nam tæplega 38 mö.kr. á árinu 2016 og hafði hún þá nær áttfaldast á föstu verði frá því að uppsveiflan í greininni hófst.

Mikil uppsöfnuð fjárfestingarþörf í íbúðum og innviðum

Fjárfestingar í innviðum og íbúðum hefur verið lítil undanfarin ár og undir þörf. Hefur hluti þessara fjárfestinga af landsframleiðslu verið lágur í sögulegu ljósi enda vöxtur þeirra talsvert undir því sem aukin efnahagsumsvif og fólksfjölgun hefur kallað á. Hefur þetta skapað mikla uppsafnaða þörf fyrir íbúðarbyggingar og innviðafjárfestingar.

Í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hér á landi sé 372 ma.kr. eða ríflega 15% af landsframleiðslu. Mest er uppsöfnuð þörf í fjárhæðum mælt í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og orkuflutningum. Hefur viðhaldi innviða verið verulega ábótavant á þessum sviðum og ástand margra þeirra, s.s. vega, af þeim sökum nú mjög slæmt.

Lítið hefur verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði í þessari uppsveiflu og hefur sú fjárfesting verið langt undir því sem þörf hefur verið fyrir m.a. vegna fólksfjölgunar. Afleiðingin hefur verið mikil hækkun verðs íbúða. Hefur Íbúðalánasjóður nýlega bent á að íbúðum á landinu öllu þyrfti að fjölga um 17 þúsund árin 2017 til 2019 til að mæta að fullu þörf og uppsöfnuðum skorti en m.v. spá Samtaka iðnaðarins er líklegt að ekki verði byggt nema lítill hluti þess á tímabilinu. Það er þó háð því hvort og að hve miklu leyti sveitarfélög leggi áherslu á að auka lóðaframboð á næstunni.

Með fjárfestingum er byggt undir hagvöxt næstu ára

Ljóst er að minni umsvif í fjárfestingum í raforku og tengdum greinum ásamt minni vexti ferðaþjónustu og almennt hægari vexti hagkerfisins skapar svigrúm til þess að auka verulega við fjárfestingar í íbúðum og innviðum á næstunni. Nú er farið að slakna á þeirri spennu sem hefur verið á hagkerfinu undanfarið. Með auknum fjárfestingum á þessum sviðum er bæði dregið úr niðursveiflunni framundan og byggt undir hagvöxt litið til lengri tíma. Fjárfestingar í innviðum munu skila sér í aukinni framleiðni og velmegun íbúa landsins.

Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.